Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Jájá, þetta er nafn á borg. Hingað höfum við aldrei komið en hingað væri ég til í að koma aftur. Þetta var óbeislað og ofboðslegt.
Ég fór algerlega orkulaus að sofa, eða í það minnsta í koju. Verðskuldað eftir lífernið undanfarið. Það endaði nú samt sem áður svo að ég horfði á þrjár bíómyndir og sofnaði ekki fyrr en kannski sjö. Sólarhringurinn ...
Jæja. Ég var svo sannarlega truflaður við þessa færslu. Klukkan er 1.35 og nú er ég nýkominn aftur inn í rútu. Ég hef hingað til talað vel um pólskan almenning og geri það áfram í framtíðinni. En hér er margt skýrið og ofríki. Hér sat ég í rútunni, þéttpasslegur og svoleiðis. Hingað inn bárust vandræðafregnir af forsöngvara vorum. Jebb. Böbbi átti í vandræðum með hægðir síðast, núna hefði hann ekki átt að pissa svona.
Það er bannað að míga á víðavangi í Póllandi. Böbbi gerði það. Í runna hér rétt fyrir utan venjúið. Hann var þó varla nema rétt byrjaður að slaka úr þeim hjálmlausa þegar að kom vífandi lögreglubíll af stærri gerðinni, sá hafði blikkandi ljós og út úr honum komu sirka þrír lögregluþjónar. Og nú er Böbbi samt enn að míga á sig. Einmitt, hann var ekki nema rétt byrjaður. Og þarna stóðu þeir, með alvæpni, ekki nema mátulega hamingjusamir, og reyndar alls ekki. Ég veit ekki hvað ég var nákvæmlega að gera þarna, en ég gerði alls ekkert gagn þegar ég fleygði sígarettustubb í stéttina. Það er líka bannað. Okkur til björgunar var þar kominn maðurinn sem hefur haldið utan um þessi þrjú Póllands-gigg. Hann gerði sitt allra besta sem varð sjálfsagt alveg þónokkuð. Ég slapp með tiltal, Böbbi fékk eitthvað sem samsvarar 5.000 króna sekt. Og auðvitað vopnað tiltal. Böbbi af öllum mönnum. Maðurinn sem alltaf er með sitt á hreinu, gerir ekki flugu mein, leggur sig fram dag hvern við manngæsku og gengur fram af sjálfum sér með samviskusemi. Æi þetta gladdi mig. Ég kem til með að muna þetta fram í dauðann.
„Ég veit ekki hvað ég var nákvæmlega að gera þarna, en ég gerði alls ekkert gagn þegar ég fleygði sígarettustubb í stéttina. Það er líka bannað.“ Bibbi braut lögin, eins og Böbbi.
Rétt í þessu stoppuðum við svo á bensínstöð þar sem Böbbi bað um eina rauðvín og jarðarberjasultu. Við höfum nefnilega haldið þeirri hefð undanfarna daga að búa til hnetusmjörs- og sultusamlokur en sultan kláraðist í gær. Bensínmaðurinn átti enga sultu. Böbbi bað um tvær aukarauðvínsflöskur í staðinn en sá átti bara eina. Böbbi reif í mig á planinu og skutlaði mér inn í rútu: „Komum okkur héðan, ég hata Pólland!“
Þetta er þó í gamni sagt. Pólland er meistari þrátt fyrir þessa síðustu hnökra. Giggið í dag var örlítið hrárra en undanfarna daga, minni salur, allt aðeins frumstæðara, en algerlega brjálað. Fyrrnefndur prómóter, maðurinn sem bjargaði Böbba frá extensífri fangselsisvist, og hans fylgdarlið hafa verið okkur óskaplega vinveitt og hóta því að skipuleggja heilt tónleikaferðalag Skálmaldar hérlendis á næsta ári. Sjáum hvar það endar, svona fullyrðingar falla víða á tónleikaferðum.
En já, hvar var ég við byrjun færslu? Sólarhringurinn hjá mér er algerlega öfugsnúinn. Ég sofnaði um sjö í morgun eftir þrjár bíómyndir, vaknaði svo um þrjú og álpaðist á venjúið. Það var pínu flókið, ég þurfti að labba gegnum hóp af fólki sem þá þegar hafði safnast saman til að bíða þess að staðurinn opnaði. Þar bankaði ég á dyrnar sem stór maður opnaði, ég sýndi passann minn og labbaði inn. Og svo bara gerði ég ekkert. Ég lá í óþægilegum sófa og í kringum mig var vond lykt og hávaði. Böbbi og Halli afréðu að rölta. Klukkutíma síðar komu þeir til baka og sögðust hafa fundið Starbucks. Þá rifum við Flexi okkur upp af rössunum og tókum stefnuna þangað. Og þetta var það eina sem ég sá af Póllandi á þessum þremur dögum fyrir utan bílastæði og skítuga tónleikastaði. Við röltum sirka sjö mínútur í skítafokkingkulda, fundum kaffistaðinn umrædda og þar blæddi minn ástkæri Felix jólakaffi og meððí á veskislausan mig. Þarna sátum við í sirka klukkutíma, umkringdir Póllands-menguðum Ameríku-kúltúrnum og nutum stundar. Það var algerlega osom og klósettið var alveg sérlega hreint.
Líkt og undanfarna daga fengum við ekkert eiginlegt sándtékk, aðeins örstutt línutékk eftir lókalböndin. Við upphaf þess kom svo sannarlega babb í bátinn. Þetta pólska krú sem hefur fylgt okkur síðustu daga hefur uppástaðið frá upphafi að við skulum aldrei halda á dótinu okkar, hljóðfærum og meðfylgjandi, úr og í bílinn. Það er vissulega léttir fyrir okkur, þetta daglega rót er óþolandi. En þegar aðrir róta gerast mistökin. Hljómborðsstatífið varð eftir í Kraká. Venjulega mónitorum við sjálfir það sem fer úr kerrunni og í hana aftur en kæruleysið varð okkur að falli í þetta skiptið. Í miklu tímahraki leystum við málin með Halla í fararbroddi, fengum lánaða stóra flugkistu frá Eluveitie undir stærra borðið og settum hið minna á kistu undan því stærra. Venjulega höfum við borðin á standi sem ber þau í sama flútti, minna borðið fyrir ofan hið stærra. Hér var ekki um það að ræða og Halli spilaði á þau í 90 gráðu hornuppstillingu. Svona eins og Jakob Frímann og Nick Rhodes. Það ku vera í fyrsta skipti Skálmaldar og ekki til eftirbreytni. Við sendum fyrirspurn á venjú gærdagsins en höfum ekki fengið svar. Fed-Ex og vinir hans hafa reyndar ekki reynst okkur vel gegnum árin og því hugsa ég að við kaupum nýtt í Berlín á morgun. Szczecin er ekki langt frá landamærunum og Robert hótar ekki nema kannski þriggja tíma keyrslu til Berlín.
Þrási var eitthvað örlítið sloj í dag en keyrði sig í gang af staðfestu eftir langan svefn. Hann var þó framlágur eftir lögregluhneykslið og lagði sig eftir rauðvínskaupin. Nú er klukkan 2.25 og Jón var að laumast í kojuna. Síbrotamaðurinn og litli bróðir eru hér sínu glaðastir en auk okkar sitja í setustofunni þeir Flex og Halli. Rauðvínið sem Böbbi keypti er ógeðslega vont. Ég er samt búinn með þrjú glös. Lítil samt. Svona plastglös sem maður notar oftast undir kaffi á biðstofum. Við erum að hlusta á HAM. Svik, harmur og dauði! Það er gaman að vera í Skálmöld.
Meistaralegt dagsins: Böbbi tekinn af löggunni fyrir að pissa á almannafæri.
Sköll dagsins: Við yfirgefum Pólland.