Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Klukkan er núna 22.48 og Eluveitie eru sennilega komin eins og þriðjung inn í sitt sett. Þessi dagur var fullkomlega tíðindalaus. Ég hlammaði mér út í rútu rétt í þessu til að skrifa færsluna, strákarnir eru inni á venjúinu og Robert er sofandi. Bus Call er klukkan þrjú í nótt, þetta gæti endað með allsherjarógæfu.
Spólum aðeins til baka, við áttum frídag í gær.
Listaverk. Fiskur.
Planið var upphaflega að keyra rútuna til Brugge og eyða deginum þar. Eftir að við höfðum ráðfært okkur svolítið við Robert varð okkur ljóst að ferðalagið frá Bristol til Leipzig væri af því kaliberi að við skyldum ekki búast við þægindum. Mér finnst við hafa verið keyrandi í viku. Þetta rennur vissulega svolítið saman en sennilega fór ég í kojuna fljótlega eftir að ferjan lenti í Frakklandi í gærmorgun og þar eyddi ég góðum tíma, mestmegnis sofandi. Ég rumskaði í Antwerpen þar sem ferðalangar afréðu að stoppa, fundu sér sérverslun með belgíska bjóra og byrgðu sig upp. Ég var svo nývaknaður að ég nennti ekki með. Ég sá svo auðvitað strax eftir því því allur næsti leggur fór í að opna og prófa allt góðgætið. Ég fékk svona einn og einn frá strákunum til að vera með. Ég reyndi að bera mig vel en var bara útundan. Ég þarf greinilega að rækta alkóhólistann í mér betur og hunskast með þegar bjór er annars vegar. Og svo bara keyrðum við. Ég skil ekki hvar Robert fær alla þessa orku sem hann býr yfir. Hann vitanlega borðar ekkert nema geitaost, fer næstum daglega út að hlaupa og gerir allt sem bækur og læknar segja að maður eigi að gera til langlífis. Maður ætti kannski að prófa þetta við tækifæri. Það verður að segjast að lífernið á þeim er þetta skrifar er nú ekkert til fyrirmyndar þessa dagana. Ég drekk áfengi daglega, svo sem ekkert endilega í neinu magni sem hefði áhrif á meðalvaxinn fílsunga, en alltaf eitthvað þó. Þetta verður allt eitthvað svo aðeins bærilegra þannig. „Að taka kúfinn af“ var hugtak sem ég heyrði einhvern tímann haft. Það gerir það, þetta jafnar vesenið aðeins út. Matarlega verður að segjast að það sem í boði er er ekki alltaf frábært og stundum alls ekki nóg. Þess vegna fer maður stundum svangur að sofa. Svo stoppum við reglulega í vegasjoppunum og erum þá yfirleitt á ferðinni að næturlagi. Þá kaupir maður ekki alltaf gáfulega hluti. Þessi kíló sem ég náði af mér við þetta maraþonævintýri verða sjálfsagt flest komin til baka þegar við náum heim. Og svo auðvitað reykingarnar. Ég var einu sinni reykingamaður en hætti því nú fyrir nokkuð mörgum árum. Á þessum Skálmaldartúrum hef ég þó alltaf reykt, slökkt í síðustu glóðinni á flugvellinum áður en við höldum heim og hætt þar með. Og þannig verður það líka núna. Mikið djöfull er gott að reykja. En þetta fer ekkert vel með mann svo sem. Ég finn að í lengri söngköflunum verð ég hálfandstuttur, en þó ekki þannig að ég missi úr, langt því frá. Þetta er ósiður, en þetta er bæði gott og gaman. Nú er málið þó þannig vaxið að Skálmaldar-úthöldin verða sífellt reglulegri og tíðari. Þetta var skemmtilegt og hressandi þegar við fórum ekki nema endrum og sinnum en nú þarf ég að endurskoða þetta. Ég drep allavega í á vellinum í München þann 14. desember og drulla mér í ræktina. Seinna. Gamla góða seinna.
Um hvað í helvítinu var ég aftur að tala?
Ah já, Robert. Ég er ánægður að hafa hann sem bílstjóra, svo mikið er víst. Og við keyrðum áfram. Þetta rennur aðeins saman, en í gærkvöldi stoppuðum við í einhverjum þýskum smábæ sem ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað heitir. Þar fundum við kebab-stað sem var alveg ljómandi. Og svo keyrðum við bara áfram.
Ég prófaði eitt sem ég hef ekki gert áður á tónleikaferðum, þótt ótrúlegt megi virðast. Ég horfði á vídeó í kojunni. Það er magnað. Baldur bróðir hafði meðferðis flakkara með allskonar þjófstolnu efni og ég hlóð einhverju af þessu inn á tölvuna mína. Í mismiklum hristingi horfði ég á þrjár bíómyndir í beit, Dredd (7,5), Heima (8,5) og Dark Skies (5). Ég á eftir að gera meira af þessu, það er alveg klárt. Ég eiginlega skil ekki að ég eigi allar þessar kojulegur að baki gegnum árin og hafi aldrei tileinkað mér þetta. En jújú, ég er svo sem búinn að lesa einhverja hillumetra af teiknimyndasögum. Og svo bara keyrðum við. Ég man engin smáatriði.
Stund milli stríða. Böbbi söngvari í rólegheitum.
Um hádegi lögðum við bílnum fyrir utan tónleikastaðinn hér í Leipzig. Sá heitir Hellraiser og hér spiluðum við árið 2011. Skammt er frá því að segja að þessi staður er almennt talinn algert ógeð í alla staði og ég man eftir því að fyrir þessum þremur árum var alveg hellað að spila hérna. Maturinn viðbjóður, skítakuldi um allt og almenn óþrif, tæknifólkið og allar græjur í steik og staðurinn sjálfur langt frá mannabyggðum. En þetta var ekkert svo slæmt í dag. Heimamenn hafa reyndar leyst kuldavesenið með því að ræsa steinolíuknúða hitablásara hérna innanhúss á tónleikadag. Það hélt á okkur hita, en við eigum eftir að lykta eins og útigrill í sirka viku. Meðan við biðum eftir föstum liðum laumuðum við okkur, ég, Baldur, Flexi, Jón og Robert, inn í yfirgefna járnbrautaverksmiðju sem stendur hér við hliðina á rútunni. Hún hefur sennilega verið yfirgefin mid- eða örlínæntís ef ég ætti að giska. Við skoðuðum þetta verelsi reyndar líka fyrir þremur árum, nema auðvitað Felix og Robert sem voru ekki með okkur þá. Risastórt rými, sennilega á við tvo fótboltavelli, verksmiðja í fullkominni niðurníðslu, brotnir gluggar, vaskar og klósett og allt einhvern veginn drauga- og nöturlegt. Austur-Þýskaland.
Sándtékkið okkar var svolítið seint en gekk ágætlega. Eluveitie voru nefnilega að æfa inn nýjan mann, sekkjapípu- og flautuleikara sem kemur inn í staðinn fyrir Patrick. Sá er reyndar ráðinn tímabundinn. Já, þetta band virkar aðeins á mig eins og viðskiptasamband, ekki eins og hljómsveit. En það er nú svo. Við kláruðum hljóðprufu rétt fyrir settan tíma, ég reif í mig mat sem var hreint ekki afleitur, hoppaði í tónleikagallann og svo beint á svið.
Þetta var okkar fyrsta gigg í Þýskalandi á túrnum en alls ekki það síðasta. Við erum rétt að verða hálfnaðir og eins og svo oft áður hverfist næsti leggur um Þýskaland. Við eigum jafnan nokkur gigg hér, skreppum svo eitthvert annað og snúum aftur til Þýskalands. Hér er miðstöðin, þungamiðjan og allur þessi fólksfjöldi. Giggið var mjög svo gott. Sennilega um 700 manns höfðu látið sig hafa það að mæta snemma og við rifum þau með okkur. Þetta var meistaralega gaman!
Herford, auðvitað í Þýskalandi, er áfangastaður morgundagsins. Þangað höfum við aldrei komið svo það verður áhugavert. Í þessum skrifuðum orðum heyri ég að Eluveitie eru að klára Inis Mona og þar með settið sitt. Baldur var að egna mig til að koma og hitta fólk. Það er best að ég geri það.
Klukkan er 23.27. Framundan er 350 kílómetra keyrsla sem hefst klukkan þrjú. Mig grunar að nú verði gaman.
Meistaralegt dagsins: Vídeó!
Sköll dagsins: Keyrsla, endalaust keyrsla.