Bessastaðir, 15. nóvember 2016
Það voru ekki liðnar nema í mesta lagi sjö sekúndur síðan ljósmyndararnir og myndatökumennirnir yfirgáfu bókastofuna en þögnin var þegar orðin óbærileg. Bjarni var mjög meðvitaður um misheppnaða stöðu sína – bæði í óeiginlegum skilningi og ekki síður eiginlegum, þar sem hann sat álútur með hendur í gaupnum sér eins og óknyttastrákur á skrifstofu skólastjóra, og það andspænis sjálfum forsetanum sem lét fara vel um sig með krosslagða fætur og hallaði undir flatt. Honum hafði ekki liðið svona vandræðalega síðan þau hjónin skrifuðu saman Facebook-statusinn hennar um Ashley Madison-flippið.
Hann varð að rjúfa þögnina.
„Þetta var nú meira með Trump kallinn.“
„Bjarni minn...“
„Maður átti kannski ekki alveg von á þessu, en ég meina, svona er lýðræðið. Láttu mig þekkja það.“
„Bjarni...“
„Heldurðu að það fari nokkuð allt til fjandans? Verður maður ekki að gefa honum séns – leyfa honum að sanna sig? Flott heillaskeyti hjá þér bæðevei.“
„Gengur þetta ekkert hjá þér Bjarni minn?“
Jæja já, engin stemmning fyrir neinu hjali. Þetta var allt annar og sjálfsöruggari Guðni Th. Jóhannesson en Bjarni hafði þurft að eiga við áður. Forsetalegri. Þessi Guðni mundi ekki hjóla með börnin sín í skólann nema „hjóla“ væri dulmál fyrir að fljúga á þyrlu og „skólinn“ væri dulmál fyrir kjarnorkubyrgi.
„Nei,“ andvarpaði hann. „Þetta er búið. Við vorum aðeins farnir að hittast, ég, Óttarr og Bensi frændi, og ég fór svona fljótlega að skynja að þeir vildu að ég gæfi einhvers konar afslátt af stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum helstu málum – ég veit satt að segja ekki hvernig þeir sáu fyrir sér að stjórnarmyndunarviðræður gengju fyrir sig, en þeir eru náttúrulega alveg reynslulausir í þessu.“
„Ertu að tala um málamiðlanir?“
„Ha?“
„Vildu þeir gera málamiðlanir? Svona eins og menn gera í stjórnarmyndunarviðræðum?“
„Ha? Neeei, eða, sko, sjáðu til – það stóð ekkert á mér að gera málamiðlanir. Eftir eitt, tvö símtöl í baklandið í Vestmannaeyjum lagði ég til dæmis til að miðla málum þannig að þeir myndu bakka í kvótamálunum, landbúnaðarmálunum, Evrópumálunum og þessari steik þarna um jafnlaunavottunina – eða jafnlaunavottðefokk eins og ég kalla það, haha – og að í staðinn fengju þeir að vera með í ríkisstjórn. Þeir vildu ekki ganga að þessu kostaboði, enda óttalegir kreddukallar og blautir á bak við eyrun, þannig að ég sá þann kost einan í stöðunni að slíta þessu bara. En þú sérð að þessar viðræður strönduðu alls ekki á því að Sjálfstæðisflokkurinn væri að reyna að knýja fram sín stefnumál.“
Á meðan Bjarni hlustaði á sjálfan sig tala rann upp fyrir honum að hann hefði líklega átt að hætta því fyrr.
„Bjarni, ég held að ég verði því miður að biðja þig að skila stjórnarmyndunarumboðinu.“
Það var þungi í orðum forsetans.
„Já, mig grunaði að þú mundir segja þetta. Fær Katrín það næst?“
„Það verður bara að fá að koma í ljós, en fyrst verður þú að skila því.“
Forsetinn rétti út flatan lófann.
„Hvað meinarðu?“
„Skilaðu umboðinu.“
Fjármálaráðherrann var hissa. Hann hélt að þessi litli leikþáttur forsetans tveimur vikum áður hefði bara verið létt spaug á góðri stundu – tilefnið var öllu daufara núna og andrúmsloftið eftir því.
„Ehh, kommon, þú veist jafnvel og ég að það er ekkert „umboð“ til að skila. Umboðið er bara algjörlega óformlegt og óhlutbundið leyfi frá þér til að setja sig í samband við aðra flokksformenn og skiptir í rauninni engu máli fyrir myndun ríkisstjórnar – það er hvergi minnst á þetta umboð í neinum lagatexta og öllum er fullfrjálst að ræða saman um stjórnarmyndun hvenær sem þeim sýnist og mæta með stjórn til þín tilbúna upp á vasann. Ég skil eiginlega ekki einu sinni til hvers ég er hérna núna.“
Forsetinn var orðinn brúnaþungur.
„Núna strax!“
Hann rak vísifingur vinstri handar svo fast ofan í opinn lófa þeirrar hægri að nöglin skildi eftir djúpt far sem Bjarna fannst minna á bókstafinn C.
Bjarna var hætt að standa á sama. Hann langaði út. Hann fálmaði inn undir jakkann sinn, þóttist sækja eitthvað og lagði svo akkúrat ekki neitt í pinnstífa hönd forsetans, sem var farin að titra.
„Gjörðu svo vel...?“
„Sko, ekki var þetta nú erfitt!“
Guðni Th. Jóhannesson brosti sínu breiðasta, stóð upp og kom hinu ímyndaða stjórnarmyndunarumboði fyrir ofan í skrifborðsskúffu. Þeir kvöddust og Bjarni Benediktsson gekk hratt út úr bókastofunni án þess að líta um öxl.
Forseti fer yfir um
Bessastaðir, 16. nóvember 2016
„Hva, ekkert alzheimerbuff í d...“
„Katrín, ég ætla að fá að stoppa þig strax. Ef þú minnist aftur á þetta buff þá ... jah, ég segi ekki að ég muni buffa þig, en þú getur þá að minnsta kosti gleymt því að fá stjórnarmyndunarumboðið.“
Katrín Jakobsdóttir var ekki viss um hvort Guðni Th. Jóhannesson væri að grínast þótt hann væri skælbrosandi. Hún ákvað að halda andliti – vipraði samt munnvikin, rétt til að sýna að sér væri ekki of brugðið.
„Að máli málanna: Heldurðu að þú getir myndað ríkisstjórn?“
„Já, ég tel mig hafa forsendur til að ætla að það gæti gengið. Það verður ekki auðvelt en...“
„Hatarðu Óttarr ekkert of mikið?“
Aftur. Hún var orðin vön því úr kosningabaráttunni að láta menn grípa fram í fyrir sér, en henni mislíkaði það samt. Nú reið hins vegar á að klára þennan fund og fá umboð til stjórnarmyndunarviðræðna.
„Ha? Óttarr? Proppé? Nei, af hverju ætti ég að gera það?“
„Æi, er hann ekki soddan svikari – kominn beint upp í bólið til Bjarna korteri eftir kosningar, algjör Óttarr í bóli Bjarna, hahaha! Sumir segja að hann hafi haft HAMskipti – skilurðu? Þú ert ekkert á því?“
„Nei, við Óttarr höfum alltaf átt gott samstarf og ég er sannfærð um...“
„Katrín, ég ætla að trúa þér fyrir svolitlu.“
Forsetinn var staðinn upp.
„Þegar ég fór í næturgöngu hérna um hlaðið í byrjun vikunnar, horfði suður yfir Gálgahraun og sá þar gullinn bjarmann frá skíðlogandi IKEA-geitinni lýsa upp Hafnarfjarðarhraunið, þá vissi ég undireins að ég vildi ekki að hér yrði mynduð nein ríkisstjórn. Það er ekki vegna þess að mig langi að horfa á heiminn brenna, heldur af því að mér finnst bara svo gaman! Ég er loksins orðinn alvöru forseti, með alvöru skyldur, eins og mig hefur dreymt um frá því að ég var pínulítill áhugasagnfræðingur, og þannig vil ég að það verði lengi. Ég meina, Belgar voru án ríkisstjórnar í eitt og hálft ár! Við getum toppað það.“
Katrín starði í forundran á þennan hægláta fræðimann sem hafði, að því er virtist, látið nýfengin völd hlaupa með sig í gönur. Yfirleitt hafði það tekið lengri tíma.
„Þú getur reynt að segja fólki þetta, en ég mun neita og enginn mun trúa þér. Ég er jú forsetinn. En að því sögðu ætla ég að fela þér stjórnarmyndunarumboðið, þótt ekki sé nema til málamynda. Eftir tvö ár verðið þið svo öll búin að taka marga árangurslausa snúninga á því.“
Forsetinn bauð fram hnefann. Katrín þorði ekki annað en að bera höndina upp að honum. Greip Guðna Th. Jóhannessonar opnaðist og ekkert féll úr henni í lófa Katrínar Jakobsdóttur. Hún stakk höndinni eldsnöggt í vasann, snerist á hæli og hvarf út um dyrnar. Þau kvöddust ekki.
Það heyrðist bankað á dyr hinum megin í herberginu.
„Kom inn!“
Örnólfur Thorsson forsetaritari birtist í gættinni.
„Hæhæ, heyrðirðu þetta? Hvernig var þetta í samanburði við fundinn með Bjarna?“
Forsetaritarinn varð kindarlegur.
„Þetta var ... skrýtið. Enn skrýtnara en í gær.“
„Já, ég veit það Örnólfur minn, ég er bara aðeins að fokka í þeim.“