Í fyrrasumar fórum við unnusti minn til Kólumbíu. Umræddur unnusti er afskaplega afslöppuð týpa og í raun og sanni holdgervingur hins alíslenska „þetta-reddast“ hugsunarháttar, guð blessi hann. Yfir mig ástfangin, sönglandi hakuna matata, lagði ég því upp í ögn óskipulagt ferðalag til einkar hættulegs lands því skipulag skemmir flippið og lífið er best ef það bara gerist. Til að byrja með ferðuðumst við með innfæddum vinum og allt gekk vel. Nokkrar vikur inn í fríið ákváðum við að spreyta okkur upp á eigin spýtur og skoða Kólumbíu (nánar tiltekið Medellín, fyrrum fjórðu hættulegustu borg heims) alein. Og vegna þess að það er leiðinlegt og leim að bóka hostel fyrirfram og allt reddast á endanum enduðum við sveitt og sólbrunnin eitt kvöldið í einkar vafasömu hverfi, bankandi á járnrimlaðan glugga grátbiðjandi um gistingu. Risavaxinn tattúveraður maður (sem næsta dag fann mig á instagram og lækar núna flestar myndirnar mínar, líka af börnunum mínum og mömmu) aumkvaði sig yfir okkur og splæsti á okkur koju í herbergi fyrir átta þar sem franskur illa lyktandi bakpokaferðalangur reykti gras út um járnrimlana og óhljóðin að utan hrelldu mig til um það bil fjögur þar sem ég kúrði mig andstutt og skjálfandi í blettóttu lakinu.
Um morguninn þar sem við sátum ósofin og útúr tremmuð á næsta McDonalds stað á meðan borgarlöggan hirti upp lík næturinnar allt um kring horfði unnustinn á mig glaður og íslenskur í augunum og sagði: ,,Sko! Þetta reddaðist allt!” Grimmdarleg glápti ég til baka á hann og samþykkti bitur að jú, vissulega væri ég þakklát fyrir að státa enn af öllum líffærum mínum en að öðru leyti gæti þessi sólarhringur alls ekki flokkast sem gott redd. Ótal ámóta uppákomur (sumar hverjar sem innihéldu æsta pimpa í Bógóta og tjaldgistingu við hliðina á stærðar krókódíl) áttu sér síðan stað í þessu fríi sem trúlega myndi fremur flokkast sem Survivor þáttur en rómantískt getaway.
Það reddast nefnilega alls ekki allt. Þetta reddast er mesta lygi Íslandssögunnar. Flest reddast ekki, í það minnsta ekki af sjálfu sér. Ef það reddast er það vegna þess að einhver reddar því fyrir þig eða vegna þess að þú ert heppinn. Yfirleitt er líka um skítamix að ræða sem á endanum liðast í sundur fyrir augunum á þér. Þetta reddast þýðir þannig alls ekki að allt hafi farið á besta veg. Það þýðir að þú hafir lifað af.
Við sem þjóð státum okkur hins vegar af þessu reddi. Við útskýrum hugtakið stolt fyrir ringluðum túristum eins og um þjóðargersemi sé að ræða, einstakt æðruleysi og leið til að lifa af í erfiðum aðstæðum, dýrmætan eiginleika sem við höfum þróað með okkur andspænis eilífri útrýmingarógn með spúandi eldfjöll allt um kring. Volvokeyrandi jakkafataklæddi Íslendingur nútímans sem rétt svo kannast við harðneskju íslenskrar náttúru af hríminu á bílrúðunni sinni afsakar í þeim anda verðtryggðu lánin sín til fjörutíu ára, enda alinn upp af þjóð sem harðneitar að horfa lengra en eina vertíð fram í tímann. Hann sættir sig orðalaust við að þurfa alls ólíkt þegnum annarra þjóða að taka lán án þess að hafa hugmynd um hversu mikið hann muni á endanum borga og unir sér glaður í umferðarhnút á Hringbrautinni sem ætlað var að ramma inn borgina, hönnuð í séríslenskri nútvitund síns tíma. Brautin sú innrammar í dag fátt fleira en flugvöll og miðborgarnefnu yfirfulla af fólki í útivistargöllum með götukort fyrir vitum.
Við hendum upp nýjum hverfum á svipuðum hraða og tekur kanínur að fjölga sér, hugum lítt að skipulagsvinnu og hrúgum inn í landið túristum án þess að eiga fyrir þá löglegt gistipláss eða salernisaðstöðu en hrellum airbnb dónana og úthrópum fyrir að eyðileggja hipsterastemminguna í miðbænum. Þetta-reddast syndrómið reyna yfirvöld þó á sama tíma markvisst að rækta á ýmsan hátt, til að mynda með einstæðri löggjöf sem hvetur til kennitöluflakks því þetta reddast alltaf allt og aðrir taka skellinn. Við erum smá eins og trúgjarnir meðlimir einhvers heimsendakölts sem ekki finnst taka því að klæða sig á morgnana því armageddon er hvort eð er í nánd.
Ég hef næstkomandi mánudag kennslu í grunnskóla hér í borg eftir tveggja ára hlé. Að snúa til baka í kennslu í dag er smá eins og að ákveða skyndilega að snúa við í barnadeildinni í Ikea og labba til baka á móti straumnum, gegn örvunum. Það eru nefnilega allir að flýja skipið. Allir eru á leiðinni niður rúllustigann, spenntir fyrir góða stöffinu á neðri hæðinni en þú ætlar aftur í baðinnréttingarnar. Einbeitt arkarðu á móti straumnum og reynir að minna þig á að innréttingar séu mikilvægar, annars hafi pakkið á neðri hæðinni ekkert til að tylla gerviblómum sínum og skrautvösum á. Þetta-reddast stefna yfirvalda í menntamálum hefur nefnilega skilað sér í gríðarlegum starfsflótta kennara sem við látum í fáránlegu kæruleysi eins og sé bara næs merki um uppsveiflu efnahagslífsins.
Metnaðar-og skipulagsleysi borgarinnar í menntamálum má til að mynda merkja í þeirri staðreynd að í dag, á degi fjögur af fimm í undirbúningstímabili kennara fyrir nýtt skólaár eru nýir kennarar ekki komnir með aðgang að tölvukerfi skólanna og geta því ekki hafið undirbúning að neinu marki. Óásættanlegt með öllu en ekki svo ýkja óvænt. Að öllum líkindum redda kennarar sér þó fyrir horn, handskrifa áætlanir og skítamixa málin þannig að börnin ykkar geti mætt á mánudaginn. Það þýðir þó ekki að allt hafi farið á besta veg. Svona rugl er bara örlítið en afar einkennandi dæmi um starfsumhverfi kennara. Menntakerfið hefur árum saman verið vanrækt og fjársvelt langt umfram sársaukamörk en það er keyrt áfram af fáránlega öflugum mannauði, hugsjónarfólki sem er staðráðið í að redda alltaf öllu, keyrt áfram af fáséðum metnaði fyrir framtíð þjóðarinnar. Þessi mannauður er þó á hraðleið niður rúllustigann. Reddið því.