Ég vakti frameftir. Við höfðum net í rútunni og ég var langsíðastur í koju, enda langsíðastur á lappir í gær. Ég horfði á vídeó og gerði allskonar misgáfulega hluti sem maður gerir á internetinu. Þynnkudauður og hálftómur. Svo fór ég bara að sofa. Rútan hreyfði sig úr stað fljótlega eftir það en ég man ekki mikið meira. Ég var ekki fullur. Ég var bara þreyttur. Og bugaður.
Núna erum við í Bremen og klukkan er 1.09. Mér skilst að brottför sé klukkan tvö. Ég ætti sennilega að vera úti að drekka því hér um borð í rútunni er ekkert að gerast. Robert er sofandi, Þráinn er að rembast við Meistaradeildartitil og Flex er að spila nammikramsleik af Frozen-gerð. Hann var að lýsa því yfir að þetta væri erfitt. Þetta er ekki nokkurt vit. Ég ætla að kíkja útfyrir og sjá hvort ég finn ekki partý. Já, ég er í stuði, það að er skammt stórra högga á milli. Sjáum til, sjáum til.
Snæbjörn fann partí og söngvari Eluveite bauð upp á eðalvodka til að launa allt Opalið sem við höfum deilt fallega með samferðafólki okkar. Það síðasta sem hann sagði áður en ég rétti honum sneisafullt hvítvínsglas af þessu góðgæti var “æji vilt þú ekki bara klára bloggið”. Ég held hann hafi verið að grínast en það er bannað að breyta.
Pitturinn!
Þetta var gott gigg. Við fengum því reyndar seinkað um hálftíma þar sem staðarhaldarar höfðu auglýst að herlegheitin ættu að byrja kl 20:00 en skikkað okkur á svið hálftíma fyrr. Það sama var víst upp á teningnum í gær sem er óþolandi. Lesendur fyrri blogga muna kannski eftir því að þetta gerðist líka á síðasta túr í Vín. Þar fengum við kvartanir frá fólki sem hafði komið að sjá okkur en rétt náð seinasta lagi. Nú höfum við Flexa með okkur sem barði í borðið og fékk þessu breytt. Mikilvægur maður hann Flexi okkar, Tibor sem heldur um stjórnartauma ferðalagsins var með okkur í liði í þessu. Reyndar eru allir orðnir manneskjulegri og búnir að átta sig á því að það sem er gott fyrir okkur er líka gott fyrir túrinn. Þetta er það sem við leggjum út með í hvert sinn að vinna okkur inn virðingu og traust allra sem með okkur ferðast með því að skila okkar 100% á hverju kvöldi og vera almennt viðkunnalegir og lausir við vesen og við virðumst hafa landað því í enn eitt skiptið. Bremenbúar voru kátir og í stuði fullur salur og við spiluðum eitt af okkar bestu giggum til þessa. Fallegt fólk og alveg til í að skemmta sér með hljómsveit sem fæstir höfðu heyrt í.
Eftir gigg var slegið upp fótbotaspilsmóti sem byrjaði sakleysislega en keppnisskapið var fljótt að hlaupa í menn. Þeir svilar kepptu við mig og Baldur fyrstu leikina og strax í öðrum leik var alveg ljóst að hér voru menn ekki að skemmta sér. Þetta var ekki leikur þetta var stríð, mikill sviti, og sterkar tilfinningar. Áður en bandið leystist upp var ákveðið að skora á rússana í landsleik sem skemmst er frá að segja að við rústuðum. (JGJ)
Klukkan er 1.58. Þetta var allt saman ljómandi. Jón Geir lýsti þessu mjög vel hér að ofan. Ég er þéttágætur, þetta var skemmtilegt. Og núna erum við í rútu. Ég veit ekki hvar Baldur er en við hinir erum hér frammí. Robert var að búa sér til kaffi, núna er Gunni að búa til kaffi halda okkur hinum. Stóra rútan var að leggja frá, við keyrum um leið og Robert er búinn að koma sér fyrir. Við erum í Bremen og hér var gaman að spila. Hér höfum við ekki spilað fyrr. Landvinningar.
Þessi dagur var alveg týpískur túrdagur. Ég sá ekkert hér í borg. Ég sá ekki einu sinni fremri helminginn af tónleikastaðnum fyrr en ég fór að pissa eftir gigg. Baldur var að kúldrast hér inn í rútuna rétt í þessu, hann var að brenna þá sokka sem fundust á gólfinu í dag. Þetta er orðið ákveðið ritúal. Ekki skilja sokkana eftir á gólfinu, þá hendir Robert þeim út á plan, Baldur pikkar þá upp og brennir þá.
Maðurinn sem keyrir sendibílinn, sá sem við munum ekki hvað heitir en varð þess valdandi að við settum ekki rörasprengju í tankinn á bílnum hans, hann er skemmtilegur. Maður á miðjum aldri og passlega talandi á ensku. Á rauðvínsfyllerínu í Barcelona pikkaði hann upp eitt orð á íslenska tungu. Hvern einasta morgun mætir hann okkur og segir af festu: „Hérna!” Hérna. Hið nýja halló. Í hina áttina má nefna að Marci, mónitormaður allra tíma, býður okkur aldrei skál nema að segja: „Ekki segj’etta“. Hann er reyndar að tala sitt móðurmál, ungversku, en þetta hljómar víst svipað. Skál það er að segja. Skál á hans tungu.
Og hér fékk ég kaffi. Nýmalað kaffi. Ég veit ekki hvað við gerum eftir að Gunni hverfur frá okkur, hann er kaffimeistari rútunnar og gerir hlutina vel. Jebb, við eigum bara tvö gigg eftir með Gunna. Meira um það síðar.
Bibbi, þungur á brún, en þó léttur í lund.
Túrinn er rétt að verða hálfnaður. Þetta er alltaf tíminn þar sem byrjar að hrikta í. Margar vikur búnar, margar vikur eftir, nýjabrumið horfið og dagarnir eins. Við höfum svolítið verið að rífast síðustu daga. Ekki kannski rífast, en allavega kíta. Ég varð til dæmis vitni að því að Flexi og Þráinn voru ekki sammála um hvernig raða ætti dótinu í kerruna. Hvorugur hafði rangt fyrir sér. Og það er hérna sem skilur að. Nú þurfa menn að leggja sig fram við að þola hvern annan. Og það gengur vel. Öll deilumál eru tækluð um leið og þau koma upp og allir gera sitt allra besta. Nákvæmlega núna er tíminn þar sem ég sannfærist um að Skálmöld er besta hljómsveit í heimi. Hér sitjum við allir frammí, klukkan sýnir mér 2.18, og við vorum að leggja af stað. Hvert eitt og einasta gigg á þessum túr hefur verið frábært og það er bara vegna þess að við látum það gerast, stemningin er alger og allt þetta hreinlega eitthvað sem er ekkert minna en forréttindi að fá að upplifa. Við erum allir gríðarlega ólíkir, höfum misjöfn gildi og skyldur, eigum okkar líf heima sem þarf að sinna og allir leggja sig fram við það. Í samvinnu við hið frábæra fólk sem okkar bíður heima leggjum við það á okkur af fullum áhuga að kúldrast í þröngri rútu til að spila fyrir þá sem vilja heyra. Nú rétt í þessu leit ég upp frá tölvunni. Hér allt í kringum mig sitja bestu menn sem ég hef kynnst. Við höfum eitt missjón, missjónið að vera besta hljómsveit í heimi og skemmta okkur á meðan. Vonandi náum við að deila erindinu með sem flestum, en hvernig sem fer þá er nákvæmlega þessi stund hér í rútunni það sem máli skiptir. Hér eru vinir á ferð, vinir sem hafa eitt sameiginlegt markmið. Ég óska öllum þess að upplifa eitthvað þessu líkt í lífinu. Nú ætla ég að hætta að skrifa og skála við vini mína. Þetta var góður dagur. Fábrotinn vissulega, en algerlega frábær.
Meistaralegt dagsins: Núna.
Sköll dagsins: Ekkert. Ég er bara glaður.