Leikhópurinn Svipir, hafa hafist handa við að sviðsetja Endatafl eftir Samuel Beckett, sem er annað hans frægasta leikrit. Kristín Jóhannesdóttir stýrir hópnum með aðstoð skáldsins og dramatúrgsins, Sigurðar Pálssonar. Leikarar eru meðal annars Þorsteinn Bachmann, Þór Tulinius og Harpa Arnardóttir. Þórunn María Jónsdóttir sér um búninga, en Kristín hannar leikmynd. Halldór Örn Óskarsson er ljósahönnuður. Frumsýning er áætluð í byrjun maí í Tjarnarbíó. Umgjörðin er kostnaðarsöm og því eru þau að leita til almennings um að forkaupa miða á sýninguna til þess að aðstoða þau við að fjármagna sviðsmynd verksins.
Við tókum Þór Tulinius tali.
Full ástæða til að dusta rykið af meistarastykki
Segðu okkur frá leiksýningunni Endatafl. Hvers vegna ákváðuð þið að setja það á svið?
„Endatafl ásamt Beðið eftir Godot er það verk sem haldið hefur nafni Nóbelskáldsins írska hvað mest á lofti. Það hefur aðeins verið sýnt tvisvar á Íslandi áður og síðast fyrir næstum þrjátíu árum, svo okkur í leikhópnum Svipum fannst full ástæða til að dusta rykið af þessu meistarastykki. Harpa Arnardóttir og ég sendum inn umsókn til Menntamálaráðuneytisins og erum þakklát fyrir að hafa hlotið styrk úr þeim ranni. Síðan hefur hver stórstjarnan á fætur annarri laðast að verkefninu. Kristín Jóhannesdóttir leikstýrir, Sigurður Pálsson er ráðunautur, Þorsteinn Bachmann bregður sér í aðalhlutverkið, Hamm, ég leik Clov, Harpa er Nell, Þórunn María Jónsdóttir sér um búninga og Halldór Örn Óskarsson um ljós. Við erum með frábært lið í öllum póstum, því allir vilja vinna með Beckett."
https://vimeo.com/120701522
„Endatafl er talið til absúrdverka en eins og títt er um leikrit úr þeim flokki er það barmafullt af fáránleikakímni. Eins og skáldbróðir hans Tsjékhov, vildi Beckett að leikverk hans vektu kátínu en ekki þann drunga, sem margir vilja sjá í þeim. Endatafl er nefnilega eins og öll leikrit Becketts leikur, leikur að leikhúsi, leikur persónanna við hvor aðra, leikur til að leika á tímann, til að leika á lífið, sem væri óbærilegt ef ekki væri fyrir leikinn og þótt það fáist við fánýti tilverunnar betur en nokkur önnur leikverk gera, þá fjallar það með hjartanlegri kímni og djúpri hlýju um ódrepandi hvöt mannsins til að halda samt áfram, gefast aldrei upp, jafnvel þótt hann sé löngu búinn að gefast upp. Þeir sem þekkja til Endatafls muna væntanlega helst eftir aldraða parinu; þau búa í sitt hvorri ruslatunnunni, sem hefur verið komið þannig fyrir að það er akkúrat nógu mikil fjarlægð á milli þeirra svo að gömlu hjónin ná ekki að kyssast. Þeirra senur eru óborganlega kómískar ..., eða réttar væri kannski að segja tragíkómískar, því samhliða glettninni er auðvitað stór og djúpur undirtónn."
Í skugga þrúgandi ógnar
Okkur finnst verkið eiga sterkt erindi í dag og sjáum í því viðvörun til okkar um ástand heimsins og hvert við stefnum í loftslagsmálum. Það er álit manna að fyrir akkúrat sextíu árum, eða 1955, hafi Beckett byrjað að kokka Endatafl upp í kolli sínum eftir ótrúlegar vinsældir Beðið eftir Godot sem frumsýnt var í París 1953. Endatafl ber þess merki að hafa orðið til í skugga þrúgandi ógnar og lýsir heimi þar sem allt líf er á hverfanda hveli eftir miklar hamfarir. Sú ógn sem vofði yfir heiminum 1955 var kjarnorkuváin, en í dag, 2015, er það umhverfisváin, eins og allir vita auðvitað, en vilja samt helst gleyma. Við erum mjög spennt fyrir þessari lesningu leikstjórans á verkinu, sem sagt að leggja áherslu á umhverfismálin, og eins með frábæra leikmyndarpælingu sem Kristín kom með. Við erum búin að setja í gang söfnun á Karolina Fund fyrir leikmyndinni og fyrir því sem vantar uppá til að við getum gert verkinu þau skil sem Beckett og áhorfendur okkar eiga skilið. Þrátt fyrir velvilja styrktaraðila erum við ennþá fjárþurfi, því leiklistin lifir ekki á andanum einum, hún kostar líka peninga.
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér