Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Frídagur mannskyns í gær. Ég er búinn að liggja á fjögurra stjarna hóteli meira og minna síðan síðast. Ég og Baldur fengum skutl á hótelið til okkar kærustu og þessi samvera var víst alls ekki hugsuð sem túrismi. Við skoðuðum svo sem Kölnar-borg í einhverri míkrómynd en þennan einn og hálfa sólarhring var ég mest í rúminu. Aðeins í sturtunni, pínu í stól en mest í rúminu. Gott rúm. Þetta kallar maður að hlaða batterýin. Það er komin bumba og allt. Ég er í senn geislandi glaður og algerlega að skíta á mig af skelfingu.
Að þessu öllu saman sögðu skoðuðum við nú borgina aðeins, þau eiga voðalega dómkirkju sem er helvíti kúl, veitingastaði og um þessar mundir alveg skítnóg af jólamörkuðum. Vinaleg borg. Ég væri alveg til í að tékka á þessu aftur. En núna er klukkan tveimur sólarhringum síðar, 23.05 og við á leiðinni til Prag. Þangað er langt.
Jón Geir trommari sést hér einn og yfirgefinn á tómlegum stað. Örvæntið ekki, hann varð ekki eftir þarna.
Ég passaði mig eins og ég gat á því að hafa ekkert samband við strákana meðan á dvölinni stóð. Enda var ljómandi gaman að hitta þá aftur í dag. Samveran á túrum sem þessum er alger, og enda þótt okkur komi ljómandi vel saman er góð regla að nýta allar mögulegar stundir til að brjóta munstrið upp og hreinlega forðast vini sína. Mér skilst að strákarnir hafi líka skoðað kirkjuna, Böbbi og Flex fóru í verslunarferð og keyptu eitthvað græjukyns til að einfalda okkur daglega vinnu en almennt voru allir bara að slæpast. Robert skrapp og hitti vini sína í Bonn og kom frekar hress til baka í dag. Þetta var góður dagur og alvöru frídagur. Og við betri félagsskapur eftir.
Svo tók hversdagsleikinn auðvitað bara við aftur. Við mættum eins og venjulega á tónleikastaðinn, en Vera og Agnes reyndar með okkur. Það var gaman. Agnes hafði ferjað eins og eina Skálmaldar-hettupeysu hingað handa Marci, hann tók brosandi við henni og klæddist hið snarasta. Aukapar af grifflum frá mömmu rataði strikbeint á loppurnar á Flexa, og svo höfðu þær auðvitað komið með fullt af nammi og búsi og Brennivíni og hákarli og allskonar. Sumt er nú þegar komið í notkun, annað bíður betri tíma. Þetta voru uppgrip. Allsherjar uppgrip.
Gítarinn hans Böbba er búinn að vera eitthvað voðalegur síðustu daga og djúpi e-strengurinn tók upp á því að bössa öllum að óvörum. Við reyndum af veikum mætti að greina vandann er mistókst herfilega. Túrmanagerinn hann Tibor er líka gítar-tekk Svissana og við bárum upp við hann um daginn hvort hann myndi kíkja á vandann. Hann tók sérlega vel í það og gekk í verkið í dag. Og vandamálið var vitanlega eitthvað allt annað en við höfðum haldið. Því miður eiginlega alvarlegra, en þó þess eðlis að hægt verður að kippa því í liðinn með kaupum á varahlutum. Stóllinn hefur sem sagt sorfist niður, eða réttara sagt söðullinn á stólum sem ber e-strenginn uppi. Eftir þessa greiningu fékk ég vitrun. Böbbi er með varagítar með sér, Gibson Les Paul Custom ’87 sem er í minni eigu. Sjálfur notar hann nýlegan Gibson SG og vill vitanlega halda sig við sinn eigin gítar sé þess kostur. Svo vill til að þessir tveir gítarar innihalda svolítið af samskonar pörtum og meðal annars er stóllinn eins á þeim báðum. Við rifum þess vegna 12 strengi lausa og svissuðum stólum. Og viti menn, gítarinn hans Böbba varð svona ljómandi eftir á. Tímabundin lausn, en lausn engu að síður.
Og svo kom sándtékk. Þetta var allt frekar skrýtið. Einn gaur sem hljóp um og gerði misgáfulega hluti, hljóðkerfi sem ég hefði haldið að ætti frekar heima í stórri félagsmiðstöð og að auki surgaði og suðaði í öllu sem við reyndum að kveikja á. Þetta var allt til vandræða. Við gerðum auðvitað bara okkar besta, lukum tékkinu og stigum af sviði. Giggið sjálft var svo auðvitað bara ljómandi. Fullt af fólki saman komið sem við náðum ágætlega á okkar band og mikil stemning. En ég verð búinn að gleyma þessu giggi eftir nokkra daga. Þetta var bara þannig gigg. Jú, reyndar gaman að hafa stelpurnar í salnum, en að öðru leyti var þetta algerlega meh.
Reyndar heimsótti okkur maður að nafni Frank sem vinnur fyrir trommuframleiðandann Pearl. Þeir hafa stutt duglega við bakið á Jóni Geir undanfarið og skemmtilegt að tengja andlit við alla bjúrókrasíuna. Ég átti nú ekki langt spjall við hann en þeim Jóni kom mjög vel saman. Næs strákur.
Við fengum boli í dag senda á venjúið sem var eins gott því við vorum gersamlega búnir með allt saman. Við skiptum út plötukoverbolunum og tókum inn algerlega óldskúl boli, svarta með hvítu Skálmaldar-logoi. Mér finnst þeir töff. Beisik er best. Við áttum reyndar að fá diska líka en þeir töfðust víst í tollinum. Þeir eiga að skila sér eftir nokkra daga í staðinn, Cat ætlar að sjá til þess, en það verður líka hennar síðasta verk því þetta var hennar síðasta gigg á túrnum. Ég vona innilega að við fáum einhvern verðugan arftaka á morgun, hún hefur staðið sína plikt algerlega óaðfinnanlega og reynst okkur vel. Ég held að Böbbi sé búinn að semja við hana um að koma með okkur á túrinn í febrúar, en ég er svo sem ekkert alveg viss.
Svo áttum við smá stund með stelpunum en urðum að leggja snemma af stað. Við spilum í Prag á morgun og þangað er langt. Mjög langt. Kannski ellefu tíma akstur. Það er ekkert mjög gaman. Við erum allir hér frammí og við erum í stuði. Það var súrt að kveðja stelpurnar en nú styttist víst alveg örugglega í heimkomu. Tvær og hálf vika sirka. En hellingur af giggum þar til auðvitað.
Núna er það spjall, smá fyllerí, íslenskt nammi og stuð sem ég tek þátt í þegar ég hætti þessu pikki hérna. Halli bar sig ágætlega eftir gigg númer tvö og til að fagna því hefur hann gengið í Manager-hópinn. Mér skilst að hann sé að þjálfa Kidderminster í ensku deildinni fjórðu. Þetta er orðið teymi aldeilis. Nú legg ég frá mér tölvuna og drekk þar til ég velt í koju. Engar fjórar stjörnur hér lengur.
Meistaralegt dagsins: Hlutir á hóteli.
Sköll dagsins: Að kveðja.