Ýjað hefur verið að því að framundan séu breytingar á ríkisstjórn Íslands. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í útvarpsviðtali í október að honum þætti vel koma til greina að hreyfa til, bæði á milli flokkanna sem skipa ríkisstjórnina og innan hennar. Bjarni lagði þó áherslu á að það yrði að gerast á næstu mánuðum svo nýir ráðherrar væru ekki að taka að sér ný verkefni þegar of stutt yrði til kosninga, sem verða eftir rúma 16 mánuði.
Margir túlkuðu orð Bjarna þannig að leiðtogar ríkisstjórnarinnar, hann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, myndu hafa sætaskipti. Bjarni yrði þá forsætisráðherra síðasta spöl kjörtímabilsins og Sigmundur Davíð fjármála- og efnahagsráðherra. Krafa þess efnis að Bjarni myndi taka við leiðtogataumunum í ríkisstjórninni fékk stoð í skoðanakönnunum sem sýna að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú mun meira en fylgi Framsóknarflokksins, eða rúmlega tvisvar sinnum hærra.
Sigmundur Davíð var hins vegar fljótur að slá á allar slíkar bollaleggingar þegar hann mætti sjálfur í viðtal til að ræða mögulegar ráðherrabreytingar. Sigmundur Davíð tók þá sérstaklega fram að hann og Bjarni væru ekki að fara að skipta um sæti.
Tvær breytingar hafa verið gerðar á ráðherraskipan það sem af er yfirstandandi kjörtímabili Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra undir lok árs 2014 og Ólöf Nordal, sem hafði stígið út af hinu pólitíska sviði fyrir þingkosningarnar 2013, tók við af henni. Þá var Sigrún Magnúsdóttir gerð að umhverfis- og auðlindarráðherra þann 30. desember 2014 þegar ráðherrum var fjölgað um einn.
Ef ráðast á í breytingar verður að teljast líklegt að þær verði kynntar á ríkisráðsfundi um áramót, líkt og var gert þegar Sigrún tók við sínu embætti. Síðasta ríkisstjórn notaði einnig þann tímapunkt í lok árs 2011 til að skipta Jóni Bjarnasyni og Árna Páli Árnasyni út.
Athyglisvert verður að sjá í hvaða breytingar verði á ríkisstjórninni ef af verður. Í bakherberginu virðast flestir sammála um að nýir ráðherrar verði að vera konur, enda hallar á þær eins og er. Þeir ráðherrar sem hljóti að vera í mestri hættu um að missa sitt starf eru Eygló Harðardóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem stýra báðar afar mikilvægum málaflokkum en hafa lent í miklum erfiðleikum með að koma stærstu málum sínum í gegnum ríkisstjórn. Framsóknarmegin er nafn Þórunnar Egilsdóttur oftast nefnt þegar rætt er um nýtt ráðherraefni, þar sem flokkurinn treystir sér ekki í að setja umdeildasta þingmann þjóðarinnar, Vigdísi Hauksdóttur, í ráðherrastól.
Hjá Sjálfstæðisflokknum virðist valið standa á milli Unnar Bráar Konráðsdóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Ljóst er að báðar yrðu umdeildar innan flokks, Unnur Brá vegna stuðnings við kynjakvóta og breyttar áherslur í flóttamannastefnu og Ragnheiður vegna langvarandi stuðnings við Evrópusambandsaðild sem hugnast haukum innan flokksins afar illa.
Þá telja spekúlantar að Gunnar Bragi Sveinsson gæti verið færður til, bæði vegna andstöðu sinnar við endurskoðun á stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi - sem útgerðarmenn og ýmsir ráðherrar þrýsta mjög á að verði dreginn til baka -og til að færa hann í verkefni innanlands síðustu misserin fyrir kosningar til að tryggja áframhaldandi gott fylgi Framsóknar í kjördæmi hans. Ýmsir telja það geta verið klókt að færa Illuga Gunnarsson í utanríkisráðuneytið. Hann er afar veikur sem stendur vegna Orku Energy-málsins og RÚV-frumvarpsins sem hann þurfti að draga til baka. Með því að draga stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, og þannig opnað markaðsaðgang útgerðarinnar inn á Rússamarkað að nýju, gæti Illugi að minnsta kosti styrkt stöðu sína gagnvart áhrifaöflum í Sjálfstæðisflokknum, þótt að líklega yrði sú ákvörðun ekki til að afla skammtímavinsælda út á við.