Ekkert breytti starfi mínu meira en internetið. Ég er blaðamaður og ritstýri litlum vef sem ég stofnaði fyrir rúmlega tveimur árum. Áður hafði ég skrifað í blöð og tímarit og þrátt fyrir að það hafi verið mjög skemmtilegt þá þyrfti mikið að gerast ef ég ætti að starfa við það aftur. Að geta fylgst með viðbrögðunum við því sem maður skrifar í rauntíma er ansi ánetjandi. Ég gleymi því ekki þegar ég birti pistil í mest lesna dagblaði landsins og það gleymdist að setja hann á vef blaðsins. Ég fékk eina athugasemd á pistilinn og hún var frá tengdamóður minni yfir kvöldmatnum. Daginn eftir var pistillinn svo settur á vefinn og ég gat loksins baðað mig í athugasemdum og lækum.
Fjölbreytt ábyrgð fylgir því að skrifa fréttir og annað efni á internetið. Mikilvægast er að sjálfsögðu að vanda sig, segja satt og rétt frá og beita almennri skynsemi en svo má maður ekki láta ofsafengin viðbrögð notenda stýra efnistökum og framsetningu, þó maður verði að sjálfsögðu að taka til greina hvað fólk vill lesa ásamt því að setja efnið fram með þeim hætti að einhver nenni að lesa það.
Þetta er línudans.
Hugtakinu „clickbait“ er reglulega fleygt fram í umræðunni um störf vefmiðla. Clickbait er í stuttu máli bragð til að láta fólk smella á fyrirsögn. Orðabókaskilgreiningin myndi eflaust tiltaka fyrirsagnir þar sem svokallað „curiosity gap“ er komið fyrir til að skapa forvitni, hvort sem efnið handan við tengilinn bjóði upp á það sem hugur lesandans býst við eða ekki. „Þú trúir ekki hvað gerðist næst“ er vinsælt viðskeyti við dramatísk fyrirheit um safaríka frétt. Oftar en ekki er þetta sem fólk átti alls ekki að trúa að gæti gerst bara ómerkileg leið inn í myndband af barni að æla á afmælisköku. Eða af gamalli konu að detta á rassinn.
Fjölmiðlar sem nota clickbait-fyrirsagnir hafa átt undir högg að sækja undanfarin misseri eftir að Facebook skar upp herör gegn þeim. Þegar fólk var búið að fá fullkomlega nóg af því að láta plata sig til að skoða efni, sem reyndist vera eitthvað allt annað en það bjóst við, þá brást þessi stærsti samfélagsmiðill heims við með því að útiloka fjölmiðla sem beittu bragðinu markvisst.
Facebook mælir hversu lengi fólk er að lesa fréttir og annað efni sem fer í dreifingu og finnur smelludólgana frekar auðveldlega. Hvernig? Fólk er snöggt að loka síðum sem veldur því vonbrigðum. Ef fyrirsögnin lofar einhverju sem er ekki til staðar, þá dvelur fólk aðeins nokkrar sekúndur inni á síðunni. Þessi gögn skila sér til Mark Zuckerberg og félaga sem hafa markvisst skrúfað niður í dreifingu á slíku efni. Fyrir vikið er Facebook betri miðill og internetið skárri staður til að vera á. Næsta viðfangsefni er svo að hefta dreifingu á gervifréttum.
En það er galli á gjöf Njarðar. Einu sinni var tvíræðni í fyrirsögnum ákveðið listform en í dag virðast slíkar æfingar vera ómerkilegt clickbait í hugum fólks. Þegar allir lásu prentuð blöð fengu blaðamenn að leika sér með formið án þess að verða fyrir aðkasti frá reiðum lesendum í athugasemdakerfum fjölmiðla og samfélagsmiðla. Það mætti kannski segja að tvíræðnin hafi verið nokkurs konar fyrirboði clickbait-fyrirsagna þar sem þær höfðu beinlínis þann tilgang að plata lesendur, láta þá halda að þeir væru að fara lesa um eitthvað annað en fréttin fjallaði raunverulega um. Fræg frétt undir fyrirsögninni „Leoncie reið Markúsi“ fjallaði til dæmis ekki um villt kynlíf þáverandi útvarpsstjóra og indversku prinsessunnar heldur gagnrýni hennar á störf hans. Þetta fannst fólki fyndið.
Í dag er öldin önnur. Krafan um meiri upplýsingar en minni í fyrirsögnum verður sífellt háværari og að mínu mati stendur stéttin frammi fyrir ákvörðun: Á að leyfa tvíræðum fyrirsögnum að hverfa ofan í ræsið ásamt ósvífnum, hreinræktuðum clickbait-fyrirsögnum þar sem lesendum er talin trú um að ótrúlegir hlutir gerist næst? Eða þráast við og rífast við lesendur í athugasemdakerfum í hvert skipti sem blaðamönnum dettur fyndin tvíræðni í hug.
Þetta er línudans. Það er staður og stund fyrir allt. En persónulega þá nenni ég þessu ekki og fylgi því tíðarandanum.
Þó ég gefi lítið fyrir gagnrýni í athugasemdakerfum á tvíræðar fyrirsagnir þá hef ég látið undan kröfunni um meiri upplýsingar en minni. Ekki vegna þess að vanhugsaðar og illa stafsettar athugasemdir um störf mín hræða mig heldur vegna þess að lesendur hafa tekið afstöðu með hætti sem erfitt er að hunsa: Með smellinum. Mín reynsla er sú að fólk kann svo vel að meta fyrirsagnir sem innihalda svo mikið af upplýsingum að lesendur fá í rauninni tvær á verði einnar, að þær eru líklegri til að vera lesnar. Þetta var því ekki erfið ákvörðun.
Höfum samt á hreinu að allir geta sótt smelli. Það er hægt að skrifa hvað sem er í fyrirsögn og láta smella á það. Helsta áskorun þeirra sem skrifa efni á internetið í dag er að fá fólk til að deila; að skrifa efni sem höfðar svo vel til fólks að það vill dreifa því, hafa eitthvað um það að segja — efni sem lesendur telja að innihaldi upplýsingar, góðar eða slæmar, sem eiga erindi til stærri hóps. Þetta er krefjandi áskorun og skemmtileg.
Ég átta mig núna á að þessi pistill innihélt varla játningu. Hvað þá játningar. Eigum við ekki bara að segja að þetta sé clickbait?