Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Heiðrún Ólafsdóttir
Leið
Útgefandi: Sæmundur
„Ég gróf fuglinn uppi við bústað. Vitiði hvort einhver hefur verið þar um helgina, það var svo mikil aska í arninum?“ spyr hún í því sem hún hellir kaffibollann fullan af mjólk og býst til að skera niður vínarbrauðslengju.
„Já, ég var þar aðeins í gær“ svara ég, að brenna eigur mínar.“
Við hlæjum öll. Stundum er best að segja bara satt, þá grunar engan neitt.
Nóvellur. Er það eitthvað? Allavega birtast þær ein af annarri á útgáfulistum forlaganna þessi árin. Og vekja athygli. Bara í fyrra fengum við Börnin í Dimmuvík, Vince Vaughan í skýjunum og svo að sjálfsögðu hinn rómaða Mánastein.
Hann er greinilega ekki lengur í gildi, hinn bráðfyndni formáli Stephens King við nóvellusafn sitt, Different Seasons, þar sem hann lýsir skelfingu forleggjara síns þegar hann mætir með fjórar sögur sem hvorki eru smásögur (þekkt stærð) né fullvaxnar skáldsögur. Eða kannski „full-vaxnar“ í tilfelli ritræpumeistarans mikla.
Neinei, nóvellur koma út og ná til sinna. Enda er þetta skemmtilegt form og örugglega hægt að rífast daginn langan um hvort það er auðveldara en skáldsagan og erfiðara en smásagan eða öfugt. Sleppum því.
Leið, frumraun Heiðrúnar Ólafsdóttur í sagnagerð, allavega útgefinni, er jafnframt lokaverkefni hennar í námi í skapandi skrifum. Og það finnst aðeins. Allavega var mig farið að gruna það áður en ég fékk það staðfest hjá Gúgul frænda. Heiðrún er svolítið að hnykla frásagnartæknivöðvana í þessari knöppu en dramatísku sögu af undirbúningi ungrar konu fyrir sjálfsmorð sitt.
Það er líka smá „ungskáldlegur“ andi yfir efniviðnum sjálfum, eða því hvað Heiðrún fer örlátlega með hann. Brjóstakrabbi, fíkniefni, blóðugt heimilisofbeldi, harðkjarnakynlíf, forsetaframboð … Það er engin lognmolla á þessum 140 A6-síðum þar sem síðustu stundir Signýjar fléttast saman við endurlit yfir heldur nöturlega en svo sannarlega sögulegu ævi.
Skoski sálfræðingurinn og rebellinn R.D. Laing hélt á lofti þeirri hugmynd að í sjúkri fjölskyldu lendi einn meðlimurinn einatt í að bera sjúkdómseinkennin og í þessari er það Signý. Hún hefur brynjað sig kaldhæðni og hörku, tamið sér skeytingarleysi um sjálfa sig. En allt kostar og nú blasir gjaldþrotið við. Aðrir í fjölskyldunni sigla öllu lygnari sjó, að einhverju leyti á hennar kostnað.
Þó svo hægt sé að greina einhver frumraunareinkenni á Leið, eins og ég var að monta mig af að hafa gert hér ofar, þá dregur það síður en svo úr áhrifamættinum. þetta er sterk og vel smíðuð saga, rödd og persónusköpun Signýjar sannfærandi og nærgöngul í sínum kaldrana og naglaskap.
Við bjóðum Heiðrúnu Ólafsdóttur velkomna á svið.