Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Gunni er farinn. Klukkan er 2.09 og við vorum að kveðja hann rétt í þessu. Svo er nú það að sjö vikna túrar í útlöndum eru ýmsu háðir og að ýmsu er að hyggja. Þegar við ákváðum að taka þennan túr var útséð með að Gunni gæti verið með okkur allan tímann. Hann þarf að sinna hámenningunni heima við, sem og allskonar öðru skemmtilegu, og þannig var dagurinn í dag var hans síðasti dagur. Áður en við héldum af stað höfðum við samband við mann sem skyldi leysa Gunna af, þjálfuðum hann upp og gerðum það sem þurfti að gera. Ákvörðun sem þessi er ekki tekin af léttum hug. Skálmöld telur sex meðlimi sem lifa og hrærast í því sem bandið gerir. En stundum standast hlutir á og þá hluti þarf að leysa.
Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Svaraðu mér!
Þetta er aðeins í annað skipti sem við höfum þurft afleysingamann á ferli bandsins. Hið fyrra var fyrir mjög skömmu síðan þegar Jón Geir þurfti í axlaraðgerð. Þá fengum við meistarasnillinginn Kristján B. Heiðarsson til að hlaupa í skarðið sem auðvitað leysti sitt með ágætum, og raunar gott meira en það. Þegar upp kom að leysa þyrfti orgelleikara vorn af hólmi kom eiginlega ekki nema einn maður til greina. Sá heitir Haraldur V. Sveinbjörnsson og er núna áfengisdauður inni í koju.
Jæja, ok. Hann hóf ferðalagið að heiman klukkan fimm í morgun og sennilega hefur hann verið syfjaður. En hann lenti í Rússunum sem vildu ekkert frekar en bjóða hann velkominn á túrinn. Og þegar Rússar vilja fagna bjóða Rússar vodka. Og aumingja Halli fékk vodka. Allan vodkann.
Halli er maður sem á sögu með Skálmöld. Hann er útlærður tónlistarmaður og hámenningarviti fyrir það fyrsta, en í mínum huga kannski fyrst og fremst maður sem var í Dead Sea Apple. Það er mjög töff. Hans nýjustu poppafrek fara aðallega fram þegar hljómsveitin Buff stígur á stokk en þar spilar hann á bassa. Ég kynntist honum reyndar fyrst á Hróarskelduhátíðinni árið 2004 þegar við vorum báðir fallegri og grennri. Og svo lágu okkur leiðir ekki almennilega aftur saman fyrr en í fyrra.
Halli er maðurinn sem útsetti allt heila helvítis draslið fyrir tónleika Skálmaldar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þegar við vorum á túr fyrir rúmu ári síðan voru þeir Gunni í beinu sambandi til að láta hlutina gerast, Gunni var okkar tengiliður í verkefninu en Halli var klárlega maðurinn sem lét hlutina gerast. Hver einasta rödd sinfóníunnar sem og kórarnir, þetta er allt saman hans. Sem og raunar mikið af okkar spilamennsku því hann lét sig ekki muna um að ráðast inn á okkar yfirráðasvæði og skikkaði okkur oft og tíðum til að spila hluti sem við vorum ekki vanir að spila. Og já, svo spilar hann auðvitað líka á hljómborð.
Að skipta út túrandi meðlimi í Skálmöld er ekkert grín, og þetta er mikið tilfinningamál. Ég ætla að geyma það fram á morgun að dæma hvað mér í raun og veru finnst. Auðvitað er ég himinlifandi að við höfum ekki þurft að teygja okkur lengra en þetta til að finna fullkomlega verðan afleysingamann, en að sjá af Gunna upp í leigubíl hvar hann hélt heim á leið til Íslands var ekkert grín. Skálmöld er nefnilega ekki bara hljómsveit. Skálmöld er gríðarsterkur vinahópur og heild sem slíkur. Í fullkomnum heimi myndum við ekki þurfa að gera hlutina svona, en þegar allt hefur verið reiknað saman er þetta best. En já, þetta er undarlegt.
Annars var dagurinn bara svona eins og dagarnir eru almennt. Ég kláraði nóttina á að horfa á meira af Black Mirror og sofnaði auðvitað ekki fyrr en undir morgun. Og svo bara Hamburg. Við höfum spilað tvisvar áður hér í borg en ekki á þessum tiltekna stað. Þetta var gaman. Dagurinn fór ágætlega fram og allir voru mjög svo starfinu vaxnir, fyrir utan tæknimenn á sviði sem voru alveg stropaðir. Flexi lamdi það úr þeim í sándtékkinu og hefndi sín svo með því að eyðleggja eins og einn hátalara á gigginu sjálfu. Eða hluta úr hátalara, svokallaðan tvíter. Og auðvitað var það ekki viljandi, svona lagað getur jú alltaf gerst. En Skálmöld þarf sitt hljóðræna pláss sem Axel sér til að sé alltaf til staðar. Og stundum kostar það bara svolítið. En til að taka af allan vafa þá gerast svona hlutir auðvitað við og við og hinar hljómsveitirnar léku sér að því að spila gegnum tækin eftir þessa minniháttar árás. Og giggið var gott. Greinilegt kveðjugigg fyrir Gunna og allt einhvern veginn á milljón. Ég held að þetta hafi allt verið aðeins hraðar en venjulega. Stundum er þetta bara svona. Eftir tónleikana hittum við allskonar fólk, fullt af Íslendingum raunar sem var sérlega skemmtilegt, en líka fólk sem hefur komið til Íslands eða hafði aðrar skemmtilegar sögur að segja. Gott mingl.
Klúbburinn við hliðina á staðnum sem við spiluðum á heitir Indra. Hann er þekktur sem hinn frægi Bítlaklúbbur í Hamburg, staðurinn sem The Beatles spiluðu viðstöðulaust á í upphafi ferilsins. Rétt fyrir brottför kíktum við þangað inn. Hann er lítill. Hann er bara svona eins og Café Rosenberg að stærð á að giska. Við fengum okkur eins og einn bjór, snertum veggina og spiluðum Foosball. Og svo héldum við í rútu.
Á morgun spilum við í Eindhoven. Ég man ekki nákvæmlega hversu langt á að vera þangað en ferðaplanið giskaði á átta tíma akstur. Við erum jafnmargir í rútunni og síðast en nú hafa orðið grundvallarbreytingar. Ég vona að Halli vakni ekki of þunnur á morgun, það hlýtur að vera erfitt að sofa svona passlega rænumikill sína fyrstu nótt í kojunni. Ég veit að þetta verður góður túr það sem eftir lifir en ég ætla ekki að fela það að þetta er skrýtið.
Þetta var pínu erfið færsla. Ég er drukkinn og nú er klukkan 3.04. Venjulega tekur ekki svona langan tíma að skrifa þessar færslur. Við erum allir hér frammí, nema Halli vitanlega, en Baldur og Þrábi hafa verið svona sitt á hvað í koju og ekki. Þetta var góður dagur en markar tímamót. Ég vona að við stoppum fljótlega því raunvínið er búið og ég þarf að pissa.
Meistaralegt dagsins: Halli.
Sköll dagsins: Gunni.