Ég er að eldast. Ekkert brjálæðislega samt, áður en ykkur fer að líða óþægilega. Mér er enn hleypt inn á Prikið og um daginn hélt vinkona dóttur minnar að við værum systur. Aha. Já ég veit.
En samt. Staðreyndin er sú að ég er að eldast. Það er augljóst út frá ýmsu. Fyrsta vísbendingin er fæðingardagurinn minn. Sé hann miðaður við daginn í dag og viðurkenndu talningakerfi æviára beitt á jöfnuna ber allt að sama brunni, ég eldist. Samkvæmt tölfræðinni er nú meirihluti mannkyns yngri en ég, sem tilheyri orðið öldruðum minnihlutahópi. Ákveðinn skellur það.
Önnur vísbending eru börnin mín. Ég fylgist með þeim stækka og breytast, þau virðast líka vera að eldast. Síðan koma allskyns fleiri vísbendingar, sumar augljósari en aðrar, nokkrar eru bara innra með mér. Ég lít öðruvísi út en áður en ég lenti í þessu, líkami minn hefur breyst, mér finnst sífellt meira gaman að fara ein í langar gönguferðir. Ég keypti mér ullarsokkabuxur í Janusbúðinni fyrir þessar gönguferðir mínar og þá sjaldan að ég nenni núorðið á djammið fer ég í þær. Það er svo slæmt að verða kalt á djamminu, nóg er nú samt. Að öllu þessu samanlögðu hlýt ég því að komast að þeirri einu rökréttu niðurstöðu; ég er sannarlega að eldast.
Auðvitað hefði ég mátt sjá þetta fyrir, maður heldur samt alltaf að þetta gerist bara fyrir einhverja aðra. Vinkonur mínar höfðu reyndar lent í þessu ein af annarri, mamma og amma líka svo þetta virðist vera í ættinni. Svo öll þessi afmæli, þótt nokkra síðari afmælisdaga hafi fólk séð sig knúið til að fullyrða að ég virðist í raun alls ekki vera að eldast. Slíkt blekkir bara, krakkar. Ég hefði náttúrulega átt að leggja saman tvo og þrjá og svo þrjátíu en svona getur maður verið blindur. Þetta er hið leiðinlegasta mál en við fjölskyldan reynum að hugsa ekki of mikið um þetta, halda bara áfram daglegu lífi.
Í fjölskylduboði forðum heyrði ég, barnung, tvær frænkur pískra um þá þriðju. Sú hafði víst ekki sést í dágóðan tíma. Frænkunum var mikið niðri fyrir. ,,Sástu Eydísi?" hvíslaði önnur. ,,Já almáttugur, það er aldeilis sem hún hefur elst!" Það hryglaði í hinni af hneykslun. ,,Hvað er langt síðan síðast, fimm ár?" Ég stóð hrelld hjá, miður mín yfir þessu með Eydísi og vonaði heitt og innilega að ég slyppi við þessi ósköp, að eldast. Það hljómaði hræðilega. Seinna leitaði ég vesalings öldruðu Eydísi uppi, skoðaði hana laumulega í krók og kima og sá raunar ekkert ófreskt við hana. Hún var bara venjuleg kona, eins og mamma. Ég mundi samt ekki fimm ár aftur í tímann, kannski hafði umrædd Eydís fermst fimm árum áður.
Trúlegra er þó að eftirfarandi hafi gerst: Eydís hafði lifað í fimm ár frá því að frænkufíflin sáu hana síðast. Hún dó ekki á þessum tíma heldur lifði árin af. Það er nefnilega bara tvennt í stöðunni; að hætta að lifa og eldast þá ekkert meir, eða að eldast. Auðvitað var þó meiningin sú að Eydís hafði framið þá höfuðsynd kvenna að lifa árin af OG bera þess einhver merki. Hún hafði ekki frosið í tíma, árin sáust á henni. Breyting hafði átt sér stað, öldrun. Ugh.
Í flestu þykja breytingar af hinu góða. Samfélagið breytist, tæknin líka, vísindin, við öll. Framfarir, þróun. Reynsla, þekking. Allt krefst þetta tíma, hann þarf að líða. Við viljum að hann líði. Stöðnun er neikvæð, andstæðan við breytingar. Þetta virðist eiga við um allt nema líkamlegt ástand okkar, sérstaklega kvenna. Heil síða á mbl.is er tileinkuð lofsöng til kvenna sem ekki virðast eldast og heillaráðum til okkar hinna um hvernig feta skuli í fótspor þessara hetja. Hvað svo sem kvenskepnunni tekst að afreka í veröldinni toppar ennþá ekkert það allra merkasta, að eldast ekki. Enginn nennir líka eldri konum, þær verða ósýnilegar upp úr fimmtugu nema með umtalsverðri aðstoð og inngripi. Og jafnvel þá hlæjum við að þeim.
Allt snýst þetta jú á endanum um endann. Við hræðumst þá óbærilegu tilhugsun að við sjálf endum. Hvernig má vera að ég, sjálfskipuð miðja míns eigins alheims, líði að lokum undir lok? Við leggjum okkur á ýmsan hátt niður til að forðast þann veruleika. Dauðahræðslan er í öllu, alls staðar. Hún er í rándýra næturkreminu sem við smyrjum okkur, í hverfulu augnaráði miðaldra eiginmannsins sem leitar á ung og ókrumpuð mið, í nýja bílnum sem við höfum ekki efni á og hressa einkaþjálfaranum sem við í rauninni hötum. Þessi sammannlegi ótti er svo virkjaður af illviljuðum auðvaldsöflum, æskublóminn er tappaður á hina ýmsu tanka og seldur í öllum betri apótekum. Reynsla og þekking er góð og blessuð ef borin fram af þrýstnum vörum í hrukkulausu andliti.
Endalok eru samt bæði næs og nauðsynleg. Of löng bók er óþolandi. Hugsið ykkur hvað Lost hefðu getað verið mikil snilld ef þeir hefðu bara sætt sig við eigin endalok eftir fyrstu seríuna. Allt umfram var bara pirrandi þvæla. Að eldast vel þýðir ekki að frjósa í tíma og afneita árunum, það þýðir að fagna breytingum, læra og vaxa og loka síðan bókinni sátt í sinni og krumpuðu skinni.
Svo er líka bara mjög sexí að eldast. Janusbuxurnar fara alltaf heim með þeim heitasta í bænum og fá aldrei blöðrubólgu. Já ég veit.