Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Jónína Leósdóttir
Bara ef …
Útgefandi: Mál og Menning
Afþreyingarbókmenntir njóta vinsælda. Skárra væri það nú. Merkilegt samt hvað tegundir þeirra eru fábreyttar, allavega þeirra sem koma úr íslenskum pennum. Krimmar langfyrirferðarmestir að sjálfsögðu, og ein og ein fantasía, hrollvekja og skvísubók flýtur með. En léttmeti án morða, galdrakarla og skóblætis er ekki á hverju strái.
Hér kemur samt ein. Það deyr enginn í Bara ef … og hún segir einfaldlega frekar hversdagslega sögu af sviptingasömum dögum í lífi tiltölulega venjulegrar stórfjölskyldu sem stendur frammi fyrir afleiðingum skyndiákvörðunar hins hvatvísa „ættföður“ sem hefur boðað skilnað frá konu sinni með fullt næsta herbergi af gestum í rogastansgilli* í tilefni af sextugsafmæli kallsins. Smám saman kemur í ljós að hann á ekki allskostar skap með sinni kattþrifnu, heilsumeðvituðu og gleðihressu eiginkonu. Auk þess er hún flatbrjósta og gott ef einhver hliðarspor hafa ekki verið stigin vegna freistinga af því taginu.
Fleira er í gangi. Dóttir hjónanna er að reyna að fá manninn sinn til að bæta barni við þau þrjú sem hann á með þunglyndri fyrri konu sinni. Hún svífst einskis í þessu áformi. Eða það höldum við, og hann.
Sagan fjallar um þetta fólk og þessi vesen. Lipur og látlaus frásagnarháttur Jónínu fellur vel að viðfangsefninu. Persónugalleríið er litríkt og vel teiknað innan þess raunsæisramma sem formið kallar á.
Samt tekst þetta ekki alveg. Skemmtibók verður að vera skemmtileg, og Bara ef … verður aðeins þreytandi til lengdar.
Vandi hennar er tvíþættur:
a) endurtekningarnar í frásögninni. Þegar ég var búinn að fá mig meira en fullsaddann af lýsingum á deilum hjónanna um heilsusamlegt vs. hedónískt líferni átti Jónína enn eftir að mjólka það efni bara talsvert.
b) hvernig plottin sem eiga drífa frásögnina áfram fletjast út á endasprettinum. Það vantar aðeins meiri djörfung í að láta ákvarðanir hafa afleiðingar, eða allavega leiða atburðina til lykta á hugvitsamlegri hátt. Mun samt ekki nefna nein dæmi, fólk þarf að lesa sjálft.
Það er alls ekki leiðinlegt að deila með fjölskyldu bókarinnar þeim klukkustundum sem það tekur að lesa bókina. Vafalaust finna margir samhljóm í hinum ýmsu vandkvæðum fólksins. Þau eru svo sannarlega eins og við flest og bregðast að mestu við aðstæðum sínum á trúverðugan hátt. Fyrir minn smekk hefði hefði Bara ef ... samt þurft að vera aðeins skemmtilegri, óvæntari, rökréttari, miskunnarlausari. Eða helst allt þetta.
- Þessi þýðing Stuðmanna á „Surprise Party“ er bara of góð til að fara ekki í almenna notkun.