Svona á þetta að vera. Alltaf! Þessi dagur var fullkomlega frábær. Frakkar eru algerlega meððetta, það er bara þannig. Við spiluðum í Toulouse í fyrra, þá var það síðasta giggið á túrnum. Það venjú var óraunverulegt sökum þess hversu glæsilegt allt var. Við spiluðum ekki á sama stað í þetta skiptið en hann var litlu síðri en sá í fyrra. Risastórt svið, starfsfólk sem vinnur vinnuna sína af ástríðu, frábær tækjakostur, gott búningsherbergi, almennileg sturta og allt bara frábært. Nema reyndar maturinn. Hann var drasl. Það kom á óvart bara miðað við hversu allt annað var frábært. Við spiluðum fyrir kjaftfullan sal og fólk var klárlega komið til að skemmta sér. Og við spiluðum svakalega! Þetta voru svona tónleikar þar sem manni líður eins og Skálmöld hafi aldrei spilað betur. Þetta er besta víma í heimi. Tónlist. Þvílíkur meistarasnillingur.
Þetta eru þungarokkaraskokkarar.
Ég fór klárlega ekki síðastur að sofa í nótt. Ég veit ekki alveg hvernig þetta endaði en Baldur og Gunni stóðu vaktina lengst held ég. Og það af töluverðri festu. Ferðin var löng og Robert stoppaði víst og svaf örlítið. Ég varð ekki einu sinni var við það. Mér lætur einstaklega vel að sofa í svona koju og ég hreinlega hlakka til að leggjast fyrir í hvert skipti. Hún er pínulítil, dýnan óþægileg, sængin löngu orðin súr af svitalykt, óskaplegt brölt að koma sér í og úr og hitastigið og súrefnismagnið getur verið á alla vegu. En þetta er eitthvað svo frábært. Sjálfsagt spilar það inn í þetta ástarsamband okkar koju að hún er eina afdrepið sem maður á. Maður hefur hvergi privasí nema þá kannski rétt þegar maður sest niður til að kúka. En þarna, með henni koju, dregur maður fyrir tjaldið og er einn.
Ég vaknaði svo um hádegi og þá var Flexi einn á fótum, fyrir utan Robert sem hélt um stýrið. Flexi hélt um stjórnartaumana hjá Napoli í spjaldtölvunni sinni á meðan. Fljótlega tíndust menn svo fram og við fundum okkur vegasjoppu. Þangað bárust okkur fregnir af plötudómi í Mogganum hvar við höfðum fengið 5 stjörnur fyrir nýju plötuna okkar. Það er auðvitað alltaf gaman að fá góða dóma en þeir hreyfa mismikið við manni. Orri Páll er maður sem hefur fylgt okkur frá upphafi og hann er líka maður sem segir hreint út hvað honum finnst. Honum myndi ég treysta til þess að rífa okkur í sig ef við værum að draga einhvern sora út úr óæðri endanum. Þess vegna skipti það okkur öllu máli að hann skyldi fara svona fögrum orðum um plötuna. Jón hlóð greininni niður og las upphátt í rútunni þegar við lögðum af stað. Við vorum bara eins og litlir strákar. Þetta er bara svona og þetta má ekki breytast. Þessi barnslega gleði. Djöfull er gaman að vera í Skálmöld.
Ég var hálfframlágur og lagði mig. Ég er að lesa nýju bókina hans Stefáns Mána, Litlu dauðarnir. Hún er drullufokkingskemmtileg og ég las mig í svefn í kojunni. Ég vaknaði svo bara hér í Toulouse seinnipartinn. Leggirnir eru langir þessa dagana og það mæðir mikið á Robert. Núna sit ég í rútunni fyrir utan tónleikastaðinn og við erum rétt að segja að leggja í hann. Baldur, Böbbi og Gunni eru fyrir utan rútuna og Robert er að klára að borða smá. Hinir eru í koju. Þetta verður ekki örlagakvöld sýnist mér. Reyndar var Böbbi að hlamma sér við hliðina á mér og hann er nú í stuði. Sjáum til, sjáum til. Ég sullaði örlítilli viskilögg í kaffið mitt áðan, kaffið sem Gunni bjó til handa mér með allri ást mögulegri. Þeir sem lásu bloggið í fyrra muna kannski eftir leitinni ógurlegu að kaffikvörn á síðasta túr. Sú leit bar ekki árangur en eitt sinnið er við spiluðum í Borgarleikhúsinu fengum við kvörn að gjöf frá Christine og Guðbrandi, fólki sem tilheyrir hinum glæsilega hópi fólks sem kennir sig við Börn Loka. Þessi gjöf er falleg. Þetta er svona handsnúin kvörn upp á gamla mátann og hún var vígð fyrir sirka hálftíma. Meistaralegt. Kaffið sem ég er að drekka er alveg asnalega gott. Takk fyrir þessa osom gjöf krakkar!
Og talandi um Börn Loka. Við sjáum fólk úr aðdáendaklúbbnum reglulega á tónleikum og fólki fjögar sem virkilega þekkir okkur og jafnvel syngur með. Við erum ennþá litla bandið, en kannski ekki alveg eins litlir lengur.
Það er kannski þröngt í rútunni, en menn eru sáttir.
Mórallinn er allur að koma til. Rússarnir eru í mjög miklu stuði og þetta virðist vera orðið allt annað band en við túruðum með 2011. Þau tala betri ensku og eru bara glaðari í alla staði. Það er betra svona og vinskapurinn sem myndaðist þá, sem manni fannst kannski ekki svo óskaplega sterkur, hefur heldur betur haldið. Þetta er fallegt fólk og við skiptumst á diskum í dag. Gítarleikarinn Sergei, sem hefur alltaf það fas að hann sé að fara í stríð, sagði okkur hreint út að fyrsta platan okkar væri best, þessi nýja væri næstbest. Gott að hafa þetta bara á hreinu. Eluveitie-krakkarnir eru líka glæsilegir. Þar á bæ virðist þó hanga yfir þetta ástand sem ég á erfitt með að meðtaka þegar hljómsveitir eru annars vegar, en er svo óskaplega algengt. Þau eru ekkert endilega vinir. Þau eru í viðskiptasambandi. Þau tala ekkert endilega saman og að tala við einstaka meðlimi um hina í bandinu er oft og tíðum stórundarlegt. Ég er í hljómsveit með bestu vinum mínum, litla bróður mínum meira að segja, og þetta eru menn sem mér þykir óskaplega vænt um. Það verður að vera þannig. Ég fullyrði að þau í Eluveitie lásu enga plötugagnrýni upphátt í sinni rútu í dag. Það er sorglegt. En þetta er óskaplega ljómandi fólk. Þrási hafði á orði við þau að við þyrftum að fá þau til liðs við okkur einhvern tímann á túrnum, að þau sem spila á etnísku hljóðfærin myndu spila með okkur, og þá sennilega í Kvaðningu. Þau tóku nú heldur betur vel í það. Það braut ákveðinn ís og mér skilst að Böbbi og Baldur hafi farið á trúnó með fiðluhænunni í kvöld. Þetta eru góðir krakkar, allt þetta lið á túrnum. Æi það er gott, það er helvíti langt eftir.
Böbbi er fullur. Það er gaman. Jón var að skríða fram og nú eru Þrási og Flexi í koju, við hinir frammi. Þetta var frábær dagur og það er frábært að vera við. Við erum nýlagðir af stað og spilum í Rennes á morgun. Þangað er helvíti langt, túrplanið sagði 699 km. Nú er gott að hafa vélmenni við stýrið.
Meistaralegt dagsins: Algerlega frábært gigg!
Sköll dagsins: Við vorum að leggja af stað. Ég þarf að pissa ...