Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.

Er aukinn ójöfnuður eina framtíðin?

a.almynd-4.jpg
Auglýsing

…allir borgarar ættu að kynna sér peninga, hvaða mælikvarðar eru nýttir á peninga, hvaða staðreyndir tengjast peningum og sögu peninga. Þeir sem eiga mikla peninga bregðast aldrei í því að verja hagsmuni sína. Að neita að eiga við tölur þjónar hins vegar sjaldnast hagsmunum hinna tekjuminni.“ (577)

Einhvern veginn þannig mætti snúa lokaorðum bókar franska hagfræðingsins Thomas Piketty, Capital in the Twenty-First Century, yfir á íslensku en ensk þýðing bókarinnar hefur náð efst á metsölulista bæði vestan og austan hafs. Bókin hefst á umfjöllun Pikettys um þróun hagfræðinnar sem hann horfir gagnrýnið á, ekki síst í Bandaríkjunum semKatrín Jakobsdóttir hann telur smám saman hafa þróast út í óhlutbundnar stærðfræðiformúlur sem ekki byggist á raungögnum og hafi litla þýðingu fyrir samfélagið. Þannig hafi hagfræðingar heimsins vanrækt að rannsaka vaxandi ójöfnuð í heiminum en lagt ofurtrú á kenningu Kuznets um að vöxtur leiði sjálfkrafa til aukins jöfnuðar (15-16).

Sú aðferð að tengja hagfræði við önnur vísindi, sérstaklega sögu og félagsvísindi en líka t.d. bókmenntir, er vissulega frábrugðin þeirri fræðahefð sem lesendur eiga að venjast frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Piketty tengir saman sögulega, félagslega og efnahags­lega þróun og hvernig sögulegir viðburðir og pólitískar ákvarðanir hafa haft áhrif á þróun jöfnuðar í heiminum. Honum eru hugleiknar skáldsögur Jane Austen og Honoré de Balzac og hvernig lýsingar þeirra á mannlífinu eru mikilvæg heimild um samfélagsuppbyggingu þess tíma. Þessar tengingar gera það að verkum að það er auðvelt og skemmtilegt að lesa bók Pikettys og lesandinn fær betri innsýn í það sem Piketty telur hafa áhrif á jöfnuð, bæði sögulega viðburði, lýðfræðilega þróun, áherslur í menntun og skattlagningu.

Auglýsing

almennt_15_05_2014

Rauður þráður í gegnum bókina er sú meginkenning að þegar rentan af auðmagninu sé meiri um nokkurt skeið en vöxtur sé það mjög öflugur hvati til aukins ójafnaðar. (361) Piketty rökstyður það m.a. með því að vöxtur miðað við höfðatölu til lengri tíma sé sjaldnast meiri en 1,5% og fer yfir vöxt, t.d. í V-Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, á árunum 1990 til 2012 máli sínu til stuðnings. (95-96) Þegar rentan af auðmagninu verði meiri en almennur vöxtur þýði það að auður þeirra sem mesta rentu fái af sínu auðmagni vaxi hraðar en kjör almennings. Þegar auður sé orðinn til vaxi hann af innri kröftum; því meiri auður, þeim mun hraðar vaxi hann.

Piketty setur þetta í samhengi við stöðuna í samtímanum, en út frá þeim gögnum sem hann hefur rannsakað á ríkasta 0,1% prósentið um það bil 20% af öllu auðmagni í heiminum og auðugasta eina prósentið (um 45 milljónir manna) á um 50% af öllum auði heimsins. Ójöfnuðurinn er enn meiri hnattrænt vegna þess að ójöfnuður milli heimshorna er mikill. Piketty telur að á þessari þróun sé einungis unnt að hægja með framsæknu skattkerfi. (438) Auðugasta eina prósentið fái tekjur sínar í gegnum fjármagnið – næstu níu prósentin fremur í gegnum laun (þar má finna framkvæmda­stjóra á ofurlaunum). Ríkustu 10 prósentin eigi um 60% þjóðarauðsins í flestum Evrópuríkjum (Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Ítalíu). Fátækustu 50 prósentin eiga minna en tíu (jafnvel fimm) prósent af þjóðarauðnum. (257).

Stríð og skattar


Capital in the Twenty-First Century er ekki síður sagnfræði en hagfræði enda telur Piketty að sögulegir viðburðir hafi stundum skapað aukinn jöfnuð. Þannig hafi heimsstyrjaldirnar tvær orðið til þess að efnafólk missti talsvert af eigum sínum og vestræn ríki orðið að beita aukinni skattlagningu á hátekjufólk til að standa undir stríðsrekstrinum. Að sama skapi hófst tímabil mikils vaxtar í Evrópu eftir seinna stríð sem varð til þess að almenningi vegnaði vel, víða höfðu einkafyrirtæki færst í opinbera eigu eftir stríð sem skilaði samfélaginu auknum auði og víða var komið upp þrepaskiptu skattkerfi sem dreifði skattbyrðinni ólíkt á hópa þannig að hinir efnameiri báru meiri byrðar en hinir tekjulægri. Minni samþjöppun auðs nú en undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu er þannig fyrst og fremst vegna tiltekinna sögulegra viðburða og stjórnvaldsaðgerða. Piketty rekur svo hvernig pólitískar ákvarðanir á níunda áratug tuttugustu aldar sneru þessari þróun við. Áður en kyndilberar nýfrjálshyggjunnar, Ronald Reagan og Margaret Thatcher, komust til valda á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum, höfðu Bretland og Bandaríkin gengið mjög langt í skattlagningu á ofurtekjur og verið þar með skattprósentu yfir 90%, sem var mun lengra gengið en í öðrum löndum, s.s. Frakklandi og Þýskalandi, sem voru mun íhaldssamari. Þetta skatthlutfall var keyrt mjög hart niður á níunda áratugnum, allt niður í 28% árið 1986 í Bandaríkjunum. Nú er deilt um það hvort Obama muni hækka þessa skattprósentu upp í 40% á meðan hann er í embætti og það talið ólíklegt.

Piketty telur hins vegar það vera (sjálfs)blekkingu að halda að eðli hagvaxtar eða markaðslögmálin muni tryggja minnkandi ójöfnuð í takt við fræga kenningu Kuznets. (376) Ekki síst þegar lýðfræðileg þróun bendir til þess að arfur muni skipta meiru í V-Evrópu og Bandaríkjunum (þ.e. minni fjölgun, færri börn, meiri eignir ganga í erfðir) og þannig aukist ójöfnuður, sérstaklega ef skattlagningu er ekki beitt með markvissum hætti. Þannig telur hann að skattlagning sé EKKI tæknilegt úrlausnarefni heldur pólitískt og heimspekilegt viðfangsefni. (493). Þrepaskipt skattkerfi sé grundvallar­stólpi velferðarkerfisins sem gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu þess á 20. öld sem og við að auka jöfnuð á þeim sama tíma. (497)
Piketty telur ójöfnuðinn í Bandaríkjunum eina orsök fjármálakreppunnar, en vaxandi ójöfnuður leiddi til þess að kaupmáttur lág- og millistétta staðnaði með þeim afleiðingum að þau heimili skuldsettu sig frekar og nýttu sér ódýrt lánsfjármagn sem afregluvæddir bankar buðu upp á. Þannig stuðlaði ójöfnuðurinn að aukinni skuldsetningu lág- og millistéttarinnar og fjárhagslegur óstöðugleiki jókst. (297) Þannig sé jöfnuður einn þáttur í að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.

Hnattvætt skattkerfi?


En Piketty er ekki með einfaldar lausnir á þessu viðfangsefni. Hann segir að hnattvæddur skattur sé því miður óraunhæft markmið en hugsanlega væri hægt að taka upp svæðisbundna skatta eða álfuskatta og jafnvel sé þannig hægt að koma á hnattvæddum þrepaskiptum skatti á fjármagn í áföngum. Það sé besta leiðin ásamt auknu gagnsæi í kringum alþjóðlega fjármagnsflutninga og viðskipti til að tryggja jöfnuð til framtíðar (515). Þetta er líklega útópísk lausn og kallar á mjög þétta alþjóðlega samvinnu og mikið gagnsæi sem eru nauðsynlegar forsendur hnattræns jafnaðar. Kerfið er nú mjög ógagnsætt, sem birtist t.d. í því að upplýsingar um milljarðamæringa heimsins liggja hvergi fyrir, helsta heimild er milljarðamæringatal Forbes sem byggist á upp­lýsingum úr ársskýrslum en ekki opinberum tölum.

Aukið gagnsæi kallar á afnám bankaleyndar gagnvart stjórnvöldum, sem Piketty telur róttækt skref en spyr á móti hvort einhver eigi rétt á því að ákvarða í raun eigin skattaprósentu með því að halda tilteknum eignum utan kerfisins (521-522). Piketty telur samræmdan og gagnsæjan fjármagnsskatt raunhæfan valkost fyrir Evrópu, eða a.m.k. evruríkin, og telur það styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart Kína sem er með fjármagnshöft og stýrir flæði fjármagns inn og út úr landinu. Fjármagnsskattur sé í raun frjálslynda útgáfan af fjármagnshöftum. (536) Piketty telur að úr því að Evrópuríkin hafi sameinast um gjaldmiðil, evruna, sé erfitt að skilja af hverju þau geti ekki komið sér saman um skattastefnu gagnvart lögaðilum sem starfi þvert á landamæri. Piketty leggur til sérstakt „fjárlagaþing Evrópu“ þar sem sætu fulltrúar evrópskra þjóðþinga til að tryggja samræmi við þjóðþingin og lýðræðislega ákvarðanatöku. (558-562). Niðurstaða Piketty er að gagnsæi í fjárhagsupplýsingum og nýting þeirra upplýsinga til að leggja á þrepaskiptan skatt sé nauðsynlegt fyrir efnahagslegt lýðræði. Það sé undirstaða velferðarkerfis á 21. öld. (570)

Bók Pikettys er mikilvægt innlegg í vaxandi umræðu um ójöfnuð, afleiðingar hans og hvort stjórnvöld um heim allan eigi að líta á það sem verkefni sitt að sporna gegn ójöfnuði. Þar hafa alþjóðastofnanir látið í sér heyra og beinlínis varað við ójöfnuði sem einni helstu ógn við frið í heiminum. Bókin hefur þann stóra kost að samþætta ólíkar fræðigreinar og ræða fjármagn í félagslegu samhengi – en fyrir það hefur hún líka verið gagnrýnd, ekki síst af hagfræðingum vestanhafs sem telja of lítið gert úr hefðbundnum aðferðum hagfræðinnar og eru gagnrýnir á kenningar Pikettys um tengsl auðmagnsrentu og vaxtar. Langflestir eru þó sammála um að þessi bók sé skyldulesning fyrir alla þá sem vilja taka þátt í umræðu um efnahagsþróun í heiminum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Women Empowerment – bók eftir Eddu Falak
„Kynþokki er allavega og við ættum ekki að vera hræddar við að sýna hann“
Edda Falak safnar nú fyrir bók sem ber nafnið „Women Empowerment“ á Karolina Fund.
Kjarninn 9. maí 2021
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiKjarnafæði
None