Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.

Spegill spegill herm þú mér

clement-jennifer.jpg
Auglýsing

Þor­geir Tryggva­son, Toggi, mun sinna bókaum­fjöllun fyrir Kjarn­ann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dag­ana. Jóla­bóka­flóðið nær svo hámarki í des­em­ber.

Höf­undur: Jenni­fer Clem­ent

Beðið fyrir brottnumdum

Auglýsing

Þýð­andi: Ing­unn Snæ­dal

Útgef­andi: Bjartur

Nú þurfum við að gera þig ljóta, sagði mamma. Hún flaut­aði. Hún stóð svo nálægt að munn­vatn spýtt­ist á háls­inn á mér með flaut­inu. Ég fann bjór­lykt. Ég fylgd­ist með því í spegl­inum þegar hún dró svartar kola­slóðir á and­lit mitt. Þetta er ömur­legt líf, hvísl­aði hún.

BedidFyrir_HighRes (1)Öðru hverju ber­ast okkur fréttir af óöld í Mexíkó. Enda­lausum hjaðn­inga­vígum og lög­leysu sem sækir elds­neyti í þá ótrú­legu auðs­upp­sprettu sem fíkni­efna­smygl yfir norð­ur­landa­mærin hefur reyn­st, þrátt fyrir hið enda­lausa „stríð gegn fíkni­efn­um“. Töl­fræði um ástandið gerir það t.d. að minnsta kosti álíka mann­skætt og kostn­að­ar­samt og mörg þau átök sem krefjast, og fá, fulla athygli og mis­gagn­leg afskipti Vest­ur­veld­anna.

Á meðan fæð­ast van­sköpuð börn í fátækum sveitum kyn­slóð eftir kyn­slóð vegna eit­urs sem á að úða yfir val­múa­akrana, en endar á íbú­unum sam­kvæmt sam­komu­lagi úðar­anna og fíkni­bar­ón­anna.

Og stúlku­börn sem eru svo óheppin að fæð­ast fal­leg eru falin í holum og/eða snoðuð og tann­dregin svo þau freisti ekki glæpon­anna og fylli flokk hinna brottnumdu.

Um þetta brotna og furðu­lega sam­fé­lag skrifar amer­íski rit­höf­und­ur­inn Jenni­fer Clem­ent þessa áhrifa­ríku bók um stúlk­una Ladydi, skap­bráða og drykk­fellda móður henn­ar, fólkið umhverfis þær og sam­fé­lagið umhverfis þau öll. Sögu sem er kannski ekk­ert bók­mennta­legt þrek­virki en er fyrst og fremst ætlað að opin­bera hörmu­legar hlið­ar­afleið­ingar nútíma­geggj­un­ar­inn­ar.

Þetta er kvenna­heim­ur, gerður nán­ast óbyggi­legur vegna græðgi og sið­leysi karl­anna sem stýra und­ir­heimunum og ves­al­mennsku hinna, sem und­an­tekn­inga­laust eru stungnir af norð­ur­fyrir landa­mærin og hættir að senda pen­inga til fram­færslu barna sinna. Sið­ferð­is­skurnin er ekki alltaf mjög þykk og öðru hverju vellur bræðin og örvænt­ingin fram, en merki­lega oft er sam­hjálp­ar­hvötin nægi­lega sterk hjá þessum kon­um, ekki síst í kvenna­fang­els­inu sem þó er lýst sem hinum versta stað.

Bókin hefur verið sögð sverja sig í ætt við aðrar “heim­il­da­grunn­að­ar” skáld­sög­ur, In Cold Blood eftir Truman Capote, t.d. Það er ekki út í hött. Þrúgur reið­innar kemur líka upp í hug­ann. Ekki fyrir það að Beðið fyrir brottnumdum jafn­ist á við þessar af stíl­snilld eða stærð. Það gerir hún ekki. En drif­kraft­ur­inn, erind­ið, er af sama toga: Að bera vitni um eitt­hvað sem hefur ger­st, er að ger­ast, má ekki ger­ast.

Þetta er göfug hefð og góð bók. Hún kemur út í hinum metn­að­ar­fulla Neon-­flokki Bjarts, sem er góður vett­vangur til að kynna sér nýjar erlendar bók­menntir sem svo auð­veld­lega gætu farið fram­hjá manni. Ég veit heldur enga mein­bugi á þýð­ingu Ing­unnar Snæ­dal.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiKjarnafæði
None