HM í fótbolta hefst í Brasilíu 12. júní. Í gegnum tíðina hafa bestu knattspyrnumenn heimsins sýnt listir sínar á þessu stærsta sviði fótboltans sem aðeins er opið á fjögurra ára fresti. Það geta ekki allir staðið uppi sem sigurvegarar. Kjarninn fór yfir magnaða sögu HM og valdi tíu lið sem ekki tókst að verða heimsmeistari en höfðu leikmenn og snilli til þess að fara alla leið. Ef heppnin hefði verið með þeim, og kannski örlítið meira til. Mörg eru tilkölluð en fá útvalin. Stundum virtist nánast formsatriði að verða meistari en allt kom fyrir ekki.
10. sæti
Argentínumenn eru ávallt eitt af sigurstranglegustu liðunum fyrir fram og 2006 liðið þótti einstaklega vel mannað. Liðið var byggt í kringum Juan Román Riquelme, miðjumann Villarreal, sem stýrði sóknarleiknum eins og herforingi. Fyrir framan hann spiluðu Hernán Crespo og Javier Saviola og til vara ungstirnin Carlos Tevez og Lionel nokkur Messi. Valencia-leikmaðurinn Roberto Ayala stýrði vörninni og einn besti leikmaður liðsins, Javier Mascherano, batt saman vörn og miðju. Þjálfarinn José Pekerman var með afbragðslið í höndunum sem hefði átt að fara miklu lengra en það gerði. Argentínumenn lentu í svokölluðum dauðariðli sem þeir áttu þó ekki í miklum erfiðleikum með að toppa. Helst ber að nefna 6-0 sigur á sterku varnarliði Serba. Eftir 2-1 sigur á Mexíkóum í 16 liða úrslitum var síðan komið að gestgjöfunum Þjóðverjum. Argentínumenn yfirspiluðu heimamenn og leiddu leikinn allt þar til að Pekerman tók eina óskiljanlegustu ákvörðun HM-sögunnar, þ.e. hann tók Riquelme og Crespo af velli og bakkaði með liðið. Þjóðverjar jöfnuðu í kjölfarið og unnu síðan í vítaspyrnukeppni. Svo sárir og reiðir voru Argentínumenn að slagsmál brutust út eftir leikinn. Jafnvel óskiljanlegri hlutur gerðist svo eftir mótið þegar tveir af efnilegustu leikmönnum heims, Mascherano og Tevez, skrifuðu undir samning hjá West Ham United.
Sjá má glæsilegt mark Argentínu gegnum Serbum á HM 2006 hér.
Þetta er aðeins hluti umfjöllunarinnar. Lestu meira um málið í Kjarnanum.