Auglýsing

Hefurðu boðið sjálfum þér á stefnumót nýlega? Svona alvöru stefnumót: Fara út að borða eða kannski á gott kaffihús, rölta um bæinn, kíkja í búðir eða keyra stefnulaust um með engan annan félagsskap en bragðaref og fm957. Ég held að almennt séð sé fólk ekki nógu duglegt að dekra við sig sjálft, finnist það hreinlega hálf óþægilegt og sjálfselskt. Ekkert mál að fara á kaffihús að hitta vinkonurnar en að splæsa í einn tvöfaldan mocha matcha chai latte með sykurlausu sírópskoti handa sjálfum sér? Það er bara óþarfi. Það er til Merrild heima. En þessar litlu stundir með okkur sjálfum eru ómetanlegar, jafnvel þó að kaffibollinn sé þrisvar sinnum verri á bragðið en hann kostaði.

Ég er aðallega að pæla í þessu núna því ég er einnig á fullu að velta rómantík og ást fyrir mér þessa dagana. Ekki það að einhver sérstakur hafi valsað inn í líf mitt veifandi rósum og konfekti, ég er bara einmana. Og nú hefur þú kæri lesandi örugglega hugsað með þér: „æi,“ og fengið smá kjánahroll í leiðinni. Því það að vera einmana er algjört nei-nei. Ekkert drepur lífs-bóner annarra en að viðurkenna fyrir manni sjálfum og öðrum að maður sé a) einn, og mikilvægara, b) vilji ekki vera það lengur.

Því einvera í sjálfri sér er unaðsleg, eins og þessi litlu sjálfs-stefnumót benda til. Að taka sér algjört bessaleyfi til að gera nákvæmlega það sem manni sjálfum sýnist, þurfa ekki að miðla neinum málum og geta ráðið ferðinni í smáatriðum. Þess háttar frelsi fýkur út um gluggann þegar einhver annar er kominn inn í myndina. Tala nú ekki um ef þú ert í þessum kauptu einn, fáðu þrjá fría pakka, þ.e. að þú eigir fjölskyldu. „Kósíkvöld“ er grátbroslegt orð, enda felur bara valið á bíómynd kvöldsins í sér stress sem jafnast á við heila vinnuviku. Væri miklu auðveldara að velja bara sjálfur kvikmynd kvöldsins, en þá missirðu kannski af ánægjunni sem fylgir því að vera umvafinn fólki sem þér þykir vænt um. Kostir og gallar.

Auglýsing

Það er því tiltölulega augljóst að það að vera einn er allt í lagi. En hvað um að vera einn þegar maður vill ekki vera það? Þá er önnur breyta komin inn í myndina sem snýr henni svolítið á hvolf. Í raun og veru væri hægt að breyta hverju sem er, góðu eða illu, í verri útgáfu af sjálfu sér með því að bæta við að maður vilji ekki vera þannig. Rússíbanar eru æði! –Nema ef þú vilt ekki vera í þeim. Þá eru þeir ekkert næs lengur. En ólíkt rússíbönum er einhleypa nánast alltaf neikvæð. Ef þú fílar ekki rússíbana, eins og ég, þá er það í raun ekkert stórmál. Fólki er flestu sama. En ef þú ert einhleyp, eins og ég, þá fara allir að vorkenna þér. Matarboð verða yfirheyrslur, árshátíðin veldur meiri kvíða en lokaprófin og velentínusardagurinn verður að afsökun til að horfa á hrottalegar hryllingsmyndir og þamba rauðvín (mæli ekki með, martraðir og þynnka).

Ég held að það væri hægt að laga þessa ímynd af einhleypu ef við værum bara duglegri að líta á það að vera ein sem eitthvað fallegt og ljúft. Frí frá öðru fólki, frí frá verkefnum og vandamálum, sjálfsást út í eitt bara, án þess samt að það fari út í öfgar. Ég ætla ekki að arka um bæinn þveran og endilangan, öskrandi á þá sem eru með giftingarhring og grýta öll pör sem ég sé með fyrirfram pökkuðum hundakúk í bréfpokum. Því ég vil alveg vera memm. Ég er tuttugu og fjögurra ára gömul og farin að langa í eitthvað „alvöru“. Ég hef bara þroskast, fæ mér meira að segja ólífur á pizzuna mína viljandi. Ég er samt ekki farin yfir strikið, daðra bara við það. Stend fyrir utan Name It í Kringlunni og dáist að barnafötunum en þori ekki inn. Stundum kaupi ég sokka fyrir hvítvoðunga og reyni að troða kettinum mínum í þá en það er bara ekki það sama...

Vandamálið við þessa sjálfsuppgötvun mína er að ég dauðskammast mín fyrir hana. Hvað er ég að pæla að opna mig svona og vera viðkvæm á almannafæri? Ef ég segi upphátt að ég sé einmana og vilji byrja með einhverjum er ég bara að auglýsa örvæntingu mína og þráhyggju. Það er ekki kúl að vera einmana, oj bara. Hver vill svoleiðis týpu? Maður væri ekkert að flagga því á Facebook. Sem er annað vandamál í sjálfu sér. Við sjáum bara glansandi útgáfur af öllum í kringum okkur: Facebook, Instagram, Snapchat, Tinder, allir í sjöunda himni gubbandi gleði yfir okkur hin sem hlekkjuð erum við jörðina. Sem þau sjálf eru örugglega líka. Hey, ekkert að því að fagna frábærlegheitunum, en við megum ekki gleyma því að viðurkenna vondar tilfinningar líka.

Það er allt í lagi að vera ekki í lagi. Að hafa ekki allt – og að vanta eitthvað, það gerir þig ekki despó. Treystu klikkuðu kattakonunni sem skrifaði þennan pistil. Ef allt annað bregst er líka bara hægt að smella íslenska mottóinu á sig eins og plástri; Þetta reddast. Einn dag í einu, eitt skref í einu, eitt tinder svæp í einu. Ástin er þarna úti, en hún er líka hérna inni. Bjóddu sjálfum þér á deit, þú ert catch og átt það skilið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiKjaftæði