Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Sjitt ég var þunnur í dag. Þetta leystist allt saman upp í stjórnlitla vitleysu sem við flestir tókum harkalegan þátt í. Ætli Þráinn hafi ekki verið frekar rólegur, mig minnir það. Og Jón, hann var passlegur. Og Flex líka. En ekki við hinir.
Við blésum til sóknar eftir að giggið kláraðist og drukkum með samferðafólki okkar fyrir aftan tónleikastaðinn. Það var fjandi gaman. Fæstir úr stóra bandinu létu þó sjá sig og alls ekki allir Rússarnir. En við afgreiddum þetta skilmerkilega með tæknifólkinu og fararstjórninni. Ég man ekki alveg hvenær við lögðum af stað en það gæti hafa verið klukkan þrjú í nótt. Þá settumst við hér í setustofu rútunnar og spiluðum tónlist. Já og drukkum meira. Miklu meira. Og þetta var alveg all in. Einhver gubbaði í klósettið. Einhver hellti eins og einni vatnsflösku yfir kojuna hans Jóns. Og eitthvað miklu fleira. Undir morgun man ég eftir okkur bræðrum inni í sjoppu. Ég held að ég hafi keypt rauðvín. Eitt er þó víst að við keyptum bleikan hund til að gefa Robert. Þetta er svona stytta sem kinkar kollinum við hreyfingu og er með svip. Hann er með ól um hálsinn og á merkinu stendur „TUSSI ON TOUR“. Jebb. Tussi. Hann heitir það. Tussi situr á mælaborðinu og fylgist með veginum. Tussi.
Hér veltur Baldur inn í rútuna hvar ég sit og skrifa. Hann og Böbbi eru komnir í bjórinn. Það er ótrúlegt. Klukkan er 00.28 og mig langar ekkert í bjór. Ekkert.
Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi, með mikilvægt skegg í mikilvægum bol.
Eftir að við keyptum Tussa man ég ekki alveg hvað gerðist. Ég man að ég ætlaði að lifa þar til við kæmumst á leiðarenda og þá mér sagt að það væri hálftími eftir. Og svo vaknaði ég í kojunni minni klukkan fimm í dag. Í appelsínugulu Pollapönks-ullarpeysunni minni og ofan á sænginni. Þetta var svona móment þar sem maður veit ekki hvernig ástandið er. Ég var klárlega ekkert edrú. Og svo bara seig á verri hliðina. Það var auðvitað ekkert langt í gigg og fljótlega eftir að ég nuddaði úr augunum vorum við komnir upp á svið í sándtékk. Stórt og gott svið og salurinn soldið eins og Nasa. Sviðið var nógu stórt til að við gætum haft trommusettið fyrir miðju, fyrir framan trommupallinn ógurlega. Ætli þetta sé ekki í annað skipti á túrnum sem það gerist. Þetta er betra þannig. Og allt gekk vel fyrir sig bara. Og svo kom pasta. Ljómandi pasta alveg hreint. Ég keyrði í mig smá verkjalyf og þrjá bjóra fyrir gigg. Það hjálpaði nú alveg eitthvað held ég en giggið var samt sem áður erfitt. Við þurftum aðeins að hafa fyrir þessu, draga fólkið niður af vængjunum og út á gólf. En það gekk alveg og þetta endaði sem þrusugigg. Ljómandi alveg og ég þá búinn að svitna slatta af þynnkunni út. En alls ekkert öllu saman. Við pökkuðum og ég hélt beint inn í rútu. Og þar er ég nú eiginlega búinn að vera bara. Ég er meira að segja enn í gigggallanum en líðanin er nú svo sem alls ekkert slæm. Þetta verður rólegt kvöld hjá mér samt.
Og slaka...
Planið er að leggja í hann klukkan átta og keyra til Bremen. Það getur því varla verið langt. Þetta þýðir að við sofum í kyrrstöðu sem er, ótrúlegt en satt, eitthvað sem mér finnst mun verra en að sofa á hreyfingu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er. Mögulega er þetta bara eins og að láta vagga sér í svefn. Vaggið er reyndar svolítið harkalegt stundum, svo harkalegt að ég sef yfirleitt í læstri hliðarlegu. Mikilvægt tips fyrir þá sem sofa í rútum, hliðarlegan. Loftleysi gæti líka verið partur af þessu. Þegar við hreyfumst er einhvern veginn ferskara loft sem kemur inn um loftræstinguna. Samt held ég nú að aðalmálið sé hversu þétt við sofum. Þarna eru níu kojur, átta af þeim í notkun, örþunnt tjald dregið fyrir hverja og því óskaplega lítið sem aðskilur okkur. Hrotur, byltur og fret eru ekki eins greinilegar þegar við erum á ferðinni. Ég veit að einhverjir sofa með eyrnatappa. Ég sef nú samt alltaf eins og barn.
Ég gleymdi auðvitað einu. Ég fór á McDonalds. Aftur! Þvílík uppgjöf. Ég er brjálaður. Og núna fannst mér þetta betra en síðast. Fíkniefni, það er það sem þetta er. Baldur og Böbbi voru að koma hér inn í rútuna. Baldur borðaði fjórar máltíðir rétt í þessu. Það er nú bara hættulegt. Fyrir okkur alla. Helvítis!
Við vanmátum varningsmálin okkar harkalega. Við erum ekki hálfnaðir og upplagið af nýju plötunni er búið. Við erum með tvær týpur af bolum og önnur tegundin er að klárast. Böbbi er búinn að standa í allskonar stappi til að redda meira. Vonandi skilar þetta sér fljótlega, annars verðum við af hellingssölu.
Ég hef ekkert að segja. Ég er bara heimskur og þunnur. Á morgun er Bremen. Ég ætla að horfa á vídeó.
Meistaralegt dagsins: Fyllerí.
Sköll dagsins: Þynnka.