Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Klukkan er 21.24 og Eluveitie eru að klára fyrsta lagið. Ég sit í stóru bakherbergi og horfi á hálfnakta Rússa pakka sér saman. Þetta var bara einn af þessum dögum. Ég hef varla farið út af tónleikastaðnum, hér er þokkalega rúmt um alla, internetið virkar, en svo sem ekkert meira en það, og bara einhvern veginn þannig stemning. Lítið að frétta svo sem og allir frekar dasaðir.
Arkona halda áfram að taka óþarflega langan tíma í hlutina. Við vorum aftur frekar seinir fyrir vegna þess að þau voru svo lengi að sándtékka og koma sér fyrir. Þolinmæði Flexa færist alltaf nær þolmörkum og sennilega kemur að því að hann láti í sér heyra við tæknimanninn þeirra. Það vill auðvitað enginn illt en svona vill þetta oft verða, allir vilja hafa sitt í lagi og hugsa kannski ekki alveg um það hvort þeir séu að ganga á hluta annarra. Við kippum þessu í liðinn.
Bibbi og Þrábi, eins og hann er oft kallaður í blogginu.
Sviðið hér í Glasgow er það minnsta sem við höfum spilað á til þessa. Þetta var eiginlega bara kjánalegt. Trommupallurinn er meira að segja þarna, en ekki nema brot af honum, og það sem eftir var af sviðinu gerði ekkert meira en að rúma okkur. Við spiluðum hér fyrir ári síðan og þá man ég að okkur þótti plássið lítið. En við þessar aðstæður var þetta hálffáránlegt og ég man varla eftir því að við höfum áður spilað í svona litlu plássi. Jú, á Paddy’s í Keflavík í árdaga Skálmaldar. Þá spilaði ég með bassahálsinn undir ride-cymbalnum hans Jóns og með rassinn utan í stoð og Böbba til skiptis. Hér voru tæknimenn þó með allt sitt á hreinu sem hjálpaði mikið til. Á miðju gigginu fann ég að Þráinn Árni hallaði sér skart upp að mér og ég lagðist á móti. Við tókum svakalega pósu á þungarokksvísu og fórum mikinn. Í miðri pósunni kallaði hann svo inn í eyrað á mér: „Ég var næstum dottinn!“. Hann var ekkert að reyna að vera kúl. Hann var bara að reyna að halda jafnvægi. Með minni hjálp. Þetta var pínu stíft gigg framan af, kannski hálfur salur af fólki og pínu ládeyða yfir öllu. En við létum þau hreyfa sig. Smátt og smátt fjölgaði í salnum og undir lokin var allt orðið kjaftfullt. Fínt gigg sem ég verð búinn að gleyma eftir 3 daga.
Nú hefur fækkað um einn í Eluveitie. Sekkjapípuleikarinn, hinn geðþekki Patrick, þurfti frá að hverfa vegna einhvers vesens. Hvort þetta er endanleg blóðtaka þori ég ekki að segja til um en eitthvað drama átti sér víst stað. Leiðinlegt. Okkur kom alveg einstaklega vel saman við Päde. Tónlistarlega leysa þau þetta með hjálp tækninnar. Það brennur við í þessum geira tónlistar að sveitir spili með hjálp þess sem kallað er Click Track. Klikktrakk er talning í hljóðformi sem trymbillinn, og stundum fleiri, hafa í eyrunum meðan spilað er. Þannig er tryggt að lögin séu alltaf á sama hraða. Þetta finnst sumum vera svindl. Það sem fleirum finnst svindl er þegar þessi tækni er tekin skrefinu lengra. Það er jú svo að þegar tempóið er vitað upp á sekúndubrot er ekkert mál að láta tölvuna spila með sér. Og það gera sumir óspart. Einhver bönd hafa bara eitthvað smotterí til að krydda, fallega strengi eða stöku bakrödd. Sumar hljómsveitir ganga mun lengra og hafa gríðarlega mikið til uppfyllingar. Þeir sem lengst ganga spila ekkert í alvörunni heldur þykjast bara. Ég ætla ekki að fella dóm hvað er rétt og hvað er rangt, en við höfum farið þá leið að spila allt sjálfir og notum ekkert helvítis klikktrakk. Ég held nú raunar að Eluveitie gangi ekki mjög langt í þessum efnum. Jújú, maður heyrir annars slagið hljóð sem enginn á sviðinu er að framkvæma, en það eru meira svona minimaísk áhrifshljóð frekar en eitthvað drastískt. En tölvan er þarna og hún mallar, og það var greinlega ekki mikið mál að kveikja á sekkjapípunni þótt sekkjapípuleikarinn væri farinn. Ég veit ekki. Mér finnst þetta undarlegt. Fyrir mér er þetta ekki það að vera í hljómsveit. Galdurinn er að hafa þetta í hendi sér og ef einhver ruglast, spilar illa, hraðar/hægar en venjulega eða beygir almennt út af brautinni þá heyrist það. Að sama skapi er ekkert meira gefandi en að spila í vel æfðri hljómsveit þegar allt smellur saman. Það er kraftur sem ég fullyrði að ómögulega sé hægt að framkalla ef öryggisnetið, tölvan, spilar með. Það er eitthvað undarlegt andrúmsloft hjá Svisslendingunum eftir þetta allt saman. Sjáum hvernig þetta fer.
Við borðuðum lífrænt í gær, hollt, bragð- og staðgott. Ekki í dag. Við fórum á helvítis McDonalds. Ætli þetta sé ekki í kannski fimmta skipti sem ég fer á slíkan stað á ævinni, en þetta var svona hópferð hjá okkur strákunum. Ég lét Böbba panta. Ég át tvo hamborgara sem áttu ekki að vera eins en brögðuðust auðvitað alveg eins. Franskarnar, tómatssósan og kókið var líka allt eins. Það er bara eitt bragð á McDonalds. Og það hræðilegasta er að manni líður vel þegar maður er búinn að éta þennan mannaskít. Svona vellíðan í bland við eftirsmá og skömm. Grunar að þetta sé eins og að halda framhjá konunni sinni. Pínu gott, en algerlega ófyrirgefanlegt.
Núna eru strákarnir að róta meðan ég skrifa þetta. Þessi tónleikastaður er þeirri bölvun gæddur að hann er á fjórðu hæð og hér er engin lyfta. Þetta er því helvíti mikið streð, burður á græjum fram og til baka. Mikið vona ég að Merlin þurfi sjálfur að bera trommupallinn. En neinei, að er klárlega ekki þannig.
Á morgun spilum við í Belfast á Norður-Írlandi og þangað höfum við aldrei komið. Ég veit ekkert hversu lengi við verðum að koma okkur þangað en mér skilst að Robert ætli að leggja í hann milli tólf og hálfeitt. Við tökum ferjuna klukkan fjögur í nótt en meira veit ég í raun ekki. Ég er búinn að hafa samband við stórvin okkar sem býr í Belfast. Sá heitir Gareth og er bassaleikari í hljómsveitinni Alestorm sem við túruðum með 2011. Við höfum haldið miklu sambandi síðan enda þótt við höfum ekki náð að hittast. Hann er búinn að lofa okkur góðum degi á morgun, túrgædun, sturtu og þvottavél ef við viljum svoleiðis og svo bara almennum meistaralátum. Hann er stórbrotinn maður sem ég hlakka mikið til að hitta.
Strákarnir eru búnir að róta. Ég skulda.
Meistaralegt dagsins: Pósan okkar Þrába.
Sköll dagins: Makkarinn.