1.
Bjarni Benediktsson er þögull. Máttlaus. Hann getur ekki hreyft sig, aðeins starað á rigninguna teiknast í bjarmanum frá framljósum lúxusbifreiðarinnar sem situr kyrrstæð fyrir framan endalausa röð af keimlíkum einbýlishúsum í Garðabænum.
Við hlið hans situr gamall, hokinn maður íklæddur brúnu peysuvesti og pressuðum gráum bómullarbuxum sem eru gyrtar þó nokkrum sentímetrum hærra en eðlilegt þykir. Hann horfir niðurlútur á köflótt pottlok sem hann veltir á milli handa sér til að halda niðri skjálftanum.
Eftir langa stund lítur gamli maðurinn upp og segir, „Þú verður að trúa mér, ég vissi ekki að þetta gæti farið svona.“
„Ég nenni ekki að hlusta á þetta pabbi.“
Bjarni finnur reiðina byrja að vella upp; fyrst í maganum, svo skríður hún upp vélindað, byrjar að læðast eftir tungunni – þykk og svört eins og tjara. Hann klemmir saman meitlaða kjálkana til að reyna að halda henni inni. Hann verður að halda stjórninni.
Eftir langa þögn byrjar gamli maðurinn aftur. „Verðum við ekki að trúa á það besta í fólki? Það eina sem ég vildi gera var að hjálpa. Ég hefði aldrei skrifað þessi meðmæli hefði ég vitað að þessir helvítis hrægammar myndu komast yfir…“
Blóðið streymir upp í andlitið á Bjarna, fyllir það. Það flæðir inn í eyrun, drekkir hljóðhimnunni þannig að röddin á föður hans fjarar út; breytist í fjarlægt suð. Hann byrjar að kreista leðurklætt stýrið, finnur reiðina renna fram í hendurnar á honum. Hann kreistir fastar. Hnúarnir hvítna. Þessar stóru, voldugu hendur; eins og tvær teflonpönnur.
Hann starir á þær. Eftir því sem hann kreistir fastar finnst honum hendurnar á sér stækka enn meira. Stækka og stækka þangað til þær fylla út í bílinn. Stækka þangað til faðir hans verður depill í lófanum á honum. Stækka og stækka og stækka. Borgir verða að mauraþúfum og mannfólkið að ánamöðkum skríðandi yfir regnvota gangstétt. Honum líður eins og hann geti kramið plánetur. Allt verður að sandi í höndunum á honum.
2.
Brynjari líður best í þögninni. Hann mundi aldrei nota aumingjavædd hugtök eins og hugleiðsla eða núvitund, en hann er aldrei hann sjálfur nema í algjörri þögn. Hann gengur svo langt að líta á hljóð sem óvin sinn; launmorðingja sem kemur aftan að honum og sker hann á háls.
Hann hafði fyrir löngu byrjað að gera heimili sitt að verndarsvæði þagnarinnar. Hann byrjaði á að losa sig við það augljósasta: reykskynjarana, útvarpsvekjaraklukkuna, brauðristina. Þegar það hætti að vera nóg byrjaði hann að losa sig við tifandi klukkur og suðandi ísskáp. Hann smurði allar lamir daglega; reif upp brakandi gólffjalir.
Verktakarnir sem hann fékk til að þrefalda glerið og tvöfalda einangrunina litu hann hornauga; glottu og pískruðu eins og hann væri að fara að smíða einhverja hljóðeinangraða kynlífsdýflissu heima hjá sér. Týpískur hugsunarháttur lítilla, einfaldra manna.
En nú gat hann loksins setið einn í eldhúsinu sínu í fullkominni, órofinni, dúnmjúkri þögn.
Sprenging. Hún skellur á honum eins og höggbylgja. Jarðskjálfti. Heimsendir. Það er eins og allar úr sér gengnar loftvarnaflautur almannavarna hafi birst við hliðina á honum; allar fallnar sálir helvítis orgað af örvæntingu á sama tíma.
Brynjar kastast aftur fyrir sig. Skellur á gólfinu. Allt verður svart.
Einhverju síðar rankar hann við sér með dúndrandi höfuðverk. Heimurinn hafði sem sagt ekki farist. Við hlið hans lá sökudólgurinn: Helvítis síminn. Einhvern veginn hafði honum tekist að kveikja á hljóðinu. Hann bölvar sínum eigin feitu puttum og tekur tækið upp. Á skjánum bíða hans ein ólesin skilaboð:
„Stjórnin er fallin. Björt framtíð fokkaði okkur upp.“
Brynjar lygnir aftur augunum og andvarpar djúpt.
„Djöfulsins aumingjar.“
3.
Á einhverjum tímapunkti hafði Inga Sæland misst tökin á eigin örlögum. Suma daga hélt hún að það hefði verið andartakið sem Páll Óskar sendi hana heim úr X Factor. Þegar allt kom til alls vildi hún bara syngja; nýta þessa gjöf sem henni hafði verið gefin til þess að gleðja fólk.
Tíu árum síðar hafði söngurinn þagnað. Það sem byrjaði sem göfug hugsjón um að útrýma fátækt hafði öðlast eigið líf. Flokkurinn hafði stækkað svo hratt að þessi fáu kunnuglegu andlit sem hófu þessa vegferð með henni höfðu horfið inn í hafsjó ókunnugra og nýrra.
Allt í einu var hún undir smásjá. Hvert einasta orð sem hún sagði eða skrifaði krufið og hakkað í spað. Inga hafði aldrei verið einhver sem velti hlutunum of lengi fyrir sér – hún er kona sem gerir.
Og hvað með það þótt hún hafi kannski ekki verið með öll smáatriði á hreinu varðandi aðbúnað hælisleitenda? Hverju skiptir það að „hagfræðin“ í öllu sé alltaf 100% rétt? Hverju skipta þessi smáatriði þegar stóra myndin er svona skýr?
Svo kalla þau hana popúlista – þjóðernispopúlista. Eins og það sé eitthvað slæmt við það að vera með vinsælar skoðanir? Að vera stoltur af þjóðinni sinni? Skilaboðunum hafði rignt yfir hana síðan ríkisstjórnin féll. Fyrst Magnús Þór Hafsteinsson, svo Margrét Friðriksdóttir. Henni hafði reyndar fundist þessi Margrét hafa örlítið þrúgandi nærveru; blikkaði konan aldrei augunum? En Inga hafði ekki lagt það í vana sinn að snúa baki sínu við duglegu, metnaðarfullu fólki.
Samt sem áður líður henni eins og hún sé orðin peð í eigin tafli. Akkúrat á þessum tímapunkti vildi hún að hún gæti snúið við kukkunni; að hún væri aftur komin á sviðið, undir björtu ljósunum. Að Palli hefði bara valið hana.
Inga gengur að glugganum. Starir út í nóttina. Svo byrjar hún að syngja. Eina lagið sem sál hennar vill heyra: The Way We Were með Barböru Streisand.
Can it be that it was all so simple then?
Or has time re-written every line?
If we had the chance to do it all again
Tell me, would we? Could we?
Eftirmáli
Í myrkrinu sést ekki neitt. Ekki mosagróni malarvegurinn. Ekki flagnandi útveggirnir. Ekki bárujárnsþakið sem einu sinni var grænt. Ekki einu sinni skiltið sem á stendur: „Hrafnabjörg III“. Í svona djúpu, kæfandi myrkri sést ekki neitt – en óséðir hlutir hætta samt ekki að vera til. Og hann er enn til. Gleymdur, yfirgefinn, svikinn; en óumflýjanlega enn til.
Húsið var þögult ef ekki væri fyrir rigninguna sem barði bárujárnsþakið eins og þúsundir fingra tifandi á blikktrommu. En það var ekkert líf, ekkert sem sagði manni að þarna hefði nokkur maður búið í fimmtíu ár. Flagnandi röndótt veggfóður, rakablettir á gömlu spónagólfi. Eina vísbendingin um að eitthvað lifði þarna voru tómu mjólkurfernurnar; tugir, ef ekki hundruð Nýmjólkurferna sem lágu á víð og dreif um húsið.
Hann teygar síðasta dropann úr fernunni og lyngnir aftur augunum. Mjólkin hafði nært hann síðustu mánuði, eins og hún hafði jú nært Íslendinga um allar aldir. Hann hafði uppgötvað að hann þurfti ekkert annað; ekkert grænmeti eða ávexti, brauð eða pasta. Ekki einu sinni kjöt né fisk. Maasai-stríðsmenn Austur-Afríku nærðust varla á neinu nema mjólk – og hann var ekkert, ef ekki stríðsmaður.
BANK. BANK. BANK.
Hann hrekkur upp úr laktóstransinum. Hver gat þetta verið? Hver vissi að hann væri þarna? Hann hafði falið slóð sína svo vel.
Hann opnar útidyrnar varlega. Enginn. Ekkert. Bara myrkrið sem hjúpaði allt héraðið. Hann er við það að loka dyrunum aftur þegar hann tekur eftir litlum hvítum ferningi á dyramottunni; umslag. Ekkert skrifað á það, ekki einu sinni frímerki. Hann opnar það varlega, hálft í hvoru búinn undir að miltisbrandur sáldrist yfir hendurnar á honum.
En það sem kemur upp úr umslaginu er úrklippa úr dagblaði. Mynd af kunnuglegum andlitum fyrir framan Bessastaði. Fyrir ofan hana fyrirsögn í stórum stöfum: Ríkisstjórnin fallin.
Við úrklippuna er fest lítið handskrifað bréf. Það er ómerkt, en hann þekkti skriftina strax; Jóhannes Þór. Jóhannes minn.
„Manstu þegar ég sagði þér að nóttin er alltaf dimmust rétt fyrir dögun? Vaknaðu herra minn, það er kominn morgunn.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson strýkur yfir gráa skeggbroddana og brosir í fyrsta skipti í heilt ár.
„Ég er vaknaður.“