Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Höfundur: Jennifer Clement
Beðið fyrir brottnumdum
Þýðandi: Ingunn Snædal
Útgefandi: Bjartur
„Nú þurfum við að gera þig ljóta, sagði mamma. Hún flautaði. Hún stóð svo nálægt að munnvatn spýttist á hálsinn á mér með flautinu. Ég fann bjórlykt. Ég fylgdist með því í speglinum þegar hún dró svartar kolaslóðir á andlit mitt. Þetta er ömurlegt líf, hvíslaði hún.“
Öðru hverju berast okkur fréttir af óöld í Mexíkó. Endalausum hjaðningavígum og lögleysu sem sækir eldsneyti í þá ótrúlegu auðsuppsprettu sem fíkniefnasmygl yfir norðurlandamærin hefur reynst, þrátt fyrir hið endalausa „stríð gegn fíkniefnum“. Tölfræði um ástandið gerir það t.d. að minnsta kosti álíka mannskætt og kostnaðarsamt og mörg þau átök sem krefjast, og fá, fulla athygli og misgagnleg afskipti Vesturveldanna.
Á meðan fæðast vansköpuð börn í fátækum sveitum kynslóð eftir kynslóð vegna eiturs sem á að úða yfir valmúaakrana, en endar á íbúunum samkvæmt samkomulagi úðaranna og fíknibarónanna.
Og stúlkubörn sem eru svo óheppin að fæðast falleg eru falin í holum og/eða snoðuð og tanndregin svo þau freisti ekki glæponanna og fylli flokk hinna brottnumdu.
Um þetta brotna og furðulega samfélag skrifar ameríski rithöfundurinn Jennifer Clement þessa áhrifaríku bók um stúlkuna Ladydi, skapbráða og drykkfellda móður hennar, fólkið umhverfis þær og samfélagið umhverfis þau öll. Sögu sem er kannski ekkert bókmenntalegt þrekvirki en er fyrst og fremst ætlað að opinbera hörmulegar hliðarafleiðingar nútímageggjunarinnar.
Þetta er kvennaheimur, gerður nánast óbyggilegur vegna græðgi og siðleysi karlanna sem stýra undirheimunum og vesalmennsku hinna, sem undantekningalaust eru stungnir af norðurfyrir landamærin og hættir að senda peninga til framfærslu barna sinna. Siðferðisskurnin er ekki alltaf mjög þykk og öðru hverju vellur bræðin og örvæntingin fram, en merkilega oft er samhjálparhvötin nægilega sterk hjá þessum konum, ekki síst í kvennafangelsinu sem þó er lýst sem hinum versta stað.
Bókin hefur verið sögð sverja sig í ætt við aðrar “heimildagrunnaðar” skáldsögur, In Cold Blood eftir Truman Capote, t.d. Það er ekki út í hött. Þrúgur reiðinnar kemur líka upp í hugann. Ekki fyrir það að Beðið fyrir brottnumdum jafnist á við þessar af stílsnilld eða stærð. Það gerir hún ekki. En drifkrafturinn, erindið, er af sama toga: Að bera vitni um eitthvað sem hefur gerst, er að gerast, má ekki gerast.
Þetta er göfug hefð og góð bók. Hún kemur út í hinum metnaðarfulla Neon-flokki Bjarts, sem er góður vettvangur til að kynna sér nýjar erlendar bókmenntir sem svo auðveldlega gætu farið framhjá manni. Ég veit heldur enga meinbugi á þýðingu Ingunnar Snædal.