Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Að þessu sinni er það bókin Stundarfró, eftir Orra Harðarson sem er til umfjöllunar.
Stundarfró
Höfundur: Orri Harðarson
Útgáfa: Sögur útgáfa
Ritgleði einkennir þessa fyrstu skáldsögu Orra Harðarsonar. Hann nýtur þess að segja þessa sögu sem fyrir vikið verður létt og hraðfleyg þó viðfangsefnin séu ef grannt er skoðað alls engin froða, og hann ekkert að reyna að láta líta svo út.
Þó sögusviðið sé Innbærinn á Akureyri, 101 Reykjavík og Strikið í Kaupmannahöfn en ekki verbúð eða lúkar þá eru viðfangsefnin þau sömu og í Hrognin eru að koma hjá Bubba, slagsmál, ríðingar, fyllerí. Eða í mikilvægisröð: Fyllerí, ríðingar, slagsmál.
Það sleppur enginn létt frá þessum dansi, þó skemmtanaskatturinn leggist af mismunandi þunga á persónurnar. Er það ekki alltaf þannig
Stundarfró togar í nostalgýgjustrengina í taugakerfi manns sem eyddi stórum hluta af árum 17 til 20 á Akureyri með sannfærandi lýsingum á lífinu þar. Ég sé að menn hampa bókinni fyrir að vera fyrsta skáldsagan í langan tíma sem gerist þar í bæ og gerir andrúmsloftinu þar áhugaverð skil. Undir það get ég tekið. Upphafshluti bókarinnar, og þeir sem síðar koma og fjalla um lífið á eyrinni eru „spot-on“. Það sama verður að segja um gæðablóðið Agnar Má, sem Dísa, ein þriggja meginpersóna bókarinnar, tekur saman við eftir að önnur þeirra, skáldið Arinbjörn Hvalfjörð, gengur henni úr greipum. Það er eitthvað dásamlega „akureyrskt“ við manninn, og í frásagnarfjörinu í kringum hann minnir Orri mig einna helst á Einar Kárason. Víðar reyndar.
Ein leið til að greina Stundarfró er að horfa á hana sem þríleik, með þremur stórum „senum“ þar sem hver aðalpersóna um sig fær að skína í sínum hluta. Upphafshlutinn á Akureyri er með ömmuna Aðalsteinu í miðju þó atburðarásin hverfist um næturævintýri barnabarnsins í kjallaranum og ungskáldsins að sunnan, en þó ekki síst um alkóhólistahegðun skáldsins. Miðparturinn segir frá Dísu, höfuðborgarheimsókn hennar til að endurheimta elskhugann, og er nánast hreinræktaður farsi. Í lokakaflanum - Arinbjarnarkafla - víkur sögunni til Kaupmannahafnar þar sem skáldið býr við illan kost og handan við brenndar brýr. Harmleikur hans snýst upp í hálfgert melódrama þegar Dísa og hennar fjölskylda heimsækir okkar forna höfuðstað.
Innan um og meðfram þessum þremur stólpu gerist auðvitað margt og mikið, persónurnar ýmist sigla lífi sínu í strand eða kosta því til sem þarf til að koma því áfram.
Persónusköpun, andrúmsloft, plott. Allt fínt. Kannski má kvarta smá yfir að fortíðarsaga og inngangslýsing Aðalsteinu ömmu vanti einhverskonar lokun í bókarlok. Eins getur farsakennd atburðarás miðhlutans og melódramatísk endalokin stuðað. Vel má ímynda sér að það stílbragð að vitna títt í poppsöngtexta þreyti einhverja lesendur. Þeir pirruðu mig ekki, þó fyrrnefndu atriðin tvö hafi mér þótt vera á línunni með að skemma söguna.
Þegar upp er staðið er þetta samt aðallega kröftug og úthugsuð saga sem skemmtir, hlægir og hryllir mann. Gott mál bara.
Eitt af vel heppnuðum stílbrögðum Orra er lýsingin á sjálfsblekkingu drykkjuboltans Arinbjarnar:
„Innra með honum mættust gjarnan nokkurs konar meirihlutastjórn og stjórnarandstaða. Máli beggja talaði hann samviskusamlega en gætti þess þó jafnan að stjórnin hefði andstöðuna undir. Sú síðarnefnda var einatt rödd skynseminnar. Það var sjaldnast heillandi að halda með henni. Og oft lét Arinbjörn hana leiðast út i eitthvert ömurlegt málþóf.“