Salka Sól tjáði sig á dögunum um rassaklíp á árshátíð síðastliðna helgi. Fyrsta sem mér datt í hug var að vonandi fengi hún afsökunarbeiðni frá fyrirtækinu og að þetta myndi verða kannski til þess að dónakallar landsins myndu næst fá sér einum færri drykki eða sjá sóma sinn í því að hætta að áreita fólk, eða einfaldlega sleppa því að mæta og auðvelda þannig öllu samstarfsfólki sínu að skemmta sér.
Fyrir nokkrum árum – og ég hef skrifað um þetta atvik áður á þessum vettvangi – lenti ég í áreitni og ógeðslegum kommentum frá manni á jólagleði sama fyrirtækis og Salka Sól giggaði fyrir. Og ég skrifaði um það litla klausu á blogginu mínu, sagðist hafa verið að spila á geggjuðu giggi en eins og gengur og gerist hafi verið einn dónakall sem skemmdi fyrir öllum hinum. Meðfylgjandi var mynd af pökkuðu dansgólfi, mörg hundruð manns í stuði og hann einn af þeim, ógreinilegur í horninu. Ekki leið á löngu þar til ég fékk símtal frá fyrirtækinu, þungbúin rödd tjáði mér að svona ætti manneskja sem ráðin væri ekki að haga sér og ég var sko sammála því. En það var ekki verið að tala um hann, ó nei, það var verið að tala um mig. Að ég ætti ekki að tjá mig um þetta, að ég ætti að taka þetta út af blogginu og að ég yrði sko aldrei ráðin aftur af fyrirtækinu. Eftir þetta tóku við nokkur misseri þar sem ég plötusnúðaðist ekki nema með strákavin mér við hlið. Takk Ingi, Atli, Raggi og Óli Palli fyrir stórkostlega tíma, stuðning og pepp.
Móðir mín, sem starfaði hjá fyrirtækinu á þessum tíma, var einnig skömmuð fyrir þetta feilspor mitt. Þegar ég ræddi svo við fleiri sem ég kannaðist við innan fyrirtækisins var viðkvæðið „Æh, hann er alltaf svona, hann er líka svona ógeðslegur við samstarfskonur sínar í partýjum.“ Og honum var samt bara alltaf boðið. Meðvirknin var slík að enginn sagði neitt. Ég veit að þessi tiltekni maður starfar enn innan fyrirtækisins, og allir virðast vita af þessum persónuleikabresti. Viðbjóðurinn sem hann slefaði í eyrað á mér, um mig, mömmu mína, flugfreyjubúninga og fleira situr enn þá í mér. Þegar fréttin um Sölku fór á flug hlógum við mamma. „Hvernig ætli það verði dílað við þetta? Ætli hún fái samskonar símtal og þú, Margrét mín?“
Eðlilegur hluti af því að starfa í bransanum er að díla við fólk sem hefur áfengi um hönd. Það krefst þolinmæði, hlýju og einbeitingar. Ég veit alveg að ef ég höndlaði ekki þetta eðlilega áreiti ætti ég einfaldlega að finna mér annað starf til að borga leiguna. Ég myndi segja að helmingur gigga fæli í sér almennan dónaskap eða kynferðislegt áreiti. Fullar konur hafa alveg líka áreitt mig, snert á mér brjóstin, reynt að fara í sleik og sagt „Ohhh þú ert bara svvvvvo sexí. Kenndu mér að vera sexí,“ og boðið mér svo í threesome með með þeim og manninum þeirra, sem er enn blekaðri á kantinum. Ég lendi þó oftar í „Ég er sko í nefndinni/bókhaldinu. Ef þú spilar ekki Black Eyed Peas þá færðu ekki borgað,“ frá kvenþjóðinni. Síðustu helgi gekk dónaskapurinn svo langt að reið kona hellti bjór (ekki óvart) yfir tölvuna mína og mixerinn minn.
Ég get ekki ímyndað mér að það sé 100% gaman, alltaf, allan tímann í öllum vinnum, svo maður kyngir þessu, sérstaklega í þeim giggum þar sem fólk er meðvitað og tekur afstöðu: Hjálpar mér að díla við manneskjuna, kallar til öryggisvörð eða eitthvað slíkt. Verst er þegar allir þekkja hegðunarmynstur erfiðu manneskjunnar, en bjóða henni samt, og enginn gerir neitt.
Undanfarið hafa skemmtikraftar ýmsir tjáð sig um þetta, bæði karl- og kvenkyns. Þó er ein stétt sem lendir enn þá meira í þessu og það er í alvöru hluti af starfinu, vaktstjórar segja fólki að hætta að væla og „hva, þeim finnst þú bara sætur.“ Þetta er þjónustufólk. Ógeðissögur sem ég hef heyrt af viðskiptavinum veitingastaða og borðgesta á árshátíðum skipta tugum. Þegar ég mæti til að skemmta, hvort sem það er með atriði eða til að þeyta skífum er alltaf einhver í þjónaliðinu sem segir til dæmis „passaðu þig á þessari týpu á borði 3.“ Á hverju einasta giggi fæ ég slíka viðvörun frá einhverjum sem er búinn að verja kvöldinu með hópnum.
Ég sagði fjölskyldunni minni frá nærtækasta dæminu, síðasta föstudagskvöldi. Systir mín hváði og var viss um að ef hún hegðaði sér svona á mannamóti á vegum vinnustaðar yrði hún rekin med det samme. Í þessu tilfelli hafði ég lækkað hefðbundið verð umtalsvert, bæði sem vinargreiða og annað spilaði inn í. Það leit þó út fyrir það að viðgerðirnar myndu kosta meira en ég var að rukka fyrir kvöldið. Sem betur fer varð lendingin sú að manneskjan sem olli skemmdunum ætlar að borga þær sjálf, og vona ég að af því dragist einhver lærdómur.
Kommentakerfin fyrir neðan fréttir af rasskinn Sölku Sólar voru ótrúlega fyndin. Fullt af fólki sem hefur engan skilning á því að vera skemmtikraftur – já eða því að vera þjóðargersemi eins og Salka – var með ráðleggingar um hvað hún hefði átt að gera: Bara neita að fara upp á svið fyrr en þessum dúdda væri hent út; segja eitthvað í míkrófóninn... blablabla. Ég hef verið í bransanum í 13 ár. Að segja eitthvað hefur skilað sér í eftirfarandi:
- Hótunum um að verða aldrei ráðin aftur.
- Slúðri um að ég sé dramadrottning og prímadonna. Að vera kölluð prímadonna er það versta sem skemmtikraftur í þessari litlu tjörn getur verið kallaður.
- Mikið af ráðleggingum um hvað ég hefði frekar átt að gera, t.d. halda kjafti og ræða þetta eftir gigg.
Mér finnst setning föður míns, kennarans, eiga hér ágætlega við: Þú hefur fullan rétt á því að skemma fyrir sjálfum þér, en ekki fyrir neinum öðrum. Einn af 1.000 getur eyðilagt heilt partý. Hann getur eyðilagt orðspor fyrirtækisins og samstarfsfólks. Ef þetta gerist ítrekað, og allir vita af áhættunni sem skapast þegar erfiðleikagrísirnir sletta úr klaufunum þá ættum við að hætta að bjóða þessu fólki. Þau geta bara halt sitt eigið partý. Pant ekki skemmta í því.