Árið 2013 skrifaði ég m.a. eftirfarandi í grein í Kjarnann: „Árið 2013 hefði að öllu eðlilegu átt að vera ár uppgjörs í íslenskum stjórnmálum. Kosningarnar síðastliðið vor hefðu átt að snúast um pólitísk stefnumál stjórnmálaflokka og mótun þjóðfélags til framtíðar. Þjóðfélags sem enn var í sárum eftir efnahagslegt, pólitískt og siðferðilegt hrun sem á sér ekki hliðstæðu í vestrænu lýðræðisríki á síðari tímum. Við hefðum átt að rökræða um ólíka lífssýn okkar allra og kjósa um stefnu út frá því. En það gerðist ekki. Þvert á móti tókst stjórnmálamönnum að koma í veg fyrir eðlilega, heilbrigða og nauðsynlega rökræðu, rétt eins og þeim tókst það árin þar á undan. Meginmálið varð að fótnótu og lýðskrumið að aðalatriðum. Kosningarnar snerust á endanum um fullkomlega óraunhæf loforð sem áttu engan sinn líka í sögu þessarar þjóðar. Eftir sitjum við öll vígmóð og undrandi á því hvernig þetta gat farið með þeim hætti sem varð.“
Björn Valur Gíslason
Allt reyndist þetta satt og rétt, hvergi of né van.
Upplausn og óreiða
Upplausn og óreiða er eðlilegt framhald af lýðskrumi og loddaraskap. Ísland er engin undantekning á því eins og árið 2014 vitnar svo sorglega um. Árið sem er að líða er fyrsta heila ár ríkisstjórnar hægriflokkanna. Og undir lok þess árs ríkir meiri upplausn og óreiða í íslensku samfélagi en gert hefur frá Hruni. Hvert óheillamálið hefur rekið annað í fjölmiðlum og mörg þeirra risavaxin. Ráðherra hrökklaðist úr starfi vegna spillingarmála. Læknar eiga í harðri kjaradeilu við stjórnvöld vegna svikinna loforða og versnandi kjara með tilheyrandi verkfallsaðgerðum. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi var neikvæður sem vekur upp ótta um framtíðarhorfur en spár gerðu ráð fyrir þriggja prósenta hagvexti á árinu.
Stéttarfélögin boða til harðra aðgerða í byrjun næsta árs eftir að hafa verið svikin í kjölfar kjarasamninga sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði við lok síðasta árs. Sátt um hóflegar launahækkanir var rofin með því að toppar samfélagsins tóku til sín það svigrúm sem skapaðist við að lág- og millitekjuhópur gættu hófs. Til viðbótar voru skattar á ríka, skattar á fyrirtæki ýmist felldir niður eða lækkaðir um milljarða. Þingmenn stjórnarliða hafa skerpt enn frekar á brauðmolahagfræðinni og telja hag almennings best borgið með því að geta keypt notað dót af hinum efnameiri. Kjarabótin felst í að kaupa notaða ísskápa af toppunum.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki með góðu móti svarað fyrir áhrifin af 80 milljarða króna gjöf úr ríkissjóði til minnihluta þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin hefur uppi ómarkviss og óljós áform upp flutning stofnana um landið þvert og endilangt, mest þó til Skagafjarðar. Boðuð er lagabreyting til að auðvelda ráðherrum að flytja fólk og stofnanir og starfsfólk á milli stofnana. Forystufólk ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi boðar lagabreytingar sem auðvelda eigi að reka fólk úr störfum. Og þá hafa þingmenn ríkisstjórnarinnar verið staðnir að því að ganga erinda fyrirtækja sem kostuðu þá til þings.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki með góðu móti svarað fyrir áhrifin af 80 milljarða króna gjöf úr ríkissjóði til minnihluta þjóðarinnar. Hæstu upphæðir þess gjafagjörnings fóru einnig til toppanna, þeirra sem er ætlað að sáldra brauðmolunum til okkar hinna.
Og nú undir jól tilkynnti breska fjármálaráðuneytið að stærstur hluti Icesave reikningsins hafi verið greiddur og nú algjörlega án aðkomu þings og þjóðar að þessu sinni. Loddararnir sem höfðu sem hæst um það mál á síðasta kjörtímabili möndla nú einir með það sín á milli án aðkomu þings og þjóðar.
Jólakveðja ríkisstjórnarliðsins
Á síðustu dögum þingsins gekk svo þingmeirihluti hægrimanna enn lengra í aðgerðum sínum gegn almenningi en óttast var. Þá hækkuðu þau skatt á mat, bækur og menningu um 60 prósent. Einnig voru réttindi atvinnulausra verulega skert frá því sem var, þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Þá stóð meirihlutinn við ítrekaðar hótanir sínar gagnvart RÚV. Niðurskurðurinn á RÚV var vegna þess að stofnunin sagði ekki stöðugar fréttir af afrekum leiðtoganna. Skattlagning á mat og bækur dugði ekki og boðað var frumvarp um skattlagningu á fólk fyrir að skoða náttúru landsins. Samt dugði þessi skattlagning ekki til að lækka lyfjakostnað eða auka við almannatryggingar. Skattlagningin dugði heldur ekki til að bjóða fólki eldra en 25 ára í nám í framhaldsskólum.
Óverðskuldað
Það er stundum sagt í kaldhæðni að þjóðin eigi skilið það sem hún fær í kjölfar kosninga. Engin þjóð á þó skilið það sem íslenska þjóðin hefur mátt búa við frá vorinu 2013. Aukin misskipting og ójöfnuður er versta afleiðing af stjórnarstefnu sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Misskipting gæða, tekna og aðgangs að mennta- og velferðarkerfi mun alltaf leiða til ills. Ísland verður engin undantekning á því. Í stað þess að nýta tækifærin sem Ísland stendur frammi fyrir eru þau brennd á báli úreltrar og löngu fallinnar hugmyndafræði. Í stað þess að sýna auðmýkt gagnvart verkefnum framtíðarinnar er forystufólk ríkisstjórnarinnar uppfullt af hroka og yfirlæti gagnvart þeim sem leyfa sér að gagnrýna og rökræða. Það á við um almenning en ekki síður um frjálsa fjölmiðlun og gagnrýnan fréttaflutning sem stjórnarliðar virðast hafa megnustu óbeit á.
Það er því miður fátt sem bendir til þess að næsta ár verði betra á sviði stjórnmálanna en árið 2014 hefur verið.
Ár upplausnar og óreiðu.
Ég óska lesendum ög landsmönnum öllu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Höfundur er varaformaður Vinstri grænna.