Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Við áttum alveg einstaklega góðan tíma hérna í Ljubljana. Robert keyrði strax eftir giggið á sunnudag og við lentum hérna um miðjan dag í gær, á frídeginum. Og við þrumuðum okkur lóðbeint niður í bæ.
Ljubljana er óskaplega falleg borg og miðbærinn er eins og í ævintýrabók. Krúttleg á og lítil hús, allt eitthvað svo vinalegt og svo auðvitað þessi ótrúlegi kastali sem gnæfir yfir af hæðinni. Þetta er eiginlega hálfóraunverulegt allt saman. Við þrumuðum okkur sum sé á fæti niður í bæ og Flexi miðaði út veitingastað með hjálp Trip Advisor. Gott tól það. Við röltum aðeins upp úr pyttinum og settumst inn í svona ljómandi verelsi. Þegar við flettum matseðlinum reyndust verðin svo sem aðeins hærri en við höfum almennt sett okkur að borga fyrir mat, en miðað við lýsingarnar á matnum leit þetta út fyrir að vera mjög ódýrt. Svona miðað við. Við létum slag standa og sáum svo sannarlega alls ekki eftir því.
Ég borðaði björn og villisvín. Og svo auðvitað allskonar annað, en svona helst af öllu þetta tvennt. Og mikið óskaplega var þetta nú allt saman gott. Fjórréttað og voðalegt, rautt, hvítt, kaffisvart og hvað sem hugurinn girntist, og verðið hlægilegt. Já aftur svona miðað við. Við fundum allir fljótlega að við höfðum hitt vel á, við erum allir gersamlega úr okkur gengnir eftir túrinn og þetta hlóð rafhlöðurnar eins og hægt var. Þarna sátum við sjö, sögðum sögur, rifjuðum upp nýja tíma og gamla, hlógum og skemmtum okkur. Við náum bráðum sex vikna markinu. Að þetta skuli vera staðan eftir þetta ótrúlega návígi, allan svitann og táfýluna, það er ótrúlegt. Þetta eru fallegustu menn í heimi.
Svo röltum við aðeins og rákumst á pöbb. Þar var að byrja fótboltaleikur sem Þráinn vildi endilega sjá, Manchester United gegn Southampton. Eða reyndar öfugt, Manjú víst á útivelli. Við getum allir horft á fótbolta svo þarna entumst við yfir Guinness og öðru í sirka tvö tíma. En þá kom kallið.
Marci hafði fengið að fljóta með Rússa-rútunni hingað yfir en stóra rútan lagði svo ekki af stað fyrr en miklu seinna. Hann og Anton voru með plan því í Ljubljana-borg voru tónleikar í gær með hljómsveitinni Onyx. Fljótt á litið fannst mér ótrúlega slæm hugmynd að fara á slíka skemmtun, verandi túrandi band á frídegi. Var nú ekki nóg komið af tónleikahávaða? Onyx? Af hverju klingdi það bjöllum? Jú! Onyx er goðsagnakennd Hip Hop-hljómsveit frá Queens-hverfi í New York-borg. Og hvernig þekkti ég nú nafnið? Aftur, jú! Besta soundtrack úr bíómynd sem komið hefur út er úr kvikmyndinni Judgement Night. Þetta er nætísmynd og ekki slæm en þetta umrædda tónlistarpródjekt var byltingarkennt. Þar leiddu saman hesta sína annars vegar þungarokksflóran og hinsvegar rapp- og Hip Hop-gengið. Tvö bönd um hvert lag, sitt úr hvorum geiranum og þannig varð til einhver ótrúleg samsuða. Og viti menn, næstum hvert einasta lag algerlega stórkostlegt. Þennan disk hlustuðum við Óli vinur minn á nánast óslitið í einhver ár og spiluðum á meðan tölvuleiki á borð svið Stunts, Wolfenstein, Doom, Doom II, Police Quest og ég veit ekki hvað og hvað. Þessi aðgerð var svo sterk að hún hefur litað vináttu okkar tveggja síðan. Þetta var voru góðir tímar, maður minn, og Óli maður sem ég tel enn til minna bestu vina. Og Onyx átti einmitt tiltillagið, Judgement Night, í samvinnu við Biohazard. Stórkostlegt lag, ekkert minna.
Flexi fær myndmálið í þennan daginn. Hann er maðurinn á bak við hljóðið hjá Skálmöld, hvorki meira né minna.
Við vorum á gestalista. Það var nú eitthvað sem Anton hafði reddað. Mér skilst að sömu aðilar hafi prómóterað giggið í gær og svo okkar gigg í dag og þetta lið þekkir Anton víst. Við röltum upp í eitthvert hverfi sem varð svolítið skuggalegt og þegar að staðnum dró minnti allt saman ólíkindalega mikið á Kristjaníu nema já, skuggalegra. Stínu-samlíkingin hélt svo aldeilis áfram þegar inn á staðinn kom því þar var kannabisilmurinn vægast sagt stækur. Onyx-liðar höfðu svo sannarlega hafið leika og allt ætlaði um koll að keyra. Að því sögðu var staðurinn afskaplega smár og sennilega ekki nema á að giska 200 manns með derhúfur að missa sig. Þarna fíruðu menn upp í bæði uppi á sviði og fyrir framan. Ég þekkti varla nema eitt og eitt stef en það skipti engu, framkoman var svakaleg. Þetta var brjálað gigg og mér situr enn ofarlega í hugsa lokasetningin áður en þeir stigu af sviði: „We come in Peace, but we are Prepared for War. Fuck Peace!“ Ég keypti bol.
Kebap á leiðinni heim og svo í koju.
Við tókum daginn í dag snemma og vorum komnir út á stéttina fyrir tíu. Við tókum strætó niður í bæ, fengum okkur kaffi og brunuðum svo upp í kastalann. Hann er eiginlega mikilfenglegri neðan frá, en þetta var óskaplega gaman engu að síður. Þarna liggur heilmikil saga og útsýnið var vitanlega frábært. Þetta er ekki stórborg, langt frá því, en maður fær á tilfinninguna að þarna hafi hlutir svo sannarlega gerst gegnum aldirnar. Enn og aftur játa ég mig sigraðan þegar kemur að sögu og staðháttum. Við fengum okkur svo meiri mat, sumir versluðu svolítið og svo var gigg.
Tónleikastaðurinn sem við spiluðum á var algerlega glæsilegur, risastór og aðstaðan öll hin besta. Allir voru með á nótunum og við hófum leika af yfirvegun klukkan átta. Hinn mjög svo stóri salur var langt frá því fullstaðinn þegar við slógum fyrsta tón en okkur tókst vel til við að draga fólk til okkar. Og svo varð kátt í höllinni. Slóvenar eru fallegir. Fyrir það fyrsta afskaplega myndarlegt fólk, þá tók ég kannski fremur eftir kvenþjóðinni sökum smekks, en ofan á það brosa hér allir og eru til í að skemmta sér. Þetta varð algert hörkuball og vel þegið eftir alla Þjóðverjana sem við höfum reynt að berja til hlýðni undanfarna daga. Eftir gigg blönduðum við svo aðeins geði, drukkum, sturtuðumst og gerðum það sem gert er eftir svona gigg.
Nú er klukkan 02.02 og við vorum rétt í þessu að renna frá venjúinu. Á morgun spilum við í Búdapest og þangað er langt, einhvers staðar á milli 7 og 9 tíma akstur. Þar höfum við spilað tvisvar áður og þessum sama stað. Þetta er heimabær Marci og Tibor en mér er til efs að þeir finni sér tíma til að sýna okkur staðhætti. Fyrir það fyrsta eiga þeir sér væntanlega vanrækt líf og að auki verður í ýmsu að snúast á morgun. Tvö aukabönd stíga á svið og spila á undan okkur. Það hefur alltaf aukið flækjustig í för með sér.
Langþreyttir en stemningin alveg furðulega góð.
Meistaralegt dagsins: Onyx.
Sköll dagsins: Eini bjórinn sem við eigum um borð er Corona. Falleg gjöf frá Eluveitie, en samt ...