Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Í fyrstu grein sinni tekur hann fyrir bók Margrétar Tryggvadóttur, Útistöður.
Útistöður
Höfundur: Margrét Tryggvadóttir
Hansen & synir
Ein verðlaun getur Margrét Tryggvadóttir innheimt strax fyrir bókina sína. „Útistöður“ er besti bókartitill flóðsins og ársins. Frábærlega lýsandi og margslunginn. Vel gert.
Vel gert líka að hafa ákveðið að skrifa þessa bók, að segja sögu eins mikilvægasta breytingaraflsins sem upplausnin eftir hrun gat af sér. Því mikilvægi Borgarahreyfingarinnar/hreyfingarinnar er áþreifanlegt þó seint verði þetta kölluð sigurganga nema rétt í blábyrjun þegar kosningarnar 2009 skiluðu henni fjórum þingmönnum.
Með fullri virðingu fyrir hinum aðskiljanlegustu montbókum og varnarritum gamalla pólitíkusa og annarra „gerenda“ frá veltiárum og hruni þá er þetta bókin með tíðindunum og úrvinnsluefninu fyrir sagnfræðingana.
Margrét skrifar lipran og læsilegan texta. Sem er eins gott því þetta er geysilöng bók (530 síður). Of löng finnst mér. Næsta yfirferð hefði örugglega skerpt bókina, stytt og bætt talsvert. Það sýnist örugglega sitt hverjum um hvað hefði mátt missa sín og hvað ætti að jafnvel að fá dýpri meðferð.
Fyrir utan að rekja sína upplifunar- og reynslusögu af hinu stormasama þingi 2009–2013 og kosningabaráttunnni þá fer Margrét yfir öll stórmál þingsins, gang þeirra, ógöngurnar sem flest þeirra rötuðu í og aðkomu þeirra fjórmenninga að þeim. Það er raunaleg lesning, en of margt af því bætir litlu við það sem enn situr í höfði lesandans af fréttaflutningi og „umræðunni“. Með því að þrengja valið og dýpka umræðuna hefði að mínu mati fengist betri bók. Kaflinn um stjórnarskrármálið er kannski merkastur þeirra. Og þá síður raunalegastur.
Fyrir utan raunasöguna um Landsdómsklúðrið reyndar. Merkileg og trúverðug þykir mér sú sýn höfundar að bræðin yfir niðurstöðunni í því hafi verið eldsneytið í fordæmalausa hegðun hluta stjórnarandstöðunnar á síðari hluta kjörtímabilsins. Reyndar er Margrét álíka stolt af þætti Hreyfingarfólks í Icesave-málþófinu og hneyksluð á síðara þófi. Enda hefur hún svo skýra sýn á það mál að hún hirðir ekki einu sinni um að útlista eða rökstyðja skoðun sína á því.
Það sama má segja um skuldamál heimilanna og verðtrygginguna, sem vitaskuld fá talsvert rými í bókinni, en sýn höfundar á þau er samt aldrei sett fram á sannfærandi átt – aftur fær lesandinn á tilfinninguna að Margréti finnist skoðanir sínar svo augljósar og réttar að það taki því ekki að lýsa þeim.
Annað sem ég hefði viljað fá meira um er inntak innanflokksátaka Borgarahreyfingarinnar. Miklu plássi og endurteknu er varið í að tala um hversu fáfengilegar og hatrammar þær urðu, og orsakirnar greindar vel og skynsamlega. En skýrari útlistun á hugmyndagrunninum og um hvað var deilt hefði verið gott að fá, þó ljóst virðist vera að aðalorsökin fólst í persónum, skorti á hefðum, ferlum og formum og hraðanum sem allt gerist á þessi eftirhrunsár. Og óþolinmæði ef hraðinn er ekki nægur.
Já og einu hefði þurft að bæta við. Nafna- og atriðisorðaskrá er alger nauðsyn í bók af þessu tagi og þessum „þyngdarflokki“, og ekki skrifa t.d. „mennta- og menningarmálaráðherra“ í rammagreinum án þess að tilgreina um hvern er verið að tala (bls. 421) nema bókinni sé ekki ætlað langlífi.
Útistöður er læsilegt og efnismikið yfirlit yfir merkilega tíma, skrifað frá sjónarhóli sem mjög mikilvægt er að hafa útsýni frá. Hefði grætt á grimmari ritstjórn við að velja, hafna og dýpka.
Texti Útistaðna er brotinn upp af rammagreinum af ýmsu tagi. Þar á meðal eru stuttar sögur og myndir af samverkamönnum og öðrum sem verða á vegi Margrétar. Verður ekki ein skopsaga úr þinginu að fljóta með hér:
„Ég stend í hliðarherbergi við þingsalinn og er að leita að skriffærum þegar Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Vinstri grænna, kemur aðvífandi. „Mikið er þetta fallegt hálsmen!“ segir Jón og bendir á stórt hálsmen sem ég hafði keypt á útimarkaði á afmælisdaginn minn. „Takk,“ segi ég, „ég keypti það í Brussel.“ Skelfingarsvipur færist yfir andlitið á Jóni sem segir: „Æ,æ,“ snýst á hæli og gengur á brott.