Nú er mikið rætt um hin svokölluðu Panamaskjöl. Fréttir úr þeim valda miklum titringi og viðbrögð við birtingu gagnanna hafa sum hver verið gríðarleg. Þau sterkustu voru fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar sem fram fóru 4. apríl síðastliðinn, þegar á þriðja tug þúsund Íslendinga söfnuðust saman í kringum Alþingishúsið. Ástæðan var opinberun á aflandsfélagaeign æðstu ráðamanna þjóðarinnar í sérstökum Kastljósþætti deginum áður.
Þessi atburðarás leiddi til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra og ný ríkisstjórn var mynduð. Aflandsfélagaeign íslensku ráðherranna þótti heimsfrétt og myndir af íslenska forsætisráðherranum voru á forsíðum stærstu fjölmiðla heims.
Samt keppast ansi margir við að segja að opinberanir á aflandsfélagaeign Íslendinga sé stormur í vatnsglasi. Að ekkert óeðlilegt sé þarna á ferðinni. Að athafnafólk, sem búsett hefur verið erlendis til fjölda ára sé bara að stunda sín viðskipti og að það sé ekkert sérstaklega fréttnæmt. Þetta séu í raun upplýsingar sem hafi ávallt legið fyrir og engin leynd hvíli yfir þeim. Þá hafi undantekningarlaust verið greiddir skattar og gjöld af félögunum og því ekkert ólöglegt við þau.
Í raun sé birting úr Panamaskjölunum samsæri vinstri manna og valinna fjölmiðla sem velji hverjum skuli kasta fyrir ljónin og hverjum skuli hlíft. Og sérstaklega sé ámælisvert að yfirvöldum og öðrum fjölmiðlum en þeim sem vinna úr gögnum Panamalekans sé haldið frá þeim. Vinnubrögð fjölmiðla sem úr gögnunum vinna séu þess til þess gerð að gera alla grunsamlega og minni meira að segja á vinnubrögð Hitlers.
Nokkrar staðreyndir
Í ljósi þessara fullyrðinga, sem eru háværar og fara víða, er ágætt að nokkrar staðreyndir liggi fyrir. Í fyrsta lagi er vert að taka fram að það er ekki til neinn listi um gögnin sem lekið var frá Mossack Fonseca. Um er að ræða 11,5 milljón gagna sem eru nálægt þrjú terabæti að stærð. ICIJ, alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, hafa gögnin undir höndum og hafa sett upp gagnagrunn utan um þau. Samtökin völdu að fá fjölmiðla út um allan heim til samstarfs við sig til að vinna úr gögnunum, alls 109 talsins.
Á Íslandi var sá fjölmiðill sem fékk aðgengi að gögnunum Reykjavík Media, sem fékk síðan fleiri fjölmiðla til liðs við sig við úrvinnslu gagnanna. Reykjavík Media er eini íslenski miðillinn sem getur leitað í gögnunum. Hinir íslensku samstarfsmiðlarnir vinna síðan úr gögnum í samstarfi við Reykjavík Media. Þeir geta ekki tekið ákvörðun um það að afhenda skjölin. Sú ákvörðun verður að vera hjá ICIJ.
Það verður engum hlíft í þessum umfjöllunum og engum kastað sérstaklega fyrir ljónin. Það skiptir engu máli hvort viðkomandi heiti Sigmundur, Bjarni, Vilhjálmur eða Jón Ásgeir. Umfjöllun fjölmiðlanna verður alltaf byggð á sömu grundvallarforsendunni: hún verður að eiga erindi við almenning.
Auður sem varð til í íslensku samfélagi en steig upp til peningahimna
Fyrir liggur að um 800 félög í eigu um 600 Íslendinga eru nefnd í skjölunum. Því er ljóst að töluverðan tíma muni taka að vinna úr þeim. Sú forgangsröðun sem var ákveðin snérist um að kanna fyrst tengsl stjórnmálamanna og þeirra sem tengjast stjórnmálum við aflandsfélög í umsjón Mossack Fonseca. Þar hefur nær öllum kjörnum fulltrúum marga áratugi aftur í tímann verið flett upp.
Það kemur nefnilega almenningi við hvort að stjórnmálamenn - sem koma að lagasetningu eða fara með framkvæmdavald ríkisvaldsins - geymi eignir í þekktum skattaskjólum, lifi ekki í efnahagsveruleika krónunnar sem allflestir kjósendur þeirra þurfa að búa í og greiði mögulega ekki sinn skerf til samneyslunnar. Þegar við bætist að upplýst hefur verið að sjálfur forsætisráðherra þjóðarinnar var kröfuhafi í slitabú bankanna - en ákvað að leyna því á meðan að hann kom beint að úrlausn þeirra - þá þarf eiginlega ekkert að ræða hversu miklu máli fréttaflutningur af þessum málum skiptir.
Í öðru lagi var ákveðið að kanna aflandsfélagaeign áhrifamanna í viðskiptalífinu og þeirra sem hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir mikilvægar stoðir samfélagsins eins og lífeyrissjóði. Slíkir sjóðir eru lang umsvifamestu fjárfestar í íslenska hagkerfinu og sýsla með þúsundir milljarða króna sem eru í endanlegri eigu almennings. Það á sannarlega erindi við almenning ef þeir sem stýra sjóðunum eru sjálfir í viðskiptum í gegnum aflandssvæði í samstarfi við íslenska banka á sama tíma og þeir eru að taka ákvarðanir um að fjárfesta lífeyri íslensku þjóðarinnar, oft í samstarfi við sömu banka.
Almannahagsmunirnir varðandi áhrifamenn í viðskiptalífinu eru líka mjög bersýnilegir. Lítill hópur einstaklinga spann flókið félaganet sem saug peninga út úr íslenska bankakerfinu til að kaupa gríðarlegt magn eigna innanlands og erlendis. Nánast undantekningarlaust var auður þessara einstaklinga sprottinn upp úr íslensku samfélagi. Hann varð til hérlendis en færður annað.
Umsvif og völd þessara hópa urðu stjarnfræðileg. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, varpaði mjög björtu ljósi á þessa stöðu. En heimildir hennar náðu ekki til aflandsfélaganna sem voru oftar en ekki endastöð þeirra peninga sem soguðust út úr íslenska hagkerfinu. Nefndin var ekki með heimildir til að „elta peningana“. Panamaskjölin lýsa upp sum skúmaskotanna sem sýna hvar þeir peningar eru niðurkomnir og í hvað þeir hafa verið nýttir á undanförnum árum.
Eins og að kaupa Armani í outleti á 60 prósent lægra verði
Þessar upplýsingar skipta almenning máli vegna þess að gjörðir umræddra einstaklinga höfðu bein áhrif á líf hans. Þegar þeir gátu ekki greitt mörg þúsund milljarða króna samanlagðar skuldir sínar við íslensku bankanna – peninga sem bankarnir fengu lánaða hjá útlendingum – fóru félög þeirra á hausinn hvert af öðru og lítið sem ekkert skilaði sér upp í kröfur á flest þeirra. Gjaldeyrir sem fenginn hafði verið að láni var horfinn en eftir stóðu rosalegar skuldir við útlenska kröfuhafa sem hlupu á þúsundum milljarða króna. Þetta ójafnvægi hélt Íslandi í heljargreipum fjármagnshafta árum saman. Höftin voru sett á vegna þess að ekki var til gjaldeyrir til að borga þessar skuldir.
Þegar upplýst er að áhrifafólk í viðskiptalífinu á stóra sjóði í Panama eða á öðrum aflandseyjum - sjóði sem kröfuhafar þeirra vissu ekki af og komust ekki í - sem það notar til að fjármagna viðskiptaævintýri sín á Íslandi og víðar eftir hrun þá á það skýrt og brýnt erindi við almenning. Þeir sem komu fé undan með þessum hætti fengu nefnilega um 50 prósent virðisaukningu á þetta fé sitt með gengisfalli krónunnar eftir hrun. Þeir gátu síðan fengið 20 prósent afslátt af eignum á Íslandi með því að flytja það fé aftur hingað í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Leið sem dæmdir glæpamenn máttu meira að segja nýta sér og Seðlabankinn neitar að upplýsa um hverjir fengu að nota. Alls fengu Íslendingar 17 milljarða króna virðisaukningu með því að nota leiðina. Guðrún Johnsen, lektor í fjármálum, lýsti þessu svona í grein sem hún birti nýverið á Kjarnanum: „Þetta er eins og að fara í „outlet“ í Bandaríkjunum og kaupa Armani föt á 50% afslætti og svo 20% afslætti ofan á það. Venjulegur launþegi getur illa keypt þennan lúxusvarning en kæmist hann á slíka útsölu á hann hins vegar í miklu minni vandræðum með það, enda verðið nú orðið 60% lægra.“
Þeir sem nýtt hafa sér þessa leið hafa því getað keypt eignir á Íslandi á brunaútsöluverði sem engum „venjulegum“ Íslendingi bauðst. Ójafnræðið er gríðarlegt. Og það skiptir máli að upplýsa um það.
Ómögulegt að vita hvort skattar hafi verið greiddir
Nánast allir sem nefndir hafa verið í umfjöllunum um Panamaskjölin hafa klifað á því að allir skattar og gjöld hafi alltaf verið greidd. Þótt ekki sé hægt að fullyrða hvort það sé rangt er ekki heldur hægt að fullyrða að það sé rétt fullyrðing. Samkvæmt lögum frá 2010 ber öllum eigendum aflandsfélaga að skila CFC eyðublaði með skattframtali sínu með upplýsingum um skattstofna á lágskattasvæðum. Ríkisskattstjóri er ekki með yfirlit yfir hversu margir aðilar hafa skilað CFC eyðublaði með skattframtölum sínum. Auk þess hafa íslensk yfirvöld nær engin tól til að sannreyna hvort þær upplýsingar sem gefnar eru á skattframtölum um aflandseignir séu réttar. Því byggir allt það kerfi sem á að knýja aflandsfélagaeigendur til að gefa upp allar eignir sínar með réttum hætti á því að þeir kjósi að segja satt og rétt frá.
Það er ekkert eðlilegt við það þegar lítill hópur landsmanna segir sig úr efnahagslegum veruleika allra hinna. Það á enginn aflandsfélag bara vegna þess að það þykir flott. Fyrir slíkri eign eru tvær meginástæður: það felur annað hvort í sér „skattahagræði“ eða það er verið að fela eignir fyrir einhverjum sem má ekki vita hvar þær eru niðurkomnar. Sá einhver geta verið yfirvöld, kröfuhafar eða almenningur allur. Það er ekki eðlilegt ástand að nokkur hundruð Íslendingar fái að fara með stórar fjárhæðir sem urðu til á Íslandi í aflandsskjól þegar illa árar og geti síðan stýrt þeim aftur inn í landið til eignakaupa þegar verðgildi fjárhæðanna hefur hækkað stórkostlega vegna gengisfalls og hruns á eignarverði.
Þetta er ekki eðlilegt og það á alls ekki að láta eins og þetta sé eðlilegt.