II
Fyrir rán, með því að hafa miðvikudaginn 25. maí 2016, við strætóskýli að Nýbýlavegi, á móts við Álfabrekku í Kópavogi, veist að B og hótað, með því að ota að honum kúbeini sem hann hafði í hendi og segja til hans „þú veist hvernig þetta er“, en í kjölfarið afhenti B honum úlpu sína, veski og Iphone 5c snjallsíma. (007-2016-30124)
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Íslendingar eru ekkert sérstakir, hvorki sérstaklega slæmir né sérstaklega góðir þótt þeir geti spilað ágætan fótbolta, þjálfað handboltalið, gert vinsæla tónlist, gengið út úr sjónvarpsviðtölum, sett bankakerfi á hausinn og hvaðeina sem ykkur dettur í hug. Aðrar þjóðir geta þetta allt líka og gera þetta oft.
En við höfum auðvitað einkennandi takta og á meðal þeirra er að gera sífellt ráð fyrir að allt reddist af sjálfu sér, eins og aðrir hafa farið vel yfir.
En jafnvel það er varla einstakt, heldur frekar einkenni á vestrænum velferðarsamfélögum þar sem innviðirnir eru þannig úr garði gerðir að hlutir hafa einmitt tilhneigingu til að reddast þótt látið sé reka á reiðanum, svona innan eðlilegra vikmarka. Með öðrum orðum: lífsbaráttan er víða harðari. Við höfum meira svigrúm fyrir kæruleysi og hefnist síður fyrir það hér en öðrum sums staðar annars staðar. Og við erum sannarlega meira ligeglad en Danir, sem bjuggu samt til orðið.
Kúbein og klíník
Þetta viðhorf (eða fílósófía – kannski bara stemmning?) er sumpart fallegt og bjartsýnt og eftirsóknarvert en samt aðallega frekar útjaskað og jafnvel skaðlegt. Það er hins vegar bara landvættahliðin á peningi sem á sér aðra enn apatískari hlið. Ef það væri mynd af sjávarfangi á henni þá væri það eitthvað mjög hlutlaust, eins og þang.
Sú hlið birtist meðal annars í tilvitnuninni hér í upphafi pistilsins, sem fengin er úr nýuppkveðnum dómi Héraðsdóms Reykjaness. Þar segir frá vegfaranda sem stóð og beið eftir strætó við Nýbýlaveg þegar hann var rændur af manni sem beitti fyrir sig kúbeini og þessari ofurklínísku setningu: „Þú veist hvernig þetta er.“
Þessi setning er dásamleg í einfaldleika sínum og sýður niður í rótsterkan essens allan samanlagðan lífsleiða fyrsta heimsins. Þarna er á ferð vopnaður ræningi og hann æpir ekki hótanir, bölvar ekki eða ragnar, hann gnístir ekki tönnum, óðamála í spíttvímunni, hann lætur duga að segja „þú veist hvernig þetta er“ og hefur úlpu, síma og veski upp úr krafsinu. Þessi sena á heima í dystópískri grínmynd. Það er ekki er nóg með að þessi yrðing feli í sér yfirlýsingu þess sem hana mælir um algjöra uppgjöf hans gagnvart hlutskipti sínu í lífinu, heldur gerir hún líka ráð fyrir sams konar uppgjöf viðtakandans, sem væri auðvitað óskammfeilið út af fyrir sig ef það væri ekki svona fullkomið.
Allsherjaruppgjöfin
Þetta er í raun mun algengara viðkvæði í íslenskri umræðu en „þetta reddast“.
Nokkrum atkvæðagreiðslum var frestað á Alþingi í gær vegna þess að of fáir þingmenn voru mættir í vinnuna. Þeir voru allir heima í kjördæmi, væntanlega að lofa því að flytja þangað hinar og þessar háskólanámsbrautir fengju þeir brautargengi í kosningum. Þegar þetta var gagnrýnt þá greip þingforseti, efnislega, í svar níhílíska Nýbýlavegarræningjans: Þessar fjarvistir eru eðlilegar. Þið vitið hvernig þetta er.
Einhverju fólki misbýður að sex árum eftir útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem himinháar bónusgreiðslur til bankastarfsmanna voru gagnrýndar harðlega, skuli Kaupþing vera hrokkið aftur í sama farið og stefni að því að greiða helstu lykilstarfsmönnum sínum vel á annan milljarð í kaupauka. Þegar falast er eftir svörum fást þær upplýsingar að allt sé þetta í samræmi við lög, þið vitið hvernig þetta er, en annars ætli bankinn ekkert að tjá sig um málið.
Í hvert skipti sem við frábiðjum okkur vinnandi hendur og kjósum frekar að senda þær eitthvert þangað sem „þetta reddast“ er ekki gildur frasi vegna þess að þar reddast hlutir oft bara hreint ekki þá býður Útlendingastofnun þeim og almenningi upp á kunnuglegan rökstuðning: Við vinnum eftir lögum. Þú veist hvernig þetta er.
Og svo koma kosningar og frambjóðendur lofa öllu fögru og við gleypum við fagurgalanum af því að við þráum svo heitt að fá lánin okkar greidd niður með peningum úr sameiginlegum sjóðum eða af því að við þolum ekki að innflytjendur séu að taka öll störfin okkar eða af því að við hötum lífeyrissparnaðinn okkar eða af því að við skiljum ekki hvernig verðtrygging virkar og síðan gera flokkarnir einhverja steypu sem við gleymum um leið og næsta loforð lítur dagsins ljós.
Þið vitið hvernig þetta er. Við erum öll búin að gefast upp.
Tillaga
Að lokum legg ég til að gefin verði út sérstök tómhyggjuútgáfu af Völuspá, þar sem þekktasta stefi íslenskra bókmennta, Vituð ér enn eða hvað?, er alls staðar skipt út fyrir annað sem fellur betur að veröld og hugarfari nútímamannsins. Grípum niður í 38. erindi:
Þar saug Niðhöggur
nái framgengna,
sleit vargur vera.
Þú veist hvernig þetta er