Það er ýmislegt hægt að segja um Donald Trump, en að hann sé latur er ekki eitt af því. Þvert á móti virðist hann ætla að keyra Bandaríkin eins og eimreið í átt að endalokunum með svo miklu offorsi að myrkraguðinn Cthulhu verður líklega búinn að sökkva veröldinni í eldhafið áður en allir góðærissturluðu yfirdráttarþegar Íslands komast til Tenerife í sumar. TjúTjú!
Það er víst algengt að fólk með sjúklegan frammistöðukvíða fari fram úr sér fyrstu vikurnar í nýju starfi. Skýrasta birtingarmynd þessarar minnimáttarkenndar brýst fram í gríðarlega kvíðavaldandi framkomu hans við opinber tilefni. Í staðinn fyrir að mæta fólki með eðlilegu, þéttingsföstu handabandi þá virðist eina leiðin sem hann kann vera að klemma smávaxna, appelsínugula fingurna utan um grandalausa hönd fórnarlambs síns, hrista hana handahófskennt og rykkja svo í handlegginn líkt og sauðburðartöng að reyna að losa kirfilega skorðað lamb. Svona virðist hann sýna þjóðhöfðingjum yfirburði sína. Forseti Bandaríkjanna, háfjallagórilla.
Eini maðurinn sem gat staðið í honum var auðvitað velferðarprinsinn fagri úr norðrinu, Justin Trudeau. Augu læst við augu. Trump gat hvorki rykkt né kramið. Arnold-Carl Weathers í Predator handaband; ekkert nema þrútnir vöðvar og gutlandi hormónar. Svona er þegar óstöðvandi afl mætir óhagganlegri fyrirstöðu: kaldur samruni. Það sem hvorugur þessara manna fattar er að raunverulegt sjálfstraust birtist ekki í því að reyna að rífa hendurnar af japanska forsætisráðherranum — þvert á móti. Ég tók einu sinni í höndina á Lækna-Tómasi og það var eins og að leggjast ofan í nýfallinn snjó á björtum desemberdegi; eins og að snerta ský. Engin grimmd, engin valdbeiting. Hann þurfti þess ekki. Lækna-Tómas átti mig, þótt töfrarnir hafi svona aðeins dofnað í kringum þetta smávægilega plastbarka-vesen.
Ég hlakka samt til fyrsta fundar Bjarna Benediktssonar og Donald Trump; hlakka til að sjá örsmáa hönd forsetans hverfa inn í risavaxna Garðabæjarskófluna á forsætisráðherranum eins og sandkorn í eyðimörk. Það mun líklega fara ágætlega á með þeim þegar að því kemur enda finnst Bjarna enn ekki tímabært að fella stóra dóma um embættistíð Donald Trump — ekki eftir alla efnahagslegu einangrunarstefnuna, kynþáttahyggjuna og kvenfjandsamlegu orðræðuna, svona fyrir utan að helsti þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna er búinn að segja af sér fyrir landráð. Kannski skiptir Bjarni um skoðun þegar hann sér Trump koma ríðandi á herðum Cthulhu inn Bakkaflötina í næsta mánuði.
Það er ekki alveg sama orkan í nýrri ríkisstjórn Íslands. Ég skil það reyndar ágætlega. Ef maður væri að mæta í skólann eftir ógeðslega langt jólafrí og þyrfti strax að byrja í hópverkefni með fólki sem maður hataði þá ætti maður líklega erfitt með að koma sér af stað líka. Forsætisráðherra er reyndar með svo mikinn verkkvíða að hann var búinn að vera í vinnunni í nákvæmlega þrjá daga eftir þrjátíu daga langt jólafrí áður en hann þurfti að fara í skíðaferð til Austurríkis til að losa aðeins um spennuna. Hann á það reyndar til í að vera einhvers staðar annars staðar þegar álagið er sem mest: Panamaskjölin, Læknaverkfallið: „Get ekki svarað í símann, er í fríhíhíi!“
Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og Lucille Bluth íslenskra stjórnmála, Brynjar Níelsson, er hins vegar ekkert á leiðinni í frí. Síðast í fyrradag lét hann hafa eftir sér í umræðu um vegtolla að fátækt fólk ætti ekki bifreiðar því að ef maður ætti bíl þá gæti maður ekki talist fátækur. Í augum Brynjars er allt fátækt fólk Charles Dickens-persónur með topplausa pípuhatta í götóttum grifflum sem verma sér yfir logandi tunnum milli þess sem það hóstar í skítuga vasaklúta. Fátækt fólk á ekki bíla, fátækt fólk á ekki íbúðir eða hús. Fátækt fólk á ekki farsíma eða armbandsúr eða Levi’s gallabuxur. Því að ef það væri fátækt þá færi það ekki að eyða peningum í þannig lífsgæðahégóma. Nei, hið ósagða er að þessir svikafátæklingar séu aumingjar.
Hann hafði áður gert grín að áformum Pírata um niðurgreidda sálfræðiaðstoð og tannlækningar, að iðjuleysingjarnir gætu „setið heima við tölvuna á borgaralaunum, legið í sófanum hjá sálfræðingum daginn út og inn og látið hvítta tennurnar, allt í boði skattgreiðenda“. Þetta er hin gamla, fúna íslenska karlmennskuímyndin sem fussar yfir þessum vælukjóum í dag: „Í minni æsku drukkum við volgt lýsi, átum skerpukjöt og tjörguðum timbur, og ef það var eitthvað væl þá vorum við sendir rakleitt á Breiðavík!“. Heil kynslóð sem var svo illa svikin af þessum karlrembukapítalisma að hún mun líklega aldrei getað safnað sér fyrir íbúð nema með því að taka 95% lán af gullbraskandi pizzaprinsinum sem átti Gömlu Smiðjuna og öskraði á alla sem kvörtuðu yfir kaldri böku að þau væru lygarar og svikarar sem skulduðu honum húsaleigu. Þetta á pottþétt eftir að enda vel.
Brynjar hefur sömu afstöðu gagnvart frumvarpi eigin ríkisstjórnar um lögfestingu jafnlaunavottunar. Hann, ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokks, vill meina að kynbundinn launamunur sé bara einhver vælutilbúningur vinstrimanna: „Það er auðvitað meginforsendan ef ætlunin er að fara út í svona inngrip að vandamál sem ætlunin er að leysa sé örugglega til staðar“. Það skiptir ekki máli að allar rannsóknir sýni fram á staðfestan launamun kynjanna. Það skiptir ekki máli að karlar stýri 91% af fjármálafyrirtækjum og sjóðum landsins. Þetta er bara pólitískur rétttrúnaður argandi femínista og einhverra karla sem eru að reyna að ganga í augun á þeim. Íslendingar eiga í svo erfiðu meðvirknissambandi við feðraveldið að við vitum ekki hvort við viljum gelda það eða ríða því.
Þrátt fyrir allt tal um að dýpka umræðuna, laga umræðuna og þverpólitísk vinnubrögð þá snýst þetta að lokum alltaf um hugmyndafræði. Ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldið. Kerfisvarnarflokkurinn. Hann hefur ekki áhuga á jafnlaunavottun eða kynjakvótum. Hann hefur ekki áhuga á eftirliti með fjármálafyrirtækjum eða upprætingu skattaskjóla. Hann hefur ekki áhuga á minni stóriðju, breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, nýrri stjórnarskrá eða nokkru öðru sem færir rykfallin tannhjólin úr skorðum. Þau eiga að snúast óhögguð áfram um alla tíð. Hann er holdgervingur þessarar gömlu, fúnu karlmennskuímyndar. Macho-kapítalisminn sem rykkir í hendurnar á fólki og kreistir. Fjallagórillukapítalismi.
Og allt í einu sitja Viðreisn og Björt Framtíð í skugganum af þessari risaeðlu, og hægt og bítandi rennur upp fyrir þeim að stóru málin sem þeim tókst að koma inn í þennan næfurþunna, 8 blaðsíðna stjórnarsáttmála eru fjarri því að verða að veruleika, að stór hluti Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem er með þeim í ríkisstjórn, hefur ekki nokkurn hug á því að styðja frumvörp þeirra um jafnlaunavottun eða um mengandi stóriðju. Og hvað er þá eftir? Treysta á að stjórnarandstaðan sé nógu full af aumingjagóðum vinstrimönnum sem hljóti að styðja þessi góðu mál? Hefði þá ekki verið auðveldara að vera bara með þeim í ríkisstjórn?
En hvað veit ég? Ég trúi engu lengur í þessum nýja heimi alternatífra staðreynda. Öll þessi veröld — öll tilvist okkar – gæti verið draumur. Vitstola fantasía Shinzo Abe, forætisráðherra Japans, sem fæddist í 19 sekúndna handabandsfangelsinu sem Donald Trump læsti hann í. Kannski erum við enn þar. Í þvölum, heitum, appelsínugulum lúkunum. Föst um alla tíð.