Hvernig sérð þú fyrir þér framtíðina? Þá meina ég myndrænt í hausnum á þér, sérðu fyrir þér dagana framundan í beinni línu eða fer vikan í hringi? Líður vikan frá vinstri til hægri eða staflast dagarnir upp? Hvað með mánuðina? Hjá sumum er janúar efst og desember neðst og árið líður niður. Aðrir sjá fyrir sér mánuðina eins og á klukku, t.d. að janúar byrji klukkan 12 og klukkan gengur ýmist afturábak eða áfram. Sumir sjá kannski fyrir sér perlufesti þar sem hver mánuður er ein perla. Einhverjir sjá dálka og raðir og enn aðrir skynja lyktir og litbrigði í takt við tímalínuna. Hvernig er þitt dagatal? Er það tvívítt eða þrívítt, svarthvítt eða í lit?
Í mínu tilviki líður tíminn frá irtsniv lit irgæh, sem mér hefur alltaf fundist spes þar sem ég lærði í skóla að lesa og skrifa frá vinstri til hægri. Þegar ég hugsa um fyrir viku síðan, fyrir mánuði, fyrir 10 árum, þá horfi ég til baka til hægri eftir tímalínu sem leiðir út í fjarlæga fortíð sem ég sé ekki hvar byrjar. Árin liggja á línunni eins og ílangar blokkir sem eru þrískiptar; vorönn, sumar og haustönn og svo get ég súmmað inn og út. Aldur í áratugum staflast á hinn bóginn upp hjá mér. Ég er núna að nálgast þriðju hæð, svo verð ég fertug og fimmtug og er bara á stanslausri uppleið þar til ég kemst upp á topp en þar bíður mín dauðinn. Ha. Hálfóþægilegt að dauðinn sé svona á toppnum. En vissulega smart að hætta á toppnum.
Að núinu. Hvað sérðu þegar þú hugsar um núið? Ég nefnilega sé það ekki fyrir mér á jafnmyndrænan hátt og fortíðina og framtíðina. Ég ímynda mér að sumir sjái það eins og litlu stikuna sem gengur frá vinstri til hægri yfir tímalínuna þegar vídjó spilast. Og í nútvitund á maður að reyna að dvelja í núinu, dvelja í litlu stikunni. Mátt hvorki dragast aftur úr né taka framúr. Hægara sagt en gert.
Upplifun okkar á tíma byggir fyrst og fremst á minninu og síðan hæfileikanum til að horfa fram í tímann. Og til þess að geta verið í núinu þarf maður eiginlega að reyna að afneita þessum þáttum. Frá þróunarfræðilegum sjónarhóli er í raun undarleg iðja að ætla sér að afneita, eða allavega sussa tímabundið á þessa sérhönnuðu og háþróuðu eiginleika okkar mannanna. Við sem erum ávextir milljóna ára náttúruvals, fjölmargar útgáfur af okkur hafa verið betrumbættar aftur og aftur. Og hér erum við, homo sapiens, gædd eiginleikanum til að muna, getunni til að læra af reynslunni og sköpunargáfu til að finna upp betri aðferðir til að beita í framtíðinni – til að lifa af. Sussa bara á það til að vera í núinu? Andsurvivalískt, svona þannig séð.
Annað sem er nauðsynlegt til að við skynjum tíma og það eru breytingar. Að dagur breytist í nótt, hárin gráni og grasið grói.Þessir tveir eiginleikar, að geta horft fram í tímann og minnið, eiga það sameiginlegt að vera huglæg fyrirbæri. Þetta eru sýnir sem eru hvergi til nema í huga þess sem hugsar eða man fram eða aftur í tímann. Annað sem er nauðsynlegt til að við skynjum tíma og það eru breytingar. Að dagur breytist í nótt, hárin gráni og grasið grói. Við þurfum að upplifa að allt breytist með tímanum og síðan notum við minnið til að bera saman fyrir og eftir. Ef við hefðum ekki minni og gætum ekki borið nútímann saman við fortíðina og upplifað breytingar, þá væri tími líklega ekki einu sinni hugmynd.
Oft held ég að tími sé bara eitthvað orð sem einhver fann upp yfir skynjun á breytingum sem aumingjans kynslóðirnar sem fylgdu hafi klórað sér í kollinum yfir og reynt að krakka að óþörfu. Skynjun sem kemur okkur jafnólíkt fyrir sjónir og við erum mörg. Semsagt skynjun, ekki dularfull vídd sem þarf að finna útúr með formúlum. Svo er auðvitað aldrei að vita nema að þessi skilningur minn breytist í framtíðinni og þá get ég rifjað upp hve vitlaus ég var núna.
En hættum nú að tala um tálsýnir og tölum um eitthvað sem skiptir máli, mál málanna. Það eru kosningar framundan í landi landanna, Íslandi. Mér finnst tilvalið að beita þróunarfræðilegu ávöxtunum í næstu kosningum. Ekki sussa á þá, allavega ekki rétt á meðan þú ert í kjörklefanum. Um að gera að nota minnið, getuna til að læra af reynslunni og sköpunargáfuna til að finna upp betri aðferðir til að beita í framtíðinni. Hvernig sérð þú fyrir þér framtíðina? Stefnir hún til hægri eða vinstri? Sérðu fyrir þér breytingar eða fer allt í eintóma hringi og endurtekningin er svo þrúgandi að það er nánast spennandi að sjá hvort hún virkilega endurtaki sig? Er hún blá eða græn, svört eða norðurljósaBjört?