Um helgina lauk 22. leiktíð ensku úrvalsdeildarinnar, vinsælustu knattspyrnudeildar í heimi. Miðausturlandahraðlestin Manchester City tryggði sér á endanum titilinn eftir æsispennandi lokasprett sem einkenndist af gríðarlegri dramatík. Hún náði líklega hámarki þegar Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool og líklega besta leikmanni í sögu deildarinnar til að vinna hana aldrei, skrikaði fótur í leik gegn Chelsea sem færði varnarvél Mourinho mark á silfurfati og Manchester City bílstjórasætið í titilbaráttunni. Það sæti lét liðið ekki af hendi.
Í aðdraganda þeirrar leiktíðarinnar í ensku úrvalsdeildinni var því spáð af Kjarnanum að þetta yrði eitt mest spennandi tímabil síðan úrvalsdeildin hófst. Ástæðan var það rót sem var á framkvæmdastjórastöðum toppliðanna. Af sjö efstu liðunum var einungis eitt með mann í brúnni sem hafði verið þar lengur en eitt tímabil, Arsenal. Mest munaði auðvitað um brotthvarf Sir Alex Ferguson frá Manchester United, en hann kvaddi með meistaratitli þrátt fyrir að liðið sem hann var með í höndunum hafi verið eitt slakasta United-lið í manna minnum.
Þessar væringar áttu heldur betur eftir að móta tímabilið, sem verður að teljast eitt það skemmtilegasta og mest spennandi sem leikið hefur verið frá því að úrvalsdeildin var sett á laggirnar árið 1992.
Meiri dramatík en áður
Þegar 19 umferðir höfðu verið leiknar í desember síðastliðnum, og deildin hálfnuð, voru Sunderland og West Ham í tveimur neðstu sætunum. Fulham og Crystal Palace voru með jafnmörg stig og nánast sömu markatölu í sætunum þar fyrir ofan. Af þessum fjórum liðum féll einungis eitt, Fulham. Sunderland varð annað liðið frá upphafi úrvalsdeildarinnar til að vera á botninum en bjarga sér samt frá falli. Lengst af voru um tíu lið í fallbaráttunni.
Á sama tíma var Arsenal í efsta sæti og Everton í fjórða sæti. Liverpool sat þá í fimmta sætinu og utan meistaradeildarinnar þegar tímabilið var hálfnað. Hin fræga afturför Manchester United var í góðum gír á þessum tíma og liðið sat í sjötta sæti.
Eftir síðustu helgi blasti allt önnur staða við. Cardiff og Norwich féllu með Fulham, Manchester City varð meistari eftir ótrúlega baráttu við Liverpool, Arsenal lenti í fjórða sæti og Everton í því fimmta með 72 stig. Það hefur einungis gerst þrisvar í sögu úrvalsdeildarinnar að slíkur stigafjöldi dugi ekki til að ná fjórða sætinu. Síðast þegar Everton náði meistaradeildarsæti árið 2005 var liðið með 61 stig, ellefu stigum minna en á þessari leiktíð. Árið áður fékk Liverpool 60 stig og náði meistaradeildarsæti. Árið 1997 vann Manchester United raunar titilinn með 75 stigum, þremur meira en Everton náði nú.
Sóknarbolti og miklu fleiri mörk
Fyrir þetta tímabil höfðu einungis þrjú lið náð að skora yfir 90 mörk á einu tímabili. Og einungis eitt þeirra náði að skora yfir 100 mörk. Það var Chelsea-liðið undir stjórn Carlo Ancelotti árið 2010 sem skoraði 103 mörk. Í ár náðu tvö efstu liðin, Manchester City og Liverpool, bæði að skora yfir 100 mörk. Til að setja breytinguna á Liverpool í samhengi hafði liðið mest skorað 77 mörk á tímabili áður síðan úrvalsdeildin varð til. Þetta var því mikið markatímabil, enda sóknarleikur í fyrirrúmi hjá öllum liðunum í topp fimm utan Chelsea.
Luiz Suarez náði að verða einungis sjöundi leikmaðurinn frá upphafi til að skora yfir 30 mörk. Hann jafnaði met Alan Shearer (1995/1996) og Cristiano Ronaldo (2007/2008) með því að skora 31 mark í 38 leikja deild. Suarez gerði reyndar betur en þeir báðir með því að skora mörkin sín í einungis 33 leikjum, enda hóf hann tímabilið í löngu banni fyrir að bíta andstæðing. Það þarf að spila ansi magnað tímabil til að vera valinn betri en fótboltaaflið Yaya Toure. En Suarez tókst það.
Mörg lið komu mjög á óvart
Það er óhætt að segja að þetta hafi verið tímabil Merseyside-liðanna frá Liverpool þótt bæði hafi kannski lokið keppni vitandi að þau voru hársbreidd frá því að gera enn betur. Liverpool var auðvitað á kafi í titilbaráttu fram á síðasta dag og spilaði leiftrandi sóknarbolta sem tætti á stundum í sig sum bestu lið deildarinnar með þeim hætti að leikirnir voru nánast búnir í fyrri hálfleik. Nægir þar að nefna 5-1 sigur á Arsenal í febrúar þar sem Liverpool skoraði fjögur á fyrstu 20 mínútunum. Liðinu tókst líka að vinna 12 af síðustu 14 leikjum sínum, sem verður að teljast rosalegur árangur.
Margir spáðu því að Everton myndi hrynja eins og spilaborg eftir að David Moyes yfirgaf félagið fyrir Manchester United eftir ellefu ára starf. Annað kom heldur betur á daginn. Liðið náði fleiri stigum en það hefur nokkru sinni áður náð í úrvalsdeildinni og gerði það með því að spila frábæran sóknarbolta undir stjórn Roberto Martinez. Hápunktur tímabilsins var ugglaust sá að vinna Manchester United, og David Moyes, bæði heima og að heiman. Liðið hafði þá ekki unnið á Old Trafford frá árinu 1992.
En ýmsir komu líka á óvart á hinum enda deildarinnar. Sunderland tók þá góðu ákvörðun að reka hinn vægast sagt vanstillta Paolo Di Canio eftir fimm leiki, enda liðið einungis með eitt stig á þeim tímapunkti. Gus Poyet tók við, en hans beið það verkefni að slípa til hóp sem samanstóð af 14 nýjum leikmönnum og afgangi sem var í sjokki eftir Di Canio tímann. Honum tókst að koma liðinu í úrslit deildarbikarsins og bjarga því síðan frá falli með ótrúlegum endaspretti þar sem Sunderland vann bæði Chelsea og Manchester United á útivelli og náði í 10 stig af 12 mögulegum.
Hinn kjallarastjórinn sem er vert að minnast á er Tony Pulis. Eftir að hafa verið rekinn frá Stoke fyrir að spila leiðinlegan fótbolta, með mikla áherslu á löng innköst, mætti maðurinn með bensínstöðvarderhúfuna í brúna hjá Crystal Palace og vann kraftaverk með lið sem ansi margir sérfræðingar voru vissir um að myndi falla beint aftur. Pulis náði að skila Palace í ellefta sætið með 45 stig og vann meðal annars fimm leiki í röð undir lok tímabilsins.
Vonbrigði ársins
Þótt stuðningsmenn Arsenal séu eflaust fúlir með enn eitt árið í fjórða sæti, og nágrannar þeirra í Tottenham yfir því hvað liðið þeirra var bæði slakt og leiðinlegt þorra tímabilsins, þá er einungis einn handhafi vonbrigðatitilsins: Manchester United og David Moyes. „Hinn útvaldi“ var greindur ítarlega í Kjarnanum fyrr í vetur og tveimur mánuðum síðar var búið að reka hann. Manchester United sló enda nánast öll óæskileg met sem hægt var að slá. Fyrir utan að hafa ekki einu sinni náð Evrópudeildarsæti spilaði liðið einfaldlega hræðilega leiðinlegan fótbolta þorra tímabilsins. Það voru viðeigandi endalok á þessari helför að Moyes hafi verið rekinn eftir að gamla liðið hans Everton sundurspilaði slakt United lið í apríl.
Moyes og United hefðu líka átt verstu kaup ársins í Marouane Fellaini ef Tottenham hefði ekki eytt 30 milljónum punda í Erik Lamela.
Hin vonbrigðin eru stjóraskiptin hjá Cardiff, Fulham (tvisvar), Norwich og West Bromwich Albion. Þau ákváðu öll að ráða stjóra til að redda sér frá falli sem höfðu enga reynslu af því að stýra liði í enskri deildarkeppni. Það reyndist ákaflega dýrkeyptur afleikur hjá öllum nema West Brom, sem þó náði bara rétt að hanga í deildinni. Á sama tíma réðu Crystal Palace og Sunderland bæði stjóra með reynslu af enskum fótbolta og héldu sér uppi með stæl. Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin.
Greinin birtist fyrst í síðasta Kjarnanum. Lestu hann hér.