Bandaríski tónlistarmaðurinn og hljóðupptökumaðurinn Steve Albini er mörgum íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnur enda hefur hann komið að gerð margra merkustu hljómplatna síðustu þriggja áratuga. Steve spilar á tónlistarhátíðinni All Tomorrow‘s Parties ásamt hljómsveit sinni Shellac og er það í annað skiptið sem hún spilar á hljómleikum hér á landi. Ásamt Steve skipa sveitina bassaleikarinn og söngvarinn Bob Weston og trymbillinn Todd Trainer.
All Tomorrow‘s Parties verður haldin í annað sinn á fyrrverandi varnarsvæði NATO við Ásbrú á Reykjanesi í næstu viku. Hátíðin á Ásbrú er hluti af stærri heild sem nefnist ATP‘s Iceland Takeover og hefst á tónleikum Neil Young & Crazy Horse í Laugardalshöll næstkomandi mánudag. Einnig verða tvennir tónleikar haldnir í Hljómahöllinni sem er nýtt fjölnota menningarhús í Reykjanesbæ þriðjudaginn 8. júlí og miðvikudaginn 9. júlí. Þar koma fram bresku hljómsveitirnar Fuck Buttons, Eaux og Hebronix ásamt íslenska tónlistarmanninum Ólafi Arnalds. Meðal þeirra sem koma fram á Ásbrú eru Portishead, Interpol, Mogwai, Liars, Ben Frost, Low, Kurt Vile & The Violators, Swans, Sóley, HAM og hin goðsagnakennda hljómsveit Slowdive sem nýverið kom aftur saman eftir langt hlé.
Á hátíðinni verður einnig boðið upp á spennandi kvikmyndadagskrá sniðna eftir forskrift Portishead, plötusnúða og margt fleira.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/1[/embed]
The Ramones fékk hann til að hlusta á tónlist
Steve Albini fæddist í Kaliforníu árið 1962 og bjó á uppvaxtarárum sínum í Missoula í Montana-fylki. Í byrjun níunda áratugarins fluttist hann til Illinois til þess að nema fjölmiðlafræði við Northwestern University. Steve hefur verið viðloðandi tónlist stærstan hluta ævi sinnar og hefur alla tíð haldið sig á jaðrinum og fyrir utan meginstrauminn. Hann er einstaklega opinskár, hefur aldrei farið leynt með skoðanir sínar á tónlistariðnaðinum og liggja eftir hann ófáar greinar um mismikið ágæti hans. Ein þekktasta grein hans heitir „The Problem With Music“ og fjallar m.a. um hversu auðveldlega tónlistarbransinn getur murkað líf og sköpunargleði úr ungum og upprennandi hljómsveitum sem eru að reyna að hasla sér völl í hinum stóra tónlistarheimi.
Ungur að aldri smitaðist Steve af tónlistaráhuga eldri systkina sinna. Þegar hann heyrði fyrst í The Ramones fór hann sjálfur að hlusta á tónlist og pæla í henni. Áhugi hans á pönktónlist og öðrum skyldum tónlistarstefnum jókst og höfðu hljómsveitir á borð við Pere Ubu, Throbbing Gristle, Kraftwerk, The Birthday Party og Chrome mótandi áhrif á hann til frambúðar. Hann spilaði í nokkrum skammlífum hljómsveitum í Montana og Chicago en stofnaði svo sína fyrstu alvöru hljómsveit, hina óhefluðu Big Black, árið 1982. Big Black var hluti af senu sem var glettilega nefnd „pigfuck“ og gat af sér sveitir á borð við Sonic Youth, Pussy Galore, Butthole Surfers og Royal Trux. Tónlist Big Black var ómstríð og skerandi og voru umfjöllunarefnin í lögum hennar oftar en ekki samin frá sjónarhóli þeirra sem bjuggu í dapurlegum krummaskuðum Miðvesturríkjanna og sögðust þeir ávallt semja um skuggahliðar bandarísks mannlífs. Hljómsveitin sendi frá sér nokkrar afbragðs breiðskífur á árunum 1982 til 1987 en þar bera af Atomizer og Songs About Fucking og þykja enn í dag með mikilvægari neðanjarðarhljómplötum níunda áratugarins. Big Black lagði upp laupana árið 1987 þrátt fyrir að njóta velgengni beggja vegna Atlantsála og varð mörgum innblástur.
Leiður yfir því að Rapeman lagði upp laupana
Sama ár og Big Black hætti stofnaði Steve hina umdeildu en frábæru hljómsveit Rapeman ásamt fyrrverandi meðlimum Scratch Acid. Nafn hljómsveitarinnar var fengið að láni frá japanskri teiknimyndabók sem var í miklu uppáhaldi hjá meðlimum Rapeman. Þeir störfuðu stutt og var sveitinni meira að segja mótmælt duglega af hópi kvenréttindabaráttuhópa sem var mikið í nöp við nafngift hennar. Rapeman gaf út eina þröngskífu, tvær smáskífur og hina óviðjafnanlegu breiðskífu Two Nuns and a Pack Mule árið 1988. Hljómsveitin hætti stuttu eftir útgáfu skífunnar.
Steve var að eigin sögn mjög leiður yfir því að Rapeman lagði upp laupana og kom ekkert nálægt því að semja tónlist í nokkur ár á eftir. Hann fór á fullt í að taka upp annað tónlistarfólk og hefur að eigin sögn komið að gerð rúmlega fimmtán hundruð hljómplatna. Snemma á ferlinum sem upptökumaður tók hann þann pól í hæðina að hann vildi ekki láta titla sig sem upptökustjóra þar sem hann vildi ekki ráða því hvernig þær hljómsveitir og tónlistarfólk sem hann vann með hljómuðu á plötum sínum. Það voru þau sem réðu hann til vinnu og borguðu honum laun fyrir vinnu sína og ætti hann þar af leiðandi ekki að segja þeim fyrir verkum eða hvernig plötur þeirra ættu að hljóma. Hans hlutverk væri einfaldlega það að fá það besta frá þeim í upptökuferlinu og veita þeim eins faglega þjónustu og kostur væri á.
Meðvitaðir um að vera ekki í leit að nýjum hlutum
Kjarninn setti sig í samband við Steve á dögunum og ræddi við hann um tónlistina, tónlistarbransann, íslenskt pönk og íslenska matseld.
Shellac hefur nú starfað í rúma tvo áratugi. Finnið þið ykkur enn knúna til þess að ögra hver öðrum sköpunarlega eftir allan þennan tíma?
Þegar við byrjuðum höfðum við nokkrar grunnhugmyndir sem við vildum kanna og við erum enn að kanna þær. Við erum mjög meðvitaðir um það að við séum ekki í leit að nýjum hlutum til þess að festa við mengið okkar. Við treystum hver öðrum og sköpunarhvöt hvors annars og erum sammála um að við séum ekki í stöðugri leit að nýjungum. Við erum eingöngu að halda áfram að skoða það sem við byrjuðum á fyrir tuttugu árum og komum okkur sjálfum á óvart reglulega.
Ég las nýlegt viðtal við þig í Quartz þar sem þú sagðir að streymisþjónustur á borð við Spotify og Pandora væru að leysa vandræðaganginn í tónlistarbransanum sem þú skrifaðir um í greininni „The Problem With Music“. Hvaða áhrif telur þú þessar þjónustur munu hafa á sjálfstætt starfandi plötufyrirtæki og tónlistarfólk til lengri tíma litið?
Það er pirrandi að hafa sagt eitthvað án þess að ígrunda það fyllilega og svo er það framsett og túlkað eins og það var gert í þessu viðtali. Það sem ég sagði var að internetið sem heild hefði leyst vandræðaganginn sem hefur verið viðloðandi tónlistarbransann og flest tónlistarfólk alla tíð. Þá meina ég að það hefur auðveldað tónlistarfólki til muna að koma tónlist sinni til fólksins sem vill hlusta. Ég hef nánast enga skoðun á Spotify þar sem ég nota hana ekki og mér finnst viðmót Pandora frekar óþolandi þar sem hún notar auglýsingar og áskriftir til þess að halda sjálfri sér á floti. Ef ég er eitthvað að dunda mér heima eða að spila póker eru þessar þjónustur skárri valkostur en útvarpið. Til lengri tíma held ég að þessar þjónustur munu aldrei skapa miklar tekjur fyrir minni útgáfur og hljómsveitir, þar sem stærstur hluti fólks notar ókeypis áskriftarleiðir sem boðið er upp á. Það eru einfaldlega ekki miklir peningar í því sem er ókeypis. Ég held að þau sem eru að kvarta undan of lágum höfundarlaunum séu að nota rangar reikniaðferðir, en það þýðir þó ekki að streymisþjónusturnar séu dýrlingar. Mér er nokk sama um þessar þjónustur og þær eru ekki stærsta vandamálið sem tónlistarfólk stendur frammi fyrir í dag.
Pólitískar áhyggjur af því hvert peningarnir fara
Hvað finnst þér um tónlistarveituna hans Neil Young, Pono Music? Heldurðu að hún sé eingöngu fyrir hljómburðarunnendur og hljóðnörda eða heldurðu að stærri hópur hlustenda muni aðhyllast þessa gerð tónlistarveita?
Hann er að reyna að gera hljómgæði að forgangsatriði með þessari þjónustu sinni og er það í sjálfu sér mjög gott mál. Pólitískt séð hef ég frekar áhyggjur af því hvert peningarnir fara því þegar á öllu er á botninn hvolft hefur það alltaf áhrif á þau sem semja tónlistina.
Síðast þegar Shellac spilaði á Íslandi man ég að þú varst ágætlega kunnugur íslensku síðpönki og sagðist þekkja hljómsveitir á borð við KUKL, Þey, Purrk Pillnikk og HAM. Einnig buðuð þið í Shellac Botnleðju að spila á All Tomorrow‘s Parties í Englandi árið 2004, sællar minningar. Hefurðu heyrt nýrri íslenska tónlist sem hefur náð að heilla þig?
Ég verð að viðurkenna að ég hef verið svolítið úr sambandi við íslensku senuna. Þegar fyrsta pönktímabilið reið yfir voru hljómsveitir svo fáar að maður þekkti flestar hljómsveitir, alveg sama hvað þær komu.
Gefurðu þér einhvern tíma í að hlusta á nýja tónlist þegar þú ert ekki í hljóðverinu þínu að taka upp? Velur þú heldur að hlusta á þögnina og hvíla eyrun utan vinnunnar?
Mér dettur í hug gamall brandari sem oft hefur gengið á milli þeirra sem starfa við að taka upp tónlist: „Veistu hvað vændiskonan vill ekki gera á frívöktunum sínum?“ Ég skal alveg viðurkenna það að þegar maður vinnur við að hlusta og taka upp tónlist alla daga fyllist maður eins konar tónlistarþreytu. Ég reyni samt að kíkja á tónleika einu sinni til tvisvar í mánuði ef ég hef færi á, en flestallar uppgötvanir á tónlist geri ég í gegnum hljóðverið mitt.
Dead Rider er ómótstæðileg og töfrandi
Eru einhverjar hljómsveitir sem þú fellur í stafi yfir þessa stundina og vilt deila með lesendum Kjarnans?
Mér finnst hljómsveitin Dead Rider frá Chicago einfaldlega ómótstæðileg og töfrandi. Ég er einnig mjög hrifinn af STNNNG frá Minneapolis, franska hurdy-gurdy leikaranum Romain Baudoin sem er virkilega svalur og Screaming Females frá New Jersey er alveg frábær.
Ertu sammála eða ósammála því að tónlistarsenur þurfi tónlistarelskandi hugsjónafólk á borð við Corey Rusk, eiganda Touch and Go Records, þau Megan Jasper og Jonathan Poneman hjá Sub Pop, Caleb Braaten, stofnanda Sacred Bones, Barry Hogan, skipuleggjanda ATP, og Ian MacKaye og Jeff Nelson sem stofnuðu Dischord og Minor Threat? Heldurðu að tónlistarsenur væru fátækari án fólks eins og þeirra?
Mér finnst að það ætti ekki að persónugera senur eins og oft er gert og mér finnst það líka ekkert ósvipað því hvernig stjörnur meginstraumsins eru hylltar trekk í trekk. Öll tónlistarsamfélög innihalda fólk sem er mikilvægt þannig að þau þrífist vel og dafni en enginn einstaklingur er svo mikilvægur að hann yfirgnæfi sameiginlegan styrk fjöldans sem gerir tónlistarsenur lifandi. Ég aðhyllist þá sýn að það ætti að hylla senu fulla af fólki með sameiginleg áhugamál heldur en að hylla nokkra einstaklinga.
Shellac hefur gefið út nokkrar skífur sem aðeins örfáir hafa eignast og nefni ég þá The Futurist og Live in Tokyo sem dæmi. Hafið þið velt því fyrir ykkur að gera þessar plötur aðgengilegar fleirum?
Við höfum talað um það nokkrum sinnum en þessar plötur voru gefnar út af sérstökum ástæðum og við erum enn á því að þær tilheyri enn þeim ástæðum.
Má ég spyrja þig út í væntanlega plötu ykkar, Dude, Incredible? Er hún lík eða ólík fyrri verkum ykkar?
Hún er eiginlega ekkert ólík því sem við höfum áður gert, allavega ekki af ásettu ráði. Við erum enn að vinna með þær grunnhugmyndir sem við lögðum af stað með í byrjun. Það eru eflaust einhver ný smáatriði sem fólk sem hefur hlustað á okkur áður tekur eftir en kærir sig ekkert endilega um að heyra.
Myndi vilja vita meira um íslenska matargerð
Margt af samferðafólki þínu í tónlist í gegnum árin hefur verið að taka upp þráðinn að nýju á síðustu árum. Nýlega sá ég á netinu endurkomutónleika Nirvana þar sem eftirlifandi meðlimir spiluðu undir söng frábærra söngkvenna á borð við Kim Gordon úr Sonic Youth, Annie Clark úr St. Vincent, Lorde og Joan Jett. Hvað finnst þér um svona endurkomur og sérðu Rapeman einhvern tímann fyrir þér spila tónleika í framtíðinni?
Mér finnst það mjög ólíklegt að við myndum gera það. Í eðlisfari mínu hvílir ekki mikil fortíðarþrá og mér finnst Rapeman ekki hafa skilið eftir sig neina lausa enda. Mér finnst ekki mikil glóra í því að reyna að endurskapa eitthvað sem við gerðum fyrir rúmlega tuttugu árum.
Ég hef einstaka sinnum ratað inn á matarbloggið þitt og hef séð áhugaverða hluti sem ég hef ekki séð víða. Sérðu þig í anda kynna þér íslenska matseld og íslenskt hráefni á meðan þú dvelur hér?
Ég myndi gjarnan vilja vita meira um íslenska matargerð. Ég er kunnugur reyktu hangikjöti, kæstum hákarli, sviðahausum, sjófugli og öðru í þeim dúr en það er margt sem segir mér að íslensk matargerð sé fjölbreyttari en það.
Viðtalið við Steve Albini birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.