Kjarninn miðlar ehf., Keldan og Arion banki hafa tekið höndum saman og ætla að fjalla um margvíslegar hliðar frumkvöðla- og nýsköpunarstarfs í tengslum við Start Up Reykjavík viðskiptahraðalinn (e. business accelerator), sem Arion banki hefur staðið síðan árið 2012 í samstarfi við Klak Innovit.
Kjarninn hefur unnið myndbönd um margar hliðar Start Up Reykjavík, íslenska frumkvöðla og margvíslegt nýsköpunarstarf fyrirtækja hér á landi. Myndböndin verða sýnd samhliða útgáfu Kjarnans á fimmtudögum næsta hálfa árið. Í myndböndunum eru til umfjöllunar öll helstu viðfangsefni frumkvöðlastarfsins, ósigrar og sigrar, erfiðleikar og tækifæri, fífldirfska og hugrekki.
[video width="640" height="360" mp4="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/04/plainvanilla.mp4"][/video]
Í fyrsta myndbandinu er hús tekið á leikjafyrirtækinu Plain Vanilla sem hefur vaxið gríðarlega hratt eftir að það sendi frá sér spurningaleikinn Quiz Up sem nú er með meira en sextán milljónir notenda um allan heim og er að umbreytast í samfélagsmiðil. Erlendir fjárfestar hafa lagt fyrirtækinu til meira en fjóra milljarða króna frá því að Quiz Up App-ið var gefið út í nóvember í fyrra. Á hálfu ári hefur starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt og eru þeir ríflega 50 talsins. Fyrirtækið flutti nýlega í nýjar þúsund fermetra höfuðstöðvar að Laugavegi 77. Þorsteinn Friðriksson er forstjóri fyrirtækisins og stofnandi þess. Hann segir það hafa verið dýrmæta reynslu að hafa gert mistök í upphafi og framleitt vöru sem markaðir tóku ekki nægilega vel. Þá segir hann Ísland vera að mörgu leyti frábæran stað til að stofna fyrirtæki. Hér sé mikill mannauður og vel menntað ungt fólk sem búi yfir miklum hæfileikum.
Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunarmála hjá Arion banka, segir að frumkvöðlar fái dýrmæta reynslu í gegnum Startup Reykjavík. „Við leitumst stöðugt við að skjóta fleiri stoðum undir verðmætasköpun hér á landi og stuðla að samvinnu í þeim efnum. Við hjá Arion banka stöndum að Startup Reykjavík og Startup Engergy Reykjavík verkefnunum í samstarfi við Innovit og Klak og fleiri aðila. Eitt það mikilvægasta við Startup Reykjavík verkefnin er að þar fá frumkvöðlar ekki bara aðgengi að fjármagni og vinnuaðstöðu heldur einnig aðgang að dýrmætri reynslu annarra frumkvöðla. Þar leiðum við saman reynslumikla einstaklinga sem hafa náð árangri í sínum verkefnum og þá sem eru að stíga fyrstu skrefin. Samstarf okkar við Kjarnann og Kelduna er liður í þessari þekkingarmiðlun. Við viljum miðla sögu þeirra sem hafa náð góðum árangri, miðla þeirra þekkingu og reynslu þannig að aðrir geti nýtt sér til góðra verka.“
Thor Thors, framkvæmdastjóri Keldunnar, segir ánægjulegt að efla Kelduna með umfjöllunum um nýsköpun af ýmsu tagi og á ýmsum stigum. „Það er okkur ánægjulegt að bæta við myndböndum á Kelduna. Myndböndin, sem munu birtast í Kjarnanum og á Keldunni, munu sýna fólki hvað það er sem frumkvöðlar og rekstraraðilar eru að glíma við. Sem er í senn skemmtilegt og krefjandi. Það eru fjölmargar áhugaverðar sögur úr íslensku sprota- og atvinnulífi. Vonandi náum við að koma mörgum þeirra á framfæri.“