Margt bendir til þess að staðfesting Loftslagssáttmálans, sem fer fram að viðstöddum um 150 þjóðarleiðtogum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna 22. apríl næstkomandi, verði einn áhrifamesti viðburður í efnahagslífi heimsins um langt skeið.
Með staðfestingu sáttmálans hafa ríkisstjórnir allra helstu iðnríkja heims skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og einnig að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi þegar kemur að orkunýtingu.
Framtíðin er ekki í olíu, heldur í öðrum vistvænum orkugjöfum. Það eru stóru skilaboðin sem senda verða út, að þessu sinni formlega með öllum þeim þunga sem það þýðir.
Núna mun reyna á ríki heimsins, sem búa yfir þekkingu á vistvænum orkugjöfum og hafa burði til þess að hrinda í framkvæmd stefnubreytingu. Ísland tilheyrir fámennum hópi ríkja (hugsanlega er ekkert land í heiminum í betri stöðu) sem raunverulega getur breytt hratt um stefnu, og sent skilaboð til umheimsins í þessu efnum.
Jarðhiti og vatnsafl eru helstu orkugjafar landsins, og á höfuðborgarsvæðinu er mögulegt að byggja upp innviði fyrir rafbílavæðingu alls svæðisins, tiltölulega hratt. Það sem þarf til er pólitískur vilji, framsýni og dugur. Enginn þarf að efast um að efnhagslega myndi það borga sig fyrir okkar litla ríki, að spara þjóðarbúinu gjaldeyrinn sem fylgir olíukaupunum fyrir bílaflotann.
Bílaðinaðurinn stendur á tímamótum, ekki síst eftir að Tesla Motors kynnti Model 3 bíl sinn fyrir nokkrum vikum, en hann fer formlega í sölu á næsta ári. Hann mun kosta nýr 35 þúsund Bandaríkjadali, eða sem nemur 4,5 milljónum króna. Hann er að öllu leyti samkeppnishæfur við aðra bíla sem ganga fyrir olíu, fyrir sama pening, og margir segja bílinn vera mun betri. Bíllinn er fyrir almenning, ekki bara hina ríku.
Þetta þýðir að tæknilega er bílaiðnaðurinn búinn að setja stjórnmálamenn undir þrýsting um að styðja við þessa þróun, með innviðauppbyggingu og framsýnum áætlunum. Pólitíska áhættan er töluverð, því olíuiðnaðurinn mun vafalítið fara í mikinn skotgrafarhernað á næstu misserum, til að verja sína hagsmuni.
Stefnu um innviðauppbyggingu yrði alltaf að setja fram í tímasettri nákvæmri áætlun, og aðlögunin tæki sinn tíma. Það gefur auga leið.
Ekki er langt síðan að þessi staða var álitin órafjarri, en nú hefur hún bankað að dyrum. Tími aðgerða er runninn upp. Ísland er í einstakri stöðu til að taka forystu í þessum efnum. Vonandi hafa stjórnmálamenn þor til að framkvæma og sýna framsýni.