Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Klukkan er 23.42. Sumir eru farnir á barinn, við Þrábi, Böbbi og Flex sitjum í rútu og bíðum eftir að tíminn líði. Þrási er að horfa á eitthvað gamalt í dót í tölvunni, Flexi er að stýra Napoli í spjaldtölvunni og Böbbi er að horfa út í loftið. Brottför er áætluð klukkan 1.00 og Robert er í koju.
Í nótt hélt ég að Jón Geir væri andsetinn. Ég var farinn að sofa þegar hann ruggaði við mér og bað mig um að kenna sér á Snapchat. Eða svo sem ekki kenna sér, heldur sýna sér hvernig hann ætti að skrá sig inn á nýopnaðan Snapchat-reikning okkar Skálmaldarmanna. (Hey krakkar, fylgið okkur á Snapchat. Við göngum undir nafninu „skalmold“!) Þegar því var lokið og ég var hálfvaknaður en glaðvaknaði svo þegar hann fór að „búa til púpu úr mér“. Hann var sum sé að troða sænginni undir mig allan og þrengja að mér. Ekki endilega það sem mig langaði að gera akkúrat klukkan fjögur í nótt en eitthvað sem ég set í reynslubankann fyrir komandi uppeldi barnsins míns. Og þetta tók hann upp á Snapchat og setti út í tómið. Þið sem fylgið okkur nú þegar á Snapchat hafið meðtekið þetta sem nokkrar sekúndur af svörtu myndskeiði og óskiljanlegu muldri. Þarna var ég glaðvaknaður og skóflaði mér framúr. Rútan stoppaði í vegasjoppu og þá var andinn sestur allkyrfilega í Jón. Næstu 2–3 klukkutíma tókum við það á okkur, fyrst ég og Böbbi, og síðan í slagtogi við Flexa og Baldur, að halda Jóni á lífi. Hann var ekki talandi svo heitið gæti. Það sem kom upp úr honum var á ensku og lengst af var hann viss um að við værum í Þúsaldar-Fálkanum, stjarnfari Hans Óla úr Stjörnustríðsmyndunum. Þetta ástand tók svo á sig ýmsar myndir og ég veit ekki nákvæmlega hvort mér fannst kómískara að hafa hann hér frammi í setustofunni á sokkunum einum, eða þegar hann var kominn í lopapeysuna til viðbótar. Eftir nokkra tugi metra af rúlli hér fram og aftur um þröngan gang rútunnar skutlaði Flex honum svo í koju. Við veltum vini okkar í læsta hliðarlegu og vöktuðum hann fram eftir morgni.
Jón Geir vaknaði hress og glaður í dag, undrandi reyndar á þessum náttfötum sínum, lopa að ofan og sparisokkum að neðan, og hversu eigur hans voru dreifðar um alla rútuna. Hann á enga minningu af því sem gerðist. Alls enga. Hann man eftir því að hafa verið á spjalli við Robert um köngulær, eftir það boðið góða nótt og haldið til koju. Vitnisburðurinn frá Robert bakkar þetta allt saman upp. Sennileg skýring á þessu öllu saman er þessi: Jón Geir gekkst undir axlaraðgerð fyrr á árinu og er enn að jafna sig. Þegar hann hélt á túrinn lét læknirinn hans hann hafa vöðvaslakandi töflur í kveðjuskyni og mögulega hefur Jón tekið eins og hálfa svoleiðis fyrir svefinn. Nú eða þrjár til fimm í einhverjum misgáningi. Hvað sem olli á ég aldrei eftir að gleyma æfingum hins berrassaða trymbils sem sat gegnt Böbba hér frammí, röflaði óskiljanlega um orrustutaktík í þyngdarleysi og reif undir hnésbæturnar á sér á vís svo skein í Helstirnið. Allt hlaut þetta blessunanlegar lyktir og lífið hélt áfram sinn vanagang í dag og við allir sem einn frábærir á gigginu, Jón Geir átti meira að segja sérlega góðan dag við settið. Við hentum þó vöðvaslakandi töflunum í ruslið til vonar og vara.
Þeir sem hafa fylgst með fyrri túrbloggum Skálmaldar muna mögulega eftir eldri hrakfallasögum af Jóni. Við höfum náð að reikna út að ósköpin virðast alltaf dynja á eftir sjöundu tónleika hvers túrs. Og hér stóð heima.
Giggið í París var frábært. Eftir svefntruflanirnar lá ég sofandi langt fram á daginn og drattaðist ekki úr kojunni fyrr en um þrjú. Þá tók við allt þetta venjulega og hér var allt svo ljómandi ágætt. Ég þarf ekki að fjölyrða um giggið sjálft, það var algerlega frábært, og undirstrikar enn og aftur að Frakkar eru meistarameistarar. Bæði var stemningin á tónleikunum rosaleg og eins er alveg óskaplega gaman að spjalla við fólk eftir á. Í samhengi við það seldum við mjög vel af varningi í kvöld og allt er eins og best verður á kosið.
Félagi okkar frá Húsavík, Ármann Örn, hafði boðað komu sína fyrir nokkru síðan. Hann er búsettur hér í París í augnablikinu og verður fram að jólum. Eitthvað höfðum við misskilið hvorn annan. Tónleikarnir hófust óvenju snemma í kvöld, klukkan hálf7, og hann var heldur seinn á staðinn. Þrátt fyrir það náðum við góðum fundum, nokkrum bjórum eftir giggið og í framhaldinu máltíð á veitingastað hér skammt frá. Það borðhald sátum við sex, ég, Baldur, Jón Geir, umræddur Ármann sem og tveir íslenskir strákar sem slæddust hér á tónleikana. Þeir heita Sindri og Jón, að ég held tuttuguogtveggja ára gamlir, og eru hér í vikufríi meðfram því að ætla að sýna listir sýnar fyrir gangandi vegfarendur Parísar-borgar. Þessir snillingar eru hluti af Sirkus(i) Ísland(s) og ákváðu að láta á þetta reyna. Ég verð hoppandi glaður þegar ég kemst í kynni við svona fólk, fólk sem gerir eitthvað spontant og óskynsamlegt, rífur sig upp og tekur því sem kemur upp á. Til viðbótar við þessa frábæru lífssýn eru þeir tvímenningar óskaplega skemmtilegur félagsskapur og með upphandleggi sem maður þarf að gera ráð fyrir þegar borðhald er þröngt. Þetta var góð máltíð í góðum félagsskap.
Rússarnir eru alls ekki búnir að redda rafmagninu og Vladimir tjáði mér eftir tónleika gærdagsins að hann væri nú bara alveg til í að samnýta þráðlausa kerfið mitt með mér það sem eftir lifði túrs. Ég sagði að sjálfsögðu já. Því var mætt með sviplausu ofurþakklæti. Meistarasnillingar þessir Rússar. Það verður þá þannig það sem eftir lifir, wirelessið mitt verður sekkjapípugegnsósa í desember. Ljúft og skylt.
Til tals hafði komið að tvo af Eluveitie-krökkunum myndu spila með okkur í dag, stefið í Kvaðningu. Til þess kom þó ekki sökum skipulagsskorts og einhverrar bjúrókrasíu geri ég ráð fyrir. Það mun þó gerast á endanum og vonandi fyrr en seinna. Það örlar á einhverju drama í þeirra herbúðum, einhver vandræði virðast berast að heiman og mögulega er einn meðlimur handkrambúleraður eftir orðaskipti og barning eftir tónleika í dag. Ekki misskilja, þetta er rólyndisfólk, en einhver blóðhiti virðist krauma.
Klukkan er 0.22 og staðan nákvæmlega sú sama og við upphaf bloggs, nema hvað Þrábi hefur tekið í stjórnartauma Manchester United. Þrír að spila Manager. Þetta ætlar að verða trendið á þessum túr. Á morgun spilum við í Belgíu, nálægt Antwerpen, á tónleikastað sem við höfum spilað á áður. Það þýðir aldrei neitt fyrir mig að reyna að rifja svona lagað upp. Böbbi man hinsvegar allt í smáatriðum. Þangað eru 350 kílómetrar. Það er létt.
Meistaralegt dagsins: Jón Geir.
Sköll dagsins: Jón Geir.