Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Afríka - ást við aðra sýn
Höfundur: Stefán Jón Hafstein
Útgefandi: Ísland ehf.
Ætti kannski að skikka menn sem fara erinda á borð við þau sem Stefán Jón Hafstein fór til Afríku að gera grein fyrir sér með einhverjum svona hætti í máli og myndum?
Kannski ekki, það eru svo sannarlega ekki allir jafn ritfærir, jafn flinkir með myndavélina eða eins snjallir að skafa utan af og miðla kjarna málsins. Sennilega yrðum við fljótt áhugalaus og pirruð á skýrslugerðinni.
Það er mjög auðvelt að gera mann pirraðan og áhugalausan þegar lýst er yfirþyrmandi ástandi í fjarlægum heimshlutum. Fylla mann ófrjórri sektarkennd og/eða bræði yfir vonsku heimsins, heimsku kapítalismans og afskiptaleysi Guðs. Öllu snúnara er að gefa tilfinningu fyrir raunsærri sýn sem þó neitar að gefast upp án þess að kalla beinlínis eftir byltingu.
Það tekst Stefáni. Afríka – ást við aðra sýn er stundum sjokkerandi, aldrei tilfinningaklámfengin en alltaf vekjandi.
Samt: Afríka? Stefán sýnir á skýran hátt og leggur útaf því hvernig hin illræmda Mercator-vörpun hefur blekkt okkur um stærð álfunnar (hún er stærri en hún virðist á kortum og þið haldið), en á sama tíma smættar hann hana niður með því að byrja of margar setningar á „Afríka er“, með því að alhæfa um álfuna alla út frá viðamikilli reynslu sinni í Namibíu og Malaví og ferðalögum annað. En Túnis og Tansanía, Tsjad og Svasíland, Gana og Sómalía. Af hverju ekki bara að sýna hinni risastóru álfu þá virðingu að nota nafn hennar aðeins sparlegar?
Þegar Stefán beinir sjónum sínum að tilteknum stöðum, staðbundnum aðstæðum, vandamálum og möguleikum, er hann bestur.
Einn besti kaflinn er sá sem útlistar stöðu hinna sárafátæku og möguleika þeirra til að brjótast út úr stöðu sinni Sem eru vægast sagt þröngir, og Stefáni tekst mjög vel að skýra hvernig stigsmunur getur orðið eðlismunur á jöðrum velmegunarkvarðans. Eins eru endurteknar hugleiðingar um grundvallarmikilvægi menntunar og undir hvað högg hún á að sækja í hefðbundnum hungurmarkasamfélögum frábærir textar. Og þungbærir.
Stefán notar samanburð við Ísland óspart, ekki síst til að tengja tímasetningu sögulegra atburða við eitthvað sem við þekkjum. Þetta er oftast gagnlegt, kannski magnaðast þegar Stefán sviðsetur nýlendutímann og afleiðingar hans á Íslandi:
„Ímyndum okkur að Ísland hefði hlotið svipuð örlög í staðinn fyrir stjórnarskrá frá Dönum á síðari hluta nítjándu aldar. Bretar tekið Austurland, sett landstjóra, skipt út gömlu sýslumönnunum og hreppstjórunum og skipað nýja forréttindastétt. … Þjóðverjar hefðu tekið Suðurland, sent hingað þúsund bændur og látið taka bestu sveitirnar og býlin fyrir sjálfa sig en ýtt hinum hokrandi Íslendingum sem ekkert kunnu til verka út á Reykjanesskaga.“
Ritstjóri hefði hinsvegar átt að stoppa hann af í kaflanum um dýrin í Ethosa-friðlandinu og benda honum á líkingamálið þar væri alls ekki að vinna vinnuna sína.
Eins hefði hann átt að láta höfundinn skrifa myndatexta við hinar fjölmörgu og frábæru myndir sem prýða bókina. Mynd segir meira en þúsund orð (sem er rangt, reyndar) en vel skrifaður myndatexti hækkar gildi hennar um allan helming.
Þetta er fín bók. Fólk þarf að vera fjári vel upplýst til að verða ekki betra fólk af því að lesa og skoða þessa vel skrifuðu, vel hugsuðu, vel mynduðu og vel meintu skýrslu.
Gefðu Afríku. Hún er um framtíðina. Allir geta tekið krimmana á bókasafninu.