Eins og vonandi flest ykkar vita hafa börn í Afríku það ekki mjög gott. En eitt hafa þau sem flestir af okkur Íslendingum hafa ekki mikið af: Það er þakklæti. Ég veit alveg að við Íslendingar getum verið mjög þakklátir en vitið þið afhverju ég tala um þetta við ykkur? Það er af því að sum börn og fullorðnir fá bara of mikið af því góða. Til dæmis eiga sum börn í Afríku ekki einu sinni fjölskyldu eða þak yfir höfuðið. Og þótt að maturinn í mötuneytum geti kannski verið viðbjóður þá myndu börnin í Afríku grátbiðja um matinn sem þið hendið í ruslið.
Þetta verðum við að stoppa og borða matinn okkar, enda matarsóun glötuð. Það eru til mjög góð góðgerðasamtök eins og til dæmis UNICEF og Rauði krossinn. Ef þú vilt hjálpa börnum í Afríku getur þú til dæmis haldið tombólu, verið þakklát/ur, sent Rauða krossinum föt sem þú ert hætt/ur að nota og síðan um hver jól er boðið upp á að taka þátt í Jól í skókassa sem virkar þannig að þú lætur eitthvað eins og til dæmis föt, tannbursta, blýant eða bara það sem gæti örugglega verið þörf á, og setur það í skókassa. Síðan mun gjöfin þín fara til barna sem virkilega þurfa á þessu að halda, til þeirra sem búa þar sem er stríð eða í flóttamannabúðum. Ég veit að þessi gjöf myndi gleðja og skemmta þeim svo rosa mikið.
Jafnrétti á milli kynjanna
Ég veit að jafnrétti á milli kynjanna er búið að lagast mjög í gegnum árin en ekki nóg. Stelpur hafa ekki fengið jafn mikil réttindi og strákar. Ég veit að það er skrítið en í sumum löndum mega stelpur/konur ekki ganga í skóla, keyra bíl og margt fleira. Og sumar stelpur eru látnar gifta sig þegar þær eru yngri en 18 ára! Er það ekki hræðilegt?
Margir spyrja sig hvernig er hægt að laga þetta? Ef að ég þyrfti að svara þessari spurningu myndi ég segja að konur/stelpur ættu að vera stærri hluti af samfélaginu. Ef að þið fylgdust með síðustu kosningum tókuð þið kannski eftir að það voru ekki mjög margar konur sem voru kosnar á Alþingi. Þess vegna eru sumir að hugsa um að halda sérstakar kvennakosningar. En það er ekki bara í kosningum sem ég ætla að tala um við ykkur því ég ætla líka að tala við ykkur um íslenska kvennalandsliðið. Ég hef farið á landsleiki hjá kvenna- og karlalandsliðinu nokkrum sinnum og ég hef séð mjög mikinn mun. Munurinn er sá að að hjá kvennalandsliðinu er næstum heil stúka og ókeypis inn en hjá karlalandsliðinu tvær troðfullar og kostar inn. Þannig að vonandi mun þetta lagast í gegnum árin eða allavega vonum það.
Mér finnst að öll börn ættu að fá að fara í skóla!
Í sumum löndum ganga börn ekki í skóla eins og til dæmis í löndum þar sem eru stríð og fátækt. Það er ekki nógu gott og verður að stoppa. Það er mjög mikilvægt að öll börn fái að ganga í skóla. Bæði er það mjög þarft fyrir framtíð þeirra, dagleg samskipti og til að læra móðurmálið sitt. Ég veit að það getur verið leiðinlegt í skólanum en á meðan þú segir bara „Oh, ég þarf að fara í skólann“ eru börn á sama tíma að grátbiðja um að fara í skóla.
Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur dagur barna haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gleðst yfir þeim mikla árangri sem náðst hefur við að bæta stöðu barna um allan heim en minnir um leið á að þrátt fyrir miklar framfarir þá eru réttindi barna víða brotin. Í dag ríkir til að mynda meiri óvissa um framtíð 180 milljóna barna heldur en ríkti um framtíð foreldra þeirra.
Yfirskrift alþjóðlegs átaks UNICEF á alþjóðlegum degi barna er #KidsTakeOver eða #börnfáorðið og eru ýmsar uppákomur skipulagðar um allan heim. Yfir 130 lönd taka þátt á átakinu og gefa börnum vettvang til að tjá sig um þau mál sem skipta þau máli og hafa áhrif á þau. Tilgangurinn er að minna á að börn eiga mikilvæga rödd í okkar samfélagi þennan dag og alla aðra daga og að þau skulu vera þátttakendur í ákvörðunum sem munu móta framtíð þeirra.