Ætlaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna, upp á tæpa tíu milljarða króna, hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarna daganna. Þær hafa verið gagnrýndar mjög, sérstaklega í ljósi þess að iðgjöld tryggingataka hafa verið hækkuð undanfarin misseri. Gagnrýnin hófst hjá reiðum almenningi á samfélagsmiðlum í kjölfar frétta fjölmiðla af arðgreiðslunum og Félagi íslenska bifreiðaeigenda (FÍB) sem hefur sagt fyrirtækin mergsjúga almenning með blessun Fjármálaeftirlitsins.
Arðgreiðslurnar urðu svo hápólitískar í gær þegar efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ákvað að fjalla sérstaklega um þær á fundi sínum og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði þær óskiljanlegar. Á Alþingi sagði Bjarni: „Tryggingafélögin eru undir sömu sök seld eins og önnur atvinnustarfsemi á landinu þegar kemur að því að taka þátt í því með okkur, þinginu, vinnumarkaðnum í heild sinni, sveitarfélögunum, ríkisvaldinu, að endurheimta traust sem rofnaði hér á árunum 2008 og 2009 vegna hruns á fjármálamarkaði. Maður kallar einfaldlega eftir því að tillögur sem þaðan berast um rekstraráform, um það hvernig ráðstöfun hagnaðar eða eigna fer fram, séu í eðlilegum takti við það ákall sem við vitum að er enn í samfélaginu eftir þá atburði sem eru nýskeðir.“
Ljóst er að mörgum hluthöfum og stjórnendum tryggingafélaganna finnst umfjöllun undanfarinna daga vera mjög ósanngjörn. Þeir benda á að Tryggingamiðstöðin (TM) hafi greitt fjóra milljarða króna í fyrra í arð, auk þess sem félagið hafi keypt bréf af eigendum sínum, þrátt fyrir að hagnaður félagsins hafi verið mun lægri en það. Þá hafi engin sagt neitt. Hin tvö félögin, VÍS og Sjóvá, hafi einfaldlega verið að gera slíkt hið sama nú. Þau hafa nú bæði dregið í land með arðgreiðslurnar vegna umræðunnar og „orðsporsáhættu“ sem tillögur um arðgreiðslurnar höfðu skapað.
Fréttir hafa verið sagðar af því að stærstu lífeyrissjóðir landsins, sem eru líka stærstu eigendur íslensku tryggingafélaganna, ætluðu ekki að styðja arðgreiðslurnar og berjast gegn þeim á komandi aðalfundum. Þessi framsetning þeirra þykir mörgum vera töluverð hræsni, þar sem arðgreiðslurnar voru í fullu samræmi við arðgreiðslustefnu félaganna og þau markmið um fjármagnsskipan sem samþykkt höfðu verið í stjórn þeirra. Þar sitja nefnilega m.a. fulltrúar lífeyrissjóða og þeir, sem langstærstu fagfjárfestar á Íslandi, eru í öllum tilvikum fullkomlega meðvitaðir um hver arðgreiðslustefnan sé.
Það sé því ódýrt hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna að ætla sér að flýja ábyrgð á eigin ákvörðunum þegar þær valda úlfúð og reiði í samfélaginu.