Þegar ég var lítil var mér sagt að passa mig á ákveðnum starfsmanni í barnaskólanum mínum. Hvað sem ég gerði átti ég alls ekki að þiggja að fara úr blautum fötum og setja á ofninn eftir frímó ef hann bauð mér upp á það. Sérstaklega ekki ef það var niðri í kjallara í stofunum þar. Eldri skólasystur mínar vöruðu mig við þessu. Því hann var víst algjör pervert. Ef ég sá hann á göngunum fékk ég sting í magann og hljóp í burtu. Ég var átta ára.
Nú, spólum svo fram í tímann, í gegnum menntaskóla- og háskólaárin og nokkra vinnustaði. Hvert sem ég fór þá dúkkaði „starfsmaðurinn úr barnaskólanum” upp í einhverri mynd og stundum í fleirtölu. Mættur á svæðið. Og olli óöryggi, niðurlægingu og ógn í einhverri mynd. Það ótrúlega er að mér fannst þetta vera normið. Því þetta er normið. Fyrir mér og öllum konum í kringum mig.
Karlar hafa fengið að vaða uppi með dólg, áreitni og ofbeldi í krafti valdastöðu sinnar í öllum kimum þjóðfélagsins í árþúsundir. Og jú jú, auðvitað voru og eru góðir karlar þarna líka og það í meirihluta, en vitiði hvað? Við erum ekki að tala um þá núna. Við erum að tala um hina. Og það þurfa allir að hlusta.
Við ykkur sem klórið ykkur í hausnum yfir #metoo umræðunni og teljið að hún sé „gengin allt of langt”, má ég góðfúslega biðja ykkur um að fjarlægja rembu- og fáfræði tappana úr eyrunum og hlusta vel: Ástæða þess að konur úr öllum áttum eru að taka höndum saman og opna sig um oft alveg ótrúlega sára og erfiða reynslu af áreitni og ofbeldi er sú að: Við. Erum. Búnar. Að. Fá. Nóg.
Þegar ALLAR konur sem ég þekki geta rifjað upp að minnsta kosti tíu ógeðsleg atvik þar sem þær hafa lent í mismunun vegna kynferðis á vinnustað, þurft að þola niðurlægjandi athugasemdir vegna kynferðis, orðið fyrir kynferðislegri áreitni bæði andlega og líkamlega, eða jafnvel skelfilegu kynferðislegu ofbeldi þá er ekki nema von að við séum komnar með effing nóg. Og ef maður pælir í því þá fengu konur líklega nóg fyrir árhundruðum. Með tilkomu samfélagslegra breytinga plús samfélagsmiðlana góðu er samstaðan bara miklu auðveldari akkúrat núna.
Talandi um samstöðu, maður sæll hvað ég get skilið að einhverjir karlar séu að míga á sig úr hræðslu þessa dagana yfir samstöðu kvenna. Sennilega sömu karlar og eru með frasann „konur eru konum verstar” skrifað í sandblásið gler í forstofunni heima hjá sér. Þessi frasi var alveg pottþétt saminn af karli sem óttaðist samstöðu kvenna frá því hann beitti konu í fyrsta skipti ofbeldi. Best að gera sitt til að sundra konum í ofanálag, hefur hann hugsað. En konur úr öllum áttum standa saman hvort sem ykkur líkar betur eða verr og smá newsflash hérna: Þær hafa alltaf gert það, skoðið bara söguna aular.
Heyrðu já, á meðan ég man: Margir flottastir mínir eru líka að spyrja hvort það sé nú eitthvað hæft í þessum „sögum” sem nú birtast í fjölmiðlum fyrst svona fáar konur kærðu þessi atvik á sínum tíma. Nú ætla ég bara að stafa þetta út fyrir ykkur svo lesið hægt: Konur hafa veigrað sér við því að tala um það ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir því sagan sýnir að þeim er gjarnan ekki trúað og dómskerfið hefur ekki beint verið uppörvandi í gegnum tíðina. Hentu svo inn ákveðnum valdastrúktúr og ótta við að missa lífsviðurværið og þú ert komin með ansi hreint djúsí uppskrift að þöggun.
Aðrir spyrja: „Má bara ekkert lengur?” Við þesssa dólga hef ég þetta að segja: Nei. Það bara má ekkert lengur, alla vega „ekkert” sem þú hefur í huga. Þetta er ósköp einfalt pervert: Ef þú þarft að spyrja og velta því fyrir þér hvað má og hvað má ekki þá eru góðar líkur á því að þú sért að fara að fara að bjóða annarri manneskju upp á eitthvað sem hún hefur nákvæmlega engan áhuga á að taka þátt í. Og það er ekki í boði. Fáðu effing já. Ef þú ert í minnsta vafa um að þú hafir samþykki fyrir hegðun þinni, þá er svarið nei. Það má ekkert lengur. Sættu þig við það.
Svo í lokin koma hér ókeypis ráð til allra perverta, rembusvína og ofbeldismanna: Hættið að vera fokking ógeð og fariði að koma fram við okkur af virðingu. Og þið hinir: Vinsamlegast hlustið á okkur og sýnið okkur þann skilning sem við eigum inni hjá alheiminum.
Þetta er búið að taka nokkur þúsund ár. Og nú er komið nóg. Við þegjum ekki lengur. Og heimurinn þarf að hlusta. #metoo #dólgarnirykkar