Í mars 2015 var Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, gestur þáttarins Viðtalið á RÚV. Þar ræddi hann meðal annars þann lærdóm sem draga mætti af lekamálinu svokallaða. Þar sagði Tryggvi að það hefðu „orðið ákveðin kynslóðaskipti varðandi þá sem hafa komið til starfa sem ráðherrar - og ekki bara hér á landi[...]Þarna kemur til starfa fólk sem hefur ekki það sem ég kalla mikla samfélagsreynslu. Það hefur ekki verulega reynslu af þingstörfum, ekki af þessum samskiptum að koma málum í gegnum stjórnsýsluna, það hefur oft á tíðum ekki mikla reynslu úr atvinnulífinu, það hefur kannski fyrst og fremst reynslu úr pólitískum störfum fyrir stjórnmálaflokkana.“
Tryggvi sagði enn fremur að búa yrði ráðherrum betri aðstöðu til að sinna störfum sínum og að í þau viðfangsefni ættu þeir að fá „einhverja aðstoðarmenn eða sérfræðinga, sem fylgja þeim". Slíkir aðstoðarmenn, sem væru trúnaðarmenn ráðherranna, gætu veitt þeim hlutlausa ráðgjöf í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.„Af því að við göngum út frá því að við ætlum að hafa lýðræði hér, við ætlum að hafa kjörna fulltrúa, og við ætlum að hafa þessa stjórnsýslu sem starfar í þágu okkar, þá verðum við einhvern veginn að finna leiðir til að hún geti gengið, og til að þessir kjörnu fulltrúar hafi sem best tækifæri til að sinna þessum störfum.“
Semsagt, að mati Tryggva þurfa ráðherrar landsins reynda ráðgjafa til að vega upp á móti reynsluleysi sínu.
Síðan að Tryggvi opinberaði þessa skoðun sína hafa nokkrir aðstoðarmenn verið ráðnir til starfa hjá íslenskum ráðherrum.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, réð t.d. hinn 27 ára gamla Jóhannes Stefánsson, sem útskrifaðist sem lögfræðingur árið 2014 og hefur starfað í fjölmiðlum. Jóhannes var formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, frá 2011 til 2013 og sat í aðalstjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna árið 2011 til 2013.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, réð Ágúst Bjarna Garðarsson, sem er 28 ára gamall stjórnmálafræðingur með meistarapróf í verkefnastjórnun frá HR, sem hann lauk í fyrra.
Og þá fór líkast til vart framhjá neinum að Gauti Geirsson, 22 ára gamall, var ráðinn í hálft starf sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra í liðinni viku. Þar fær hann sambærileg laun, fyrir hálft starf, og sérfræðingar innan ráðuneytisins fá í grunnlaun. Gauti er nemi í HR þar sem hann lærir rekstrarverkfræði, hefur starfað sem háseti og vélstjóri á togara og farþegaskipum og var kosningastjóri hjá Framsóknarflokknum á Ísafirði í síðustu kosningum. Hann er einnig formaður Félags ungra framsóknarmanna á norðanverðum Vestfjörðum og ritari Félags ungra framsóknarmanna.
Það verður seint sagt að ofangreindir aðstoðarmenn séu samkvæmt þeirri forskrift sem umboðsmaður Alþingis kallaði eftir. Enginn þeirra er reynslumikill, með mikla þekkingu á þeim málaflokkum sem þeir starfa að en virðast flestir eiga það sameiginlegt að hafa „reynslu úr pólitískum störfum fyrir stjórnmálaflokkana.“ Þ.e. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.