ViðskiptaMogginn birti í morgun lista yfir þau fyrirtæki sem voru á lista
Arion banka sem ýmsir hafa kallað „dauðalistann“ í umræðunni á undanförnum
árum. Lán fyrirtækjanna, sem voru 40 talsins, voru færð til Arion banka á mjög
lágu verði. Þegar bankinn var afhentur kröfuhöfum gamla Kaupþings árið 2009 var
samið um að þau yrðu afmörkuð (e. ring-fenced) þannig að 80 prósent af viðbótainnheimtu
lánanna myndi renna til slitabú Kaupþings en 20 prósent til Arion banka.
Á listanum sem birtur var í ViðskiptaMogganum kemur fram að um m.a. sé að ræða lán til fyrrum móðurfélags Íslenskra aðalverktaka, félaga tengdum Exista, félög tengdum Gaumi (m.a. 1998, Baugur og Hagar), lán til Giftar, Kjalars (í eigu Ólafs Ólafssonar), Samson (í eigu Björgólfsfeðga), Landic Property, FL Group/Stoða, Samherja, Sund, Norvikur-samstæðunnar, Sunds, Vifilsfells og Össurar. Með öðrum orðum er um að ræða stærstu innlendu skuldara Kaupþings fyrir hrun.
„Dauðalistinn“ er hugtak sem fyrst skaut upp kollinum í fjölmiðlum þegar Víglundur Þorsteinsson hélt ítrekaða blaðamannafundi þar sem hann hélt því fram að harðar hafi verið gengið fram gegn honum en öðrum skuldurum Arion banka, en fyrirtæki Víglundar, BM Vallá, var eitt þeirra sem var afmarkað í skilasamkomulagi slitabús Kaupþings og ríkisins vegna Arion banka. Víglundur sagði að „dauðalistinn“ væri listi yfir lífvænleg fyrirtæki sem Arion banki hefði, af óbilgirni, tekið af eigendum sínum. BM Vallá var úrskurðað gjaldþrota í maí 2010. Skuldir þess þá voru um tíu milljarðar króna og eigið féð neikvætt um 2,5 milljarða króna. Stjórnendur fyrirtækisins höfðu lagt fram endurreisnarhugmynd sem í fólu í sér að lánastofnanir ættu að afskrifa 4.725 milljónir króna af skuldum félagsins auk þess sem gefin yrðu út 2,6 milljarðar króna af nýjum skuldabréfum, sem Arion banki og lífeyrissjóðir áttu að kaupa til að tryggja BM Vallá lausafé. En af óbilgirni hafnaði Arion banki þessu kostaboði.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi 365 miðla og núverandi eiginmaður aðaleiganda 365 miðla, tók undir með Víglundi í aðsendri grein í Fréttablaðinu 1. september 2012. Þar sagði hann að fjölskylda hans hefði misst smásölurisann Haga vegna þess að þau hafi verið á listanum. Gjaldþrot Baugs, helsta fjárfestingabatterís Jóns Ásgeirs, er eitt stærsta gjaldþrot einkafyrirtækis í Íslandssögunni. Lýstar kröfur í búið voru um 400 milljarðar króna og samþykktar kröfur námu um 240 milljörðum króna. Af þeim fengust sjö milljarðar króna, eða 2,9 prósent af samþykktum kröfum, greiddar. Félagið 1998 ehf., sem átti Haga, skuldaði á sjötta tug milljarða króna í lok árs 2010.
Þótt að „dauðalistinn“ hljómi spennandi sem hugtak þá er ekkert nýtt við þann lista sem ViðskiptaMogginn birti í morgun né hefur leynd hvílt yfir því hvaða fyrirtæki voru á honum. Í lánabók Kaupþings, sem Wikileaks lak á sínum tíma, og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingi, sem er aðgengileg öllum á netinu, er hægt að nálgast þessar upplýsingar. Þar eru birt yfirlit yfir stærstu skuldara Kaupþings sem allir rötuðu síðan á þennan lista, vegna þess að ómögulegt var að átta sig á hversu mikið af lánum þeirra myndu innheimtast þegar Arion banka var skilað til kröfuhafa árið 2009.
Það er einnig hægt að lesa um listann í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu mála á Íslandi frá því síðla árs 2009 og í efnahagsreikningum Arion banka. Sambærilegt samkomulag var við lýði í báðum hinum nýju bönkunum, þótt munur hafi verið á útfærslum.