Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Lyon
Þetta var svo ofboðslega skemmtilegur dagur. Frakkar eru meistarameistarar! Ég var hins vegar helvíti framlágur þegar ég vaknaði. Ég var fullur í gær. Það var auðvitað alveg bærilegt og gaman, en það hjálpaði mér ekkert í dag. Alls ekkert.
Jón Geir trommari og Björgvin Sigurðsson, Böbbi, söngvari ræðast hér við. Böbbi var liðtækur knattspyrnumaður á sínum tíma og lék í flestum stöðum með Völsungi frá Húsavík.
Við spiluðum hér í fyrra og hér er gott að vera. Plássið er reyndar ekki mikið og maturinn var alls ekkert góður. Súrkál og unnar kjötvörur fyrir suma, allskostar tilgangslaus kjúklingur fyrir fyrir aðra. Drasl. En fólkið hér er óskaplega næs, allir hjálparkokkar, tæknimenn og staffið almennt. Sem fyrr var geimskipstrommupallurinn hans Merlin alveg óþolandi. Trommusettið okkar var haft aðeins hægra megin við miðju og girti Baldur af úti í horni. Slatti af settinu hans Jóns var síðan staðsett í einskonar innskoti á sviðinu og hann segist hafa þurft að tromma fyrir horn. Gunni var fyrir aftan okkur Þrába. Ekki alveg uppstilling sem við erum vanir eða hentar vel en þetta verður víst á alla kanta á þessum túr. Mér sýnist þessi nýtilkomni sendibíll vera notaður til þess að ferja meðal annars trommupallinn hans Merlin. Spurning um að setja sykur í bensíntankinn. Eða rörasprengju.
Þegar við vorum hér í fyrra reyndum við að rölta til að finna einhverja menningu. Það reyndist ómögulegt. Þess vegna gerðum við ekki mikið í dag. Við bara biðum eftir sándtékkinu sem við afgreiddum á örskömmum tíma. Flexi er að tvíka þetta allt smám saman og fljótlega verða þessi sándtékk formsatriði. Ég hélt svo bara áfram að vera soldið þunnur þrátt fyrir allskonar aðgerðir til að hætta því. Rétt fyrir gigg raðaði ég í mig alveg dágóðum slatta af verkjalyfjum. Þau kikkuðu inn í öðru lagi.
Tónleikarnir voru algerlega sturlaðir. Fólk um allt enda kjaftuppselt og fólk í skapi til að skemmta sér. Hörkupyttur, krádsörf og singalong. Mjög margir virtust hafa komið til að sjá okkur, gamlir Skálmaldar-bolir hér og þar og sennilega er þetta það gigg okkar utan landsteinanna þar sem við höfum spilað fyrir flesta bandamenn. Svei mér þá, kannski er þetta hark allt saman að skila einhverju. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu betur. Þetta var bara algerlega frábært.
Við lentum reyndar í pínu græjuveseni. Fyrir þennan túr tókum við þá stóru ákvörðun að notast ekki við gítarmagnara. Það var upphaflega ákveðið vegna þess að við hefðum þyrft að róta öllu saman sjálfir, tvisvar á dag, og því hreinlega nenntum við ekki. Þannig fórum við þá umdeildu leið að fjárfesta í stafrænum gítarhljóðgervlum sem eru fisléttir og leggjast á gólfið líkt og hvert annað effektabretti. Böbbi og Þrábi eru nú þegar orðnir hörkukátir með þetta, og Flexi líka. Baldur er enn efins. Hann vill frekar nota bara gömlu Marshall-stæðuna mína eins og hann er vanur. Ég skil hann vel. Við ætlum þó að reyna að tvíka þetta eitthvað til á næstu giggum svo þetta virki nú sem best fyrir alla. Stóri bónusinn er hinsvegar sá að með svona lítið sviðspláss (lesendur hafa kannski gleymt trommupallinum hans Merlin, það er hann sem tekur svona mikið pláss) er þetta ótrúlegur munur. Ég er hreinlega ekkert viss um að við hefðum til dæmis komist fyrir á sviðinu í dag. En já, græjuvesen. Í þrengslunum steig ég hælnum ofan á dótið hans Böbba þegar tvö og hálft lag var eftir að prógraminu. Við það þagnaði gítarinn hans og við komum honum ekkert í gang það sem eftir lifði giggs. En hann spilaði nú bara samt. Passa lúkkið, aldrei gleyma því. Við þurfum að trobbúlsjúta þetta á morgun, það er alveg klárt.
Við höfum spilað sama prógram alla dagana hingað til og væntanlega verður ekki mikil breyting á því. Intró, Árás, Gleipnir, Að hausti, Miðgarðsormur, Með fuglum, Narfi og Kvaðning. Drullusolid, en ég velti því aðeins fyrir mér hvort það vanti örlítið meira af keyrsluköflum. Kannski er það bara spilagreddan.
Stund milli stríða.
Eftir gigg fór ég í fyrstu sturtuna á túrnum. Það var rosalegt. Ég var ekki búinn að fara úr brók og bol frá því á Íslandi. Sturtan var svona líka ljómandi, heitt vatn og bara þónokkuð af því. Hrein föt, svitalyktareyðir, tann- og skeggburstun. Ég fékk nýja sýn á lífið eftir þetta. Svo biðum við ekki boðanna því um leið og Arkona kláruðu að spila þrumuðum við öllu draslinu í bílinn og héldum af stað. Við eigum frí á morgun og því ætlum við að eyða í Barcelona. Þangað er kannski 10 tíma akstur og Flexi og Böbbi eiga pantaðan tíma hjá húðflúrsmeistanum Jóni Páli klukkan 11 í fyrramálið. Nú sitjum við því í rútunni og hlustum á HAM, búnir að vera á ferðinni í sirka hálftíma. Og Eluveitie enn að spila. Það er fyndið. Meistarafólkið á venjúinu sendi okkur af stað með samlokur og bjór. Við erum glaðir.
Frídagur á morgun já, eins og alla aðra mánudaga. Við erum ekki mjög vanir svoleiðis. Í fyrra túrðuðum við 6 vikur og fengum tvisvar frí. Og það voru eiginlega ekkert frí vegna þess að þá þurftum við að keyra alveg ógeðslega langt. Þá túruðum við með vinum okkar í Finntroll. Þeir eru finnskir. Eluveitie eru frá Sviss. Ætli það sé ekki bara ástæðan fyrir þessu. Við vöknum í Barcelona og Robert ætlar mögulega að leggja sig einhverstaðar á leiðinni. Mér finnst reyndar að hann ætti að fara að finna vegasjoppu því mig langar í ódýrt rauðvín og allskonar skrýtnar pylsur. Ég er alveg til í að þetta partý haldi áfram, við erum allir hér í betri stofunni, glaðir og hreinir eftir daginn og allir vegir færir.
Meistaralegt dagsins: Frábært gigg!
Sköll dagsins: Þynnkan.