Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason vinnur nú að heimildarmynd um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Vinna við myndina hefur staðið yfir frá því í sumar og ætlar Sölvi að fylgja liðinu í gegnum undankeppni Evrópumótsins, sem nú stendur yfir.
Sagan af landsliðinu hefur, vægt til orða tekið, snúist upp í enn meira ævintýri en upphaflega mátti ætla eftir að liðið sigraði í þremur fyrstu leikjum sínum í riðlinum. Nú síðast voru Hollendingar, sem lentu í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í sumar, lagðir sannfærandi á Laugardalsvelli. Ísland situr nú á toppi síns riðils með níu stig, átta mörk skoruð og ekkert fengið á sig.
Sölvi hefur, vegna vinnslu myndarinnar, fengið betra aðgengi að landsliðinu en almennt þekkist. Hann var til að mynda staddur í klefa liðsins eftir sigurinn á Hollandi á mánudag og fangaði fagnaðarlæti liðsins. Myndband af því má sjá hér að neðan.
[video width="400" height="224" mp4="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/10/landslid.mp4"][/video]