Franski ökuþórinn Jules Bianchi liggur þungt haldinn á gjörgæslu í Japan eftir að hafa skautað út af Suzuka-brautinni undir lok japanska kappakstursins í Formúlu 1 sem fram fór í morgun. Bianchi sem ekur fyrir Marussia-liðið gekkst undir skurðaðgerð á höfði eftir að hafa verið ekið í sjúkrabíl á bráðavaktina.
Skiptar skoðanir eru á því hvort aðstæður á Suzuka-brautinni hafi verið ásættanlegar til kappaksturs í morgun en fellibylurinn Phanfone gekk næst landi um svipað leyti og kappaksturinn fór fram. Úrhellis rigningu gerði á meðan kappakstrinum stóð. Sökum vatselgs á brautinni var mótið ræst fyrir aftan öryggisbíl en hann stöðvaður þegar einungis tveimur hringjum var lokið. Tuttugu mínútum síðar óku bílarnir af stað á ný fyrir aftan öryggisbíl þar til Charlie Whiting, mótsstjóri í Formúlu 1, dæmdi aðstæður nógu góðar til að hefja kappaksturinn fyrir alvöru, meðal annars eftir að ökumenn höfðu gefið álit sitt yfir talstöðina.
Kappaksturinn gekk stóráfallalaust í 44 hringi þrátt fyrir mikla rigningu og barátta liðsfélganna hjá Mercedes, þeirra Lewis Hamilton og Nico Rosberg, var fjörug þegar þeir skiptust á að hafa forystu. Þegar Adrian Sutil missti stjórn á bíl sínum í vatnselg í einni af hröðustu beygjum brautarinnar varð fyrsta óhapp mótsins. Sauber-bíll Sutil skall á dekkjavegg en ökuþórinn sakaði ekki.
Við venjulegar kringumstæður er talið öruggt að senda kranabíl á vettvang og gefa öðrum ökuþórum merki um að gæta ítrustu varúðar umhverfis slysstaðinn. Það var og gert en þegar kraninn var að draga Sauber-bílinn inn um hlið á dekkjaveggnum missti Jules Bianchi stjórn á Marussia-bíl sínum á nákvæmlega sama stað og Sutil, skautaði útaf en skall á kranabílnum.
Ekki með meðvitund
Mótið var stöðvað um leið og ljóst var að ekki væri allt með felldu með því að flagga rauðum flöggum umhverfis brautina á hring 45 og læknabíll sendur á staðinn. Tæknimenn og liðsstjórar liðanna eru í stöðugu sambandi við ökumenn sína á meðan kappakstri stendur og spurja jafnan yfir talstöðina hvort það sé í lagi með ökuþóra sína þegar þeir lenda í slysi. Þegar tæknimaður Bianchi kallaði yfir talstöðina herma fregnir að ekkert svar hafi borist. Því er talið að Bianchi hafi misst meðvitund við slysið. Hann hefur enn ekki komið til meðvitundar, hálfum sólarhring eftir slysið.
Nú er nótt í Japan og ólíklegt að frekari fregnir berist af líðan Frakkans fyrr en snemma í fyrramálið.
Bíll Bianchi hefur flotið í vatnsflauminum á Suzuka-brautinni með þeim afleiðingum að hann missti stjórnina.
Skiptar skoðanir um aðstæður
Þó svo að lítið sem ekkert liggi fyrir um líðan Jules Bianchi er ljóst að þetta er með alvarlegri slysum í Formúlu 1 síðustu ár. Árekstrar og slys eru í raun og veru fremur tíð í jaðarsporti sem þessu en öryggiskröfur eru orðnar svo miklar að til undantekninga heyrir að ökumenn slasist alvarlega. Eðlilegt þykir að hljóta mar og finna fyrir eymslum eftir gríðarlega harða árekstra á miklum hraða. Mesta hættan er þess vegna þegar aðskotahlutir eða kranabílar, eins og í þessu tilviki, eru innan öryggissvæðis brautarinnar.
[accordions type="toggle" handle="pm" space="yes" icon_color="#ff7700" icon_current_color="#404040"]
[accordion title="Meiri varúð höfð í rigningu" state="close" ]Undanfarin ár hefur Charlie Whiting sýnt æ meiri varúð þegar kemur að regnmótum í Formúlu 1. Þannig stóð kanadíski kappaksturinn 2011 í hátt í fimm klukkustundir vegna ítrekaðra frestana. Reglan um lengd móta er sú að heildartími sem kappakstur tekur má ekki vera lengri en tveir klukkutímar. Sé mótið stöðvað innan þess tíma stöðvast klukkan. En ekki mega líða meira en fjórir klukkutímar frá því að kappakstur er ræstur og þar til honum líkur. Annars eru úrslit mótsins staðfest eftir fjórar klukkustundir. Keppnislið og aðstandendur mótsins í Japan höfðu áhyggur af því að mótið myndi dragast lengi vegna vatnsveðursins. Ekki bætti úr skák að nánast algert myrkur mundi skella á milli 17 og 18 að staðartíma. Því var ljóst að kappaksturinn gat ekki staðið frá klukkan 15 til 19. Mótið var á endanum ræst klukkan 15.[/accordion]
[/accordions]
Aðstæður á brautinni Japan voru erfiðar. Ekki aðeins fyrir ökumenn heldur einnig fyrir mótshaldara og mótsstjóra. Strax á sunnudagsmorgun þegar ljóst var að mikið vatnsveður var á leið yfir brautina fóru fulltrúar keppnisliðanna að kalla eftir því að upphafi mótsins yrði flýtt um tvær klukkustundir, til klukkan 13:00 að staðartíma, til að koma í veg fyrir að slæm birtuskilyrði myndu há ökumönnum undir lok mótsins. Adrian Sutil sagði í viðtali við Autosport, þegar hann var spurður hvað hefði gerst, að erfitt hafi verið að koma auga á polla á brautinni vegna myrkurs. Sjálfur stóð hann handan vegriðsins þegar Bianchi skautaði á kranann.
Það voru líka skiptar skoðanir á því hvort mótið ætti yfir höfuð að fara fram. Dæmi eru um að kappökstrum sé frestað vegna of mikillar rigningar. IndyCar-móti í Brasilíu var til dæmis frestað fram til mánudags fyrir fáeinum árum vegna mikillar rigningar. Niki Lauda, stjórnandi hjá Mercedes-liðinu og fyrrverandi heimsmeistari í Formúlu 1, var hins vegar staðfastur á því að mótið skyldi fara fram og sá ekkert athugavert við regnið. Sjálfur lenti hann í ofboðslegu slysi í Þýskalandi árið 1976 við svipaðar aðstæður. Um það hefur meðal annars verið gerð bíómynd. „Það er varla hægt að segja að nokkuð hafi verið gert rangt. Mótið var ræst á skynsamlegan máta, það var það sem þeir gerðu,“ segir Lauda. „En þeir hefðu getað ræst mótið fyrr. Það er engin spurning. Það var fyrirsjáanlegt að mótið hefði átt að vera ræst klukkan 13.“
Eddie Jordan, fyrrum liðsstjóri í Formúlu 1 og núverandi greinandi hjá BBC, er á sama máli og Lauda. „Í mínum huga er þetta mjög skýrt: við komum hingað til að keppa og það er það sem hefði átt að gerast og það er það sem gerðist,“ segir Jordan.
Massa taldi aðstæðurnar vera og slæmar fyrir kappakstur í Suzuka.
Massa fannst þetta fáránlegt
Mótið gekk slysalaust fyrir sig í rúma 40 hringi áður en Sutil skautaði út af brautinni. Um svipað leyti segist Felipe Massa, ökumaður Williams-liðsins, hafa hrópað í talstöðina að aðstæðurnar væru orðnar háskalegar. Massa hlaut sjálfur alvarleg höfuðmeiðsl árið 2009 þegar brot af fjöðrunarbúnaði annars bíls skoppaði af brautinni og í höfuð hans vinstra megin með þeim afleiðingum að hann höfuðkúpubrotnaði. Er það síðasta alvarlega slysið í Formúlu 1 þar til nú.
„Ég hafði áhyggjur,“ sagði Massa við BBC í Japan. „Ég var byrjaður að öskra í talstöðina að það væri of mikið vatn á brautinni.“ Hann segir að aðstæður á brautinni hafi verið orðnar of hættulegar, sérstaklega um leið og slysið átti sér stað. „Það tók nokkurn tíma að fá hann [öryggisbílinn] út á brautina og það var hættulegt.“
Í kjölfar slyss Massa árið 2009 hefur höfuð ökuþóra staðið uppúr í umræðunni og reglusetningu um öryggi í Formúlu 1 og öðrum einssætismótaröðum. Á meðan allir limir ökumanna eru huldir í öruggri skel bílsins er það eina sem verndar höfuðið fyrir skakkaföllum hjálmur og HANS-búnaður. Hjálmurinn verndar ökumenn tæplega fyrir þungum aðskotahlutum sem skoppa á brautunum, eins og Massa fékk að upplifa. Eftir árekstur í upphafi belgíska kappakstursins fyrir tveimur árum færðust áhyggjur manna til enn hryllilegri slysa; ef þyngri hlutir, eins og heill bíll, skilli á höfði ökumanns. Fernando Alonso á Ferrari var til að mynda heppinn í Belgíu 2012 eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.
http://www.youtube.com/watch?v=MLIFXk9dOe4
Hugmyndir um lausnir til að útrýma þessu vandamáli eru þó umdeildar enda stríða þær gegn hugmynd fólks um Formúlu-kappakstur. Til að mynda hefur verið lagt til að byggja búr yfir ökumannsklefann, reisa grind fyrir framan höfuð ökumannsins til að vernda hann í slysum sem þessum og svo hefur verið lagt til að bílunum verði einfaldlega lokað. Slíkar tillögur verða að öllum líkindum endurvaktar á næstu vikum og mánuðum. Ekkert hefur þó verið fest í reglur um hönnun og smíði bíla hvað þetta varðar ennþá.
Alonso klifrar úr Renault-bíl sínum eftir árekstur í Brasilíu 2003.
Minningar um slys Senna vakna
Kjarninn fjallaði um afleiðingar dauðaslyss Ayrton Senna við 20 ára dánarafmæli hans í apríl á þessu ári. Senna fórst þegar hann missti stjórn á Williams-bíl sínum á miklum hraða með þeim afleiðingum að hann skall á vegg. Höfuðmeiðsl voru það sem á endanum drógu Senna til dauða. Er það síðasta dauðaslysið í Formúlu 1. Í kjölfar dauða hans var reglum um öryggi ökumanna í Formúlu 1 snarbreytt og legu heilu kappakstursbrautanna breytt til útrýma hættulegustu beygjunum.
Síðan hafa orðið nokkur alvarleg slys í Formúlu 1 sem áður hefðu að öllum líkindum verið banaslys ef ekki væri fyrir bætt öryggi. Ber hér helst að nefna hryllilegan árekstur sem Ricardo Zonta lenti í í Belgíu 1999, samstuð Eddie Irvine og Luciano Burti í Belgíu tveimur árum síðar með þeim afleiðingum að bíll Burti grófst inn í dekkjavegg, kaosið í Brasilíu 2003 þegar bílar Marks Webber og Fernandos Alonso fóru gjörsamlega í köku (þar sköpuðust raunar svipaðar aðstæður og í regninu í Japan í morgun) og ofboðslega bílveltu Roberts Kubica í Kanada 2007.
Fylgist með frekari tíðindum af líðan Jules Bianchi hér og á Twitter Kjarnans.