Arion banki greindi frá því í dag að bankinn hefði verið valinn banki ársins á Íslandi árið 2015 af tímaritinu The Banker, sem er gefið út af Financial Times. Þar með endurheimti Arion banki þann titil frá Íslandsbanka sem hlaut hann árið 2014, en Arion banki hafði hirt hann árið 2013. Þá ákvað bankinn að gefa öllum starfsmönnum sínum 125 þúsund krónur í bónusgreiðslur fyrir jólin og 30 þúsund króna gjafakort sem gilti í öllum verslunum auk gjafakörfu sem metin var á nokkra tugi þúsunda króna. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá því snemma í desember hefur engin ákvörðun verið tekin um greiðslu jólabónusa í Arion banka enn sem sem komið er.
Þetta eru ekki einu verðlaunin sem íslenskir bankar fá fyrir að vera bestir. Tímaritið Euromoney verðlaunar þá líka og þar hefur Íslandsbanki unnið verðlaun fyrir að vera besti banki á Íslandi þrjú ár í röð.
Landsbankinn þarf ekki að örvænta þótt þessi tvö alþjóðlegu tímarit hafi sniðgengið bankann á undanförnum árum í keppninni um að vera bestur. Hann hefur nefnilega fengið verðlaun frá timaritinu Global Finance Magazine undanfarin tvö ár fyrir að vera besti banki á Íslandi.
Vert er að taka fram að sækja þarf um að taka þátt í öllum þessum verðlaunum. Því senda íslensku viðskiptabankarnir þrír, sem voru allir endurreistir með skattfé og innstæðum Íslendinga á grunni gjaldþrota banka, fengu eignir sínar og samanlagt yfir 90 prósent markaðshlutdeild í vöggugjöf, starfa innan fjármagnshafta á einum mesta fákeppnismarkaði sem fyrirfinnst í veröldinni og eru nánast einvörðungu með innlenda starfsemi, allir inn umsóknir til erlendra tímarita og föluðust eftir því að vera valdir besti bankinn á Íslandi.
Og allir unnu. Hamingjuóskir úr bakherberginu.