Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Lúxembúrg já. Hingað hef ég aldrei komið. Og á ekkert eftir að líða þannig endilega þegar við förum héðan. Bílastæði, það var það sem ég sá. Rúmt og gott bílastæði sko, en ekkert sem svarar fyrir heila þjóð. En hér er allt gott. Fólkið er gott, maturinn frábært, sturtur um allt, sviðið stórt og framúrskarandi gott, tækni- og annað starfsfólk ekki bara starfi sínu vaxið heldur líka stórskemmtilegt og sófar um allt. Sófar! Ég sit í góðum sófa með pláss í kringum mig og það hef ég ekki gert í gríðarlega margar vikur. Litlu hlutirnir. Æi já.
Ég krassaði í gær. Ég fór bara í kojuna og reyndi að horfa á bíómynd en endaði á einhverjum Top Gear Special um Bond-bílana. Sem ég var búinn að sjá áður og allt. Yfirleitt hef ég algert óþol fyrir sjónvarpsefni sem ég hef séð áður en þetta var sirka áreytið sem ég réð við. Og svo andaðist ég frá fjögur til fjögur. En ég var líka mjög til í þetta þegar ég vaknaði.
Núna er klukkan 23.16 og ég sit í sófa hér baksviðs. Sóóófa. Hér eru allir mínir uppáhaldsmenn hjá mér og við erum að drekka rauðvín sem
Bibbi er hér við lyklaborðið, umkringdur helstu nauðsynjum.
Anton, hljóðmaður og fararstjóri Rússanna, var að hella í allskonar glös handa okkur. Ég hef alltaf haft góða tilfinningu fyrir þessum góðlega hobbita, brosandi gegnum skeggið með hár niður á mjóbak. En síðustu daga hefur hann algerlega brillaerað. Mig grunar að hann finni tengingu gegnum Flexa sem hefur jú ekki túrað með okkur áður. Þeir eru báðir hljóðmenn og hafa aðstoðað hvorn annan gegnum þetta allt saman. Eluveitie eru í sirka miðju settinu sínu og við erum í slakanum. Við fórum aðeins fram áðan og hittum meðal annars íslenskan flugvirkja sem sagðist heita Bjarki ef ég man rétt. Hann er búinn að búa hér um kring síðan 2005. Afskaplega þægilega skemmtilegur maður.
Það er ró yfir okkur. Svo sem alveg hlátur við og við og allir í stuði en við erum alveg í fjórum sófum. Giggið gekk ljómandi vel og við spiluðum vel í góðu sándi en þetta var svolítið stíft allt saman. Þetta er bara svona, ég kíkti inn í sal til Eluveitie og þar er stemningin svipuð. Auðvitað aðeins fleiri en samt ekki allur munur á. Þetta er áfram erfitt, spila fyrir fólk sem hreyfir sig ekki, en við slökum hvergi á svo mikið er víst. Já, þetta er allt saman satt en víst gömul tugga.
Rúmir tíu dagar eftir og nú erum við þreyttir. Ég ætla ekkert að fela það, ég væri til í að fara heim á eftir. En það er vitanlega ekki um það að ræða. Ég veit ekki hvar maður væri í kúrfunni ef samferðamennirnir væru ekki svona miklir afarhöfðingar. Rúmur mánuður kominn, táfýla, hrotur, rifrildi, allskonar brölt, þynnka, fyllerí, burður á þungum hlutum dag eftir dag og allir dagar eins og gráir. Þetta er uppskrift að óskaplegum leiðindum og jafnvel illindum ef svo ber undir. Við erum allir risastórir karakterar sem láta finna fyrir sér, höfum ógurlegar sérviskur og getum allir verið óþolandi. En þetta gengur. Einhvernveginn gengur þetta og nú sitjum við í hnapp og segjum sögur, hlæjum, göntumst, segjum brandara á kostnað hvers annars og öllum finnst gaman. Þetta er Debenhams, þetta er Skálmöld. Þetta er nákvæmlega það sem heldur þessu bandi gangandi. Við skulum alltaf tækla hlutina þegar þeir koma upp, vandamálin eru aldrei stærri en fólkið og þegar dagur kemur að kveldi er þetta létt. Og gaman. Rúmum mánuði seinna, og reyndar rúmum fimm árum ef því er að skipta. Við þurfum allir að fórna ýmsu fyrir Skálmöld en það gerum við glaðir og með fólkið okkar okkur til stuðnings. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í dag. Eluveitie voru að klára og við ætlum fram að tala við fólkið. Rútan leggur af stað klukkan 2 og Flexi var að stinga upp á Kana. Það líst mér vel á. Á morgun spilum við í Ludwigsburg í Þýskalandi. Ég veit ekkert hversu langt er þangað en miðað við þessa tímasetningu verður það sjálfsagt svolítill spotti. Sjáum til hvað gerist næst.
Meistaralegt dagsins: Sófar.
Sköll dagsins: Nei.