Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, skrifaði færslu á Facebook í gærkvöldi sem vakti mikla athygli. Þar birti Sindri mynd af kvittun sem hann fékk þegar eftir að hafa keypt annars vegar lítra af mjólk og hins vegar lítra af átöppuðu íslensku vatni í sumarlok. Líkast til kemur það fæstum á óvart að vatnið var dýrara. Flaskan af því kostaði 165 krónur á meðan að mjólkurlítrinn kostaði 142 krónur.
Sindri segir að menn líti allt of oft framhjá „þeirri staðreynd að stærstur hluti stuðnings við landbúnað er til að greiða niður búvörur til neytenda. Í umræðunni virðist það oft vera þannig að með stuðningi við bændur sé verið að rétta bændum einhverja dúsu[...]Það verður því ekki dregið í efa að framleiðsla á einum lítra af mjólk kostar talsvert meiri vinnu og fyrirhöfn en að tappa einum lítra af vatni á flösku.Einhverjir kynnu að velta því fyrir sér hvort sinna þurfi átöppun vatns alla daga ársins, hvort sem er á aðfangadagskvöldi eða að morgni nýjársdags?“
Hughrifin sem reynt er að skapast eru þau að mjólk sé ódýr hérlendis vegna þess að átappað vatn í sama magni er dýrara í verslunum landsins. Það er þó verulega skakkt að bera saman þessar tvær vörur til að komast að þessarri niðurstöður.
Í fyrsta lagi hlýtur að vera lang best að bera saman verð á mjólk og mjólk þegar meta á hvort hún sé ódýr hérlendis. Það gerði til dæmis Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem gerði skýrslu um mjólkurframleiðslu á Íslandi og birti í júní í fyrra. Samkvæmt skýrslunni borgað Íslendingar rúmlega níu milljörðum króna meira fyrir mjólkurvörur en við þurfum að gera. Í stað þess að borga 6,5 milljarða króna fyrir innflutta mjólk, að teknu tilliti til flutningsgjalda, þá borgum við 15,5 milljarða króna á ári fyrir íslenska mjólk. Átta milljarðar króna af þessari viðbótargreiðslu er tilkomin vegna þess að íslenska mjólkin er einfaldlega miklu dýrari í framleiðslu í því kerfi sem við erum með en í þeim löndum sem við gætum flutt hana inn frá. Auk þess framleiðir mjólkurframleiðslukerfi Íslands meiri mjólk fyrir innanlandsmarkað en við þurfum. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostar neytendur og ríkið því milljarð króna til viðbótar á ári.
Samtals greiðir hver Íslendingur, en við erum um 329 þúsund talsins, 27.347 krónur á ári til viðbótar við það sem hann greiðir fyrir mjólk út í búð, fyrir að hún komi úr íslenskum kúm.
Í öðru lagi þá þurfa Íslendingar ekki að kaupa átappað vatn. Þeir hafa aðgang að því án endurgjalds í krönum sínum og hafa þar með sannarlega val.Því er ekki að skipta þegar kemur að mjólkurkaupum. Þá er einungis hægt að versla við íslenska mjólkurframleiðslukerfið.
Að bera saman vatn og mjólk, líkt og Sindri gerir, er því sannarlega eins og að bera saman epli og appelsínur.