Myndir þú nefna barnið þitt í höfuðið á Boris heitnum Jeltsín?
Það gerðu foreldrar fótboltamannsins Yeltsin Tejeda frá Kostaríku, sem er fæddur í mars 1992. Móðir drengsins var svo hrifin af Jeltsín, sem þá var nýorðinn forseti hins glænýja Rússlands. Sovétríkin hrundu á jóladag 1991. Við það hvarf Mikhaíl Gorbatsjov frá og Boris Jeltsín tók við sem forseti landsins eftir mikið valdabrölt. Jeltsín var mjög vinsæll í upphafi og mamma Yeltsins litla Tejeda var ein þeirra sem heilluðust af honum.
Spurningin er hvort hún hafi enn verið jafn hrifin af honum þegar hann lét af embætti á gamlársdag 1999.
Í valdatíð Jeltsíns gekk Rússlands í gegnum ýmsar hremmingar, meðal annars vegna hinna gríðarlega hröðu umskipta frá kommúnisma til einkavæðingar og kapítalisma. Jeltsín stóð líka í hernaðarbrölti; réðist inn í Téténíu í desember 1994, sem var upphafið að áralöngu blóðbaði með miklu mannfalli og eyðileggingu.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/64[/embed]
„Boris Yeltsin drunk“
Hann er í það minnsta ábyggilega ekki efstur á óskalistanum hjá mörgum nýbökuðum foreldrum í nafnaleit. Í dag virðist internetið helst muna eftir Jeltsín sem fyllibyttu. Þegar maður slær inn nafnið Boris Yeltsin á Google birtir leitarvélin manni sjálfkrafa orðin „Boris Yeltsin drunk“.
Bill Clinton Bandaríkjaforseti sagði frá atviki sem gerðist í opinberri heimsókn Jeltsíns vestur um haf árið 1995. Leyniþjónustumenn fundu rússneska forsetann blindfullan fyrir utan bústað sinn við Hvíta húsið í Washington. Hann var á nærbuxunum einum og ætlaði að panta sér leigubíl til að ná sér í pítsu.
Ronaldo nefndur eftir Reagan
En Yeltsin Tejeda er ekki eini fótboltamaðurinn á HM 2014 sem ber nafn sálugs forseta. Sjálfur Cristiano Ronaldo, fyrirliði Portúgala og núverandi handhafi FIFA Ballon d‘Or (verðlauna fyrir besta leikmann heims), er nefndur í höfuðið á Ronald Reagan Bandaríkjaforseta 1981-1989.
Ronaldo er fæddur árið 1985, sem má segja að hafi verið hátindur Reagans á valdastóli eftir að hann var endurkjörinn með stórsigri á Walter Mondale í forsetakosningunum 1984. Kannski voru foreldrar Ronaldos, sem þá bjuggu á smáeyjunni Madeira í Atlantshafi, hrifnir af slagorði Reagans „Morning in America“, þegar þau áttu Cristiano litla í febrúar 1985.
Helsti keppinautur Ronaldos um nafnbótina „besti fótboltamaður heims“ er auðvitað Lionel Messi frá Argentínu. Messi er fæddur 1987 og er nefndur í höfuðið á bandaríska poppsöngvaranum Lionel Richie, sem þá var gríðarlega vinsæll um allan heim.
Hefð fyrir því að skíra í höfuðið á frægu fólki
Í Brasilíu er einstaklega mikil hefð fyrir því að skíra börn í höfuðið á frægu fólki. Brasilíski hægri bakvörðurinn Maicon er einn þeirra. Hann heitir fullu nafni Maicon Douglas Sisenando og er fæddur árið 1981. Foreldrarnir eru miklir aðdáendur Hollywood-leikarans Michaels Douglas og nefndu drenginn eftir honum.
Nafngiftin fór að vísu í handaskolum því þjóðskrá í Brasilíu skráði hann sem Maicon en ekki Michael, kannski af því að þannig er auðveldara að bera nafnið fram á portúgölsku. Bróðir Maicons Douglas ber líka flott nafn: Hann heitir Marlon Brando.
Af hverju tileinka Íslendingar sér ekki svona nafnaval – að minnsta kosti fyrir fótboltafólk? Ég vil sjá landsliðsfyrirliðana Gorbatsjov Sveinbjörnsson og Margréti Thatcher Sigurðardóttur.