Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Jón Ólafsson (ritstj.)
Lýðræðistilraunir
Útgefandi: Háskólaútgáfan
Þessum lesanda leið ofurlítið eins og Pollíönnu við lestur Lýðræðistilrauna, ritgerðasafns þar sem félagsvísindamenn víðsvegar að úr heiminum skoða, leggja út frá og draga lærdóma af tilraun Íslendinga til að skrifa og lögleiða nýja stjórnarskrá.
Því þó sú tilraun hafi farið út um þúfur, enda brugðið fyrir hana fæti af valdastétt landsins við hvert fótmál, þá þykir hún forvitnileg um allan heim, að sumu leyti til fyrirmyndar, að öðru leyti víti til varnaðar. Um það er þessi bók. Og var þá ekki til nokkurs unnið?
Það er allavega mikilvægt að fá þessa bók. Að kynnast fræðilegri nálgun á þetta mikla hitamál. Að skoða það akademískt en ekki bara út frá rökræðum innan úr deilunni sjálfri.
Reyndar er erindi bókarinnar víðara, eins og nafnið bendir til. Ein greinanna fjallar um þátttökufjárlög og önnur fer yfir bæði tilraun Reykjavíkurborgar með þá aðferð og Icesave-atkvæðagreiðslurnar auk stjórnarskrármálsins. Það síðarnefnda er þó þungamiðja bókarinnar, og fer vel á því.
Nú er ég hvorki stjórnmála- né félagsfræðingur og möguleikar mínir til efnislegrar gagnrýni á greinarnar fimm takmarkaðir að því leyti. Engu að síður er þetta „alþýðleg“ bók, skrifuð að mestu á mannamáli og á erindi við alla sem hafa áhuga á samfélagi sínu. Hér á eftir fara frekar samhengislausir þankar út frá efni hennar, og einhverjar hnýtingar í það sem ég sé sem vankanta.
1
Það kitlar alltaf þjóðarstoltið (og það má hafa svoleiðis) þegar við gerum eitthvað einstakt. Allavega þegar þetta einstaka er jákvætt, frumlegt og skapandi. Stjórnarskrárferlið var það. Vankantarnir sem hér er staldrað við eru ekki stórvægilegir, og hugmyndir fræðimannanna að hvað betur hefði mátt fara ekki allar jafn álitlegar. Veit t.d. ekki með 100 manna slembivalið stjórnlagaþing.
2
Athyglisvert var að lesa að ein af veigameiri athugasemd Feneyjanefndarinnar við frumvarpið var við atriði sem lögspekingar höfðu breytt frá tillögum ráðsins. Þetta er eitt þeirra atriða sem styrkja mann í trúnni um að aðferðin „okkar“ hafi verið traust í grundvallaratriðum
3
Þjóðfundurinn hefur verið hálf-heilagur og niðurstöður hans að mestu yfir gagnrýni hafnar. Hér fær hann að mörgu leyti slæma útreið. Bæði eru niðurstöður hans sagðar svo opnar og almennar að erfitt sé að ímynda sér að þær hafi verið til nokkurs gagns eða leiðbeiningar fyrir vinnu stjórnlagaráðs, og svo hitt að vinnubrögð hans hafi um of stýrst af tískuhugmyndum úr atvinnulífinu. Aðrar leiðir hefðu sennilega verið vænlegri til að gefa mynd af vilja þjóðarinnar á nothæfu formi. Fleiri en einn greinahöfunda staldrar við þetta og mér þykir gagnrýni þeirra skynsamleg.
4
Fræðimennskunálgun gefur vissa mynd af viðfangsefnum í mannlífinu, en missir af öðru. Akademísk varfærni býr til blinda bletti. Þannig er pínu spaugilegt að sökkva sér í allskonar smáatriði um skipan þjóðfundar og kosningar til stjórnlagaþings, sem og aðkomu almennings að því ferli og áhrif þess á kosningar þegar mjóa sían er augljóslega fyrirkomulag löggildingar stjórnarskrárbreytinga, sem einn ritgerðarskrifari nefnir í framhjáhlaupi.
5
Fræðin taka stundum völdin af heilbrigðri skynsemi, svona utanfrá séð. þannig er mikið lagt upp úr því í fleiri en einni grein að aðferðin við val Þjóðfundarfulltrúa hafi verið gölluð, uppfylli ekki ströngustu skilyrði um slembival. Erfitt er að sjá að í raunheimum hefði verið hægt að verða við þeim kröfum, né heldur hverju það hefði breytt.
6
Ég er með BA-próf í heimspeki. Sú (hálf)menntun gerir mér nánast ómögulegt að kyngja notkun orðsins „þekkingarfræðilegur“ í þessum greinum, sem kemur víða fyrir. Þekkingarfræði er í sinni einföldustu mynd svar við spurningu Kants: Hvað get ég vitað? Sama hvað ég velti vöngum, ég sé ekki að orðið eigi neitt erindi í setningar eins og:
„Það er áhugaverður þekkingarfræðilegur eiginleiki þessara atkvæðagreiðslna að hér var ekki einungis um mat að ræða (Ætti ríkissjóður Íslands að ganga í ábyrgð fyrir innistæðunum?) heldur einnig lagalegt álitaefni (Ber ríkissjóði að ganga í ábyrgð fyrir innistæðunum?)“
Er orðinu „þekkingarfræðilegur“ ekki einfaldlega ofaukið? Maður spyr sig, en getur ekki vitað.
7
Almennt er bókin alveg sæmilega læsileg óinnvígðum, eins og gera verður kröfu um. Þar verður að hrósa sérstaklega þýðandanum Guðrúnu Baldvinu Sævarsdóttur. Þetta er auðvitað svolítið þyrrkingslegt, en alls ekki óskiljanlegt eða tiltakanlega tyrfið. Sérfræðihugtök og orð sem notuð eru í sérfræðitilgangi eru oftast ágætlega útskýrð í bókinni og má vel klappa ritstjóra rafrænt á bakið fyrir að hafa gætt þess.
Og reyndar bara almennt fyrir að hafa komið út þessari merkilegu og mikilvægu bók með nýjum vinklum á brunamál nýliðinnar fortíðar.